Sport

Fá bikarinn á Brúnni eftir viku

Eiður Smári Guðjohnsen náði í gær þeim frábæra árangri að verða Englandsmeistari í knattspyrnu með liði sínu Chelsea sem lagði Bolton 2-0 á útivelli. Eiður er fyrstur íslenskra knattspyrnumanna til að hampa þessum titli en bikarinn verður afhentur næsta laugardag þegar Chelsea mætir Hermanni Hreiðarssyni og félögum í Charlton á heimavelli. Í millitíðinni er hins vegar stórleikur því á þriðjudag er seinni leikur Liverpool og Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildarinnar, en fyrri leik liðanna lauk með markalausu jafntefli. Það lið sem vinnur kemst í úrslitaleik Meistarakeppninnar,  nokkuð sem alla knattspyrnumenn dreymir um. Eiður Smári á þannig möguleika á því að verða fyrsti íslenski Englandsmeistarinn í knattspyrnu og fyrstur Íslendinga til að spila úrslitaleik í Meistaradeildinni í sömu vikunni. Arnór Guðjohnsen faðir Eiðs Smára var á leiknum í gær. Hann samfagnar syni sínum og segir  að lokasprettur liðsins hafi verið frábær. Hann hafi orðið eilítið hræddur um að liðið gæfi eftir er nær drægi leiktíðarlokum en það hafi staðið sig frábærlega. Aðspuður um stemmninguna að leik loknum segir Arnór að þúsundir Chelsea-aðdáenda hefðu þust út á götur í kjölfar sigursins með fána og flögg til að fagna sigrinum. Það hafi verið gríðarlega gaman. Arnór segist ánægður með að Chelsea hafi gert út um meistaratitilinn í gær vegna leiksins gegn Liverpool í Meistaradeildinni sem verði gríðarlega erfiður og það væri frábært ef liðið ynni líka þar. Það sé mikil spenna hjá liðinu núna og vonandi standist það hana. Aðspurður hvort hjarta hans sem föður hefði slegið hraðar í gær játar Arnór það og segist feginn að Englandsmeistaratitilinn sé í höfn. En hjartað fari aftur að slá örar á þriðjudaginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×