Sport

Walker dæmdur í eins leiks bann

Antoine Walker, framherji Boston Celtics, var í gærkvöldi dæmdur í eins leiks bann, eftir að hafa stjakað við dómara í þriðja leik Boston og Indiana í fyrrakvöld og verður því ekki með liði sínu í kvöld þegar það sækir Indiana heim í fjórða leik einvígisins. Walker fékk dæmda á sig sína aðra tæknivillu undir lok leiksins, fyrir grófa villu á Jermaine O´Neal hjá Indiana. O´Neal stjakaði hressilega við Walker í kjölfarið og í riskingunum á milli leikmannana varð Walker á að rífa í hönd eins dómara leiksins þegar hann reyndi að ná til O´Neal. O´Neal slapp við bann, en hann fær engu að síður 10.000 dollara sekt fyrir að ýta við Walker. Þessi tíðindi eru liði Boston afar slæm, því eftir að hafa unnið stórsigur á Indiana í fyrsta leik liðanna, hefur hvorki gengið né rekið hjá þeim og þeir hafa nú tapað tveimur leikjum í röð í einvíginu. Doc Rivers, þjálfari Boston hefur mætt mikilli gagnrýni fyrir að vera undir í einvíginu, því eins og flestir vita sem fylgjast með NBA boltanum, er lið Indiana vængbrotið af meiðslum og forráðamönnum Boston þykir óásættanlegt að vera undir í rimmu við lið sem er keyrt áfram af gamalmennum, meiddum stjörnum og minni spámönnum. Það má þó alls ekki afskrifa lið Indiana þó það sé vissulega í erfiðleikum með mannskap sinn, því í liðinu eru miklir reynsluboltar og liðið er líka með einn besta þjálfara deildarinnar, Rick Carlisle, sem hefur náð ótrúlegum árangri með liðið í vetur þrátt fyrir að á ýmsu hafi gengið.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×