Erlent

Stjórnarbylting í Kirgisistan

Stjórnarbylting var gerð í Kirgisistan á fimmtudaginn og hafa leiðtogar byltingarinnar þegar skipað nýja ríkisstjórn. Rússar segjast reiðubúnir að starfa með nýjum valdhöfum. Boðað hefur verið til kosninga í júní. Eftir að stuðningsmenn Askar Akajev, forseta Kirgisistan, fengu bróðurpart þingsæta í kosningum í febrúar hafa stjórnarandstæðingar mótmælt kröftuglega. Ólgan náði svo hámarki í fyrradag þegar mótmælendur lögðu undir sig skrifstofur forsetans og stjórnarráðsbyggingar í höfuðborginni. Skömmu síðar lýsti hæstiréttur landsins því yfir að kosningarnar væru ógildar og þingmenn sem sátu á síðasta þingi ættu að taka sæti sín á ný. Þingið skipaði svo Kurmanbek Bakijev, einn byltingarleiðtoganna, sem starfandi forsætisráðherra og forseta. Boðað hefur verið til nýrra kosninga í júní. Talsverðar róstur voru í Bishkek aðfaranótt föstudagsins langa. Til átaka kom á götum úti og fjöldi verslana var rændur og eyðilagður. Óstaðfestar fregnir herma að þrír hafi látist og yfir hundrað manns slasast í ólátunum. Viðbúnaður er talsverður í landinu og hefur landamærunum til Kína verið lokað. Í gær tilkynnti svo Bakijev að hann hefði þegar skipað í helstu embætti ríkisstjórnar sinnar. Í ávarpi sínu til þjóðarinnar hvatti hann fólk til að sýna stillingu og hét því að berjast gegn spillingu og flokkadráttum í landinu. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, kvaðst í samtali við Interfax-fréttastofuna harma að stjórnarskiptin í Kirgisistan hefðu ekki átt sér stað eftir lögformlegum leiðum en sagði þó að rússnesk stjórnvöld myndu starfa með hinum nýju valdhöfum. Pútín sagði jafnframt að Akajev fyrrverandi forseti gæti fengið hæli í Rússlandi ef hann vildi. Akajev flúði land þegar ljóst varð í hvað stefndi og er talinn dvelja í Kasakstan. Rússnesk sjónvarpsstöð hafði eftir honum í gær að valdarán hefði verið framið. Kirgisistan er þriðja fyrrum Sovétlýðveldið á rúmu ári þar sem friðsöm stjórnarbylting er gerð. Ólíkt Úkraínu og Georgíu er hins vegar ekki búist við að veigamiklar breytingar verði á stefnu nýrra stjórnvalda í utanríkismálum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×