Innlent

Hlutfall matvöru lækkað verulega

Hlutfall matvöru í neysluútgjöldum heimilanna hefur farið hríðlækkandi síðustu áratugina. Árið 1940 mældist það 43 prósent, 29 prósent árið 1968, árið 1995 mældist það 17 prósent og fyrir þremur árum tæp 16 prósent. Hlutfallið hefur trúlega lækkað enn frekar núna þó ekki séu til neinar tölur sem sýna það. "Framleiðslukostnaður hefur lækkað gífurlega, eins hefur samþjöppun á eignarhaldi verið gífurleg og flutningskostnaður hefur lækkað þannig að það eru margir þættir sem skýra lækkunina á hlutfalli matvöru í neyslu heimilanna," segir Henný Hinz hjá Verðlagseftirliti ASÍ. "Vonandi skilar verðstríðið núna lægra matvöruverði til neytandans," segir hún og telur það fyrst koma almennilega í ljós eftir nokkrar vikur eða mánuði. Íslendingar og Norðmenn voru með annað hæsta matvöruverð í gömlu 15 Evrópusambandsríkjunum árið 2003, eða um 47 prósentum hærra en meðaltalið. Aðeins Svisslendingar voru með hærra matvöruverð. Danir komu næstir með 30 prósentum hærra verð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×