Innlent

Stóru olíufélögin hafa öll hækkað

Miklar sviptingar hafa verið á bensínmarkaðnum hér á landi undanfarna daga og hafa öll stóru olíufélögin hækkað verð á bensínlítranum. Verðið hjá Atlantsolíu er hins vegar óbreytt. Stóru olíufélögin þrjú, Skeljungur, Essó og Olís, segja að ástæðan fyrir verðhækkunum að þessu sinni séu töluverðar hækkanir á heimsmarkaðsverði að undanförnu. Í fyrradag reið Essó á vaðið og hækkaði verð á 95 oktana bensíni um 1,50 krónu og í gær aftur um eina krónu. Skeljungur hefur hækkað lítrann um þrjár krónur og er listaverð í dag 107,60 krónur með fullri þjónustu. Bensínlítrinn kostar nú 107,10 krónur hjá Essó og hjá Olís er verðið svipað. Rétt áðan hækkaði ÓB-bensín, sem er í eigu Olís, lítrann upp í 99,70 krónur eða um tæpar tvær krónur. Á sjálfsafgreiðslustöðvunum er verðið hjá stóru olíufélögunum þremur á bilinu 101,10 til 101,70 krónur fyrir lítrann á 95 oktana bensíni. Hjá Atlantsolíu er bensínverðið hins vegar óbreytt, eins og áður sagði, og kostar lítrinn 97,20 krónur. Atlantsolía ætlar að endurskoða verðlagninguna í lok dagsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×