Innlent

Krossanesborgir friðlýstar

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra undirritaði í fyrradag auglýsingu um friðlýsingu Krossanesborga við Akureyri. Markmiðið er að vernda svæðið og auka gildi þess til útivistar fyrir almenning, náttúruskoðunar og fræðslu. Svæðið er mikilvægur varpstaður fjölda fuglategunda, búsvæði sjaldgæfra plöntutegunda og þar eru ýmsar sérstæðar jarðmyndanir. Á svæðinu var um tíma kotbýlið Lónsgerði og enn sést móta fyrir húsatóftunum. Einnig er hægt að sjá ummerki um vatnsveituskurð sem gerður var um aldamótin 1900 og fyrsti akvegur í norður frá Akureyri, lagður 1907, liggur um svæðið. Er það nánast eini búturinn sem enn er eftir af þeim vegi. Á tímum síðari heimsstyrjaldar voru hermannabraggar á svæðinu, byssuhreiður og gaddavírsflækjugirðingar og sjá má leifar af þeim stríðsmannvirkjum. Ætlunin er að laga aðkomuna að svæðinu á næstunni, merkja gönguleiðir og bæta aðstöðu fyrir vettvangsnám.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×