Fastir pennar

Útnefningaspilling

Maður les í Fréttablaðinu að Framsókn "eigi" fréttastjórastöðuna á útvarpinu. Þeir muni fá að ráðstafa henni. Vonandi felst ekki í þessu að sá sem er hæfastur til að gegna starfinu verði ekki ráðinn. Það væri skrítið ef gengið væri framhjá hinum margreynda og hámenntaða Friðriki Páli Jónssyni, en líklega verður það raunin. Pólitíkusunum þykir hann ekki nógu áreiðanlegur. Hitt er svo annað mál að maður vill fremur hlusta á Friðrik Pál í útvarpinu en vita af honum í einhverri stjórnsýslu. Sigríður Árnadóttir er sögð líkleg til að hreppa stöðuna. Henni er treystandi til að standa vörð um hefð sem nær nánast aftur í árdaga útvarpsins. Fyrir einhvern misskilning var reynt að flytja þessa hefð upp á Stöð 2; það snerist fyrst og fremst um þá hugdettu að fréttastofa Stöðvar 2 fengi aukinn virðuleika. Það entist ekki einu sinni í ár. Nú er komin önnur stefna þar uppfrá. Er rétt athugað hjá mér að það sé meira um kerlingafréttir, afsakið - fréttir á mannlegu nótunum? Að allt í einu sé kominn meiri dr. Phil í fréttatímana? Ítalir hafa náð mikilli fágun í þessari tegund spillingar - þar hafa stjórnmálaflokkar útdeilt embættum eftir nákvæmu fyrirkomulagi. Öllu þjóðfélaginu hefur verið skipt upp milli þeirra. Þetta kerfi hefur verið kallað lottizzazione. Til skamms tíma kvað svo rammt að því að kommúnistarnir áttu fiðlurnar í La Scala og fengu líka að raða í stöður á póstinum. Hér hafa menn reynt að nota orðið útnefningaspilling - ég veit ekki hvort það er brúklegt. --- --- --- Besta þraut sem ég hef séð í raunveruleikaþætti er að láta fólk skrúfa saman Ikea mublur. Ég mundi ekki óska versta óvini mínum að þurfa að leysa þetta. Sjálfur ákvað ég fyrir mörgum árum að kaupa aldrei framar Ikea - heilsunnar vegna. Fólkið i Kapphlaupinu ógurlega var líka alveg að að niðurlotum komið. Það eru allar líkur á því að brátt hnígi keppandi í þáttunum niður örendur. Maður er eiginlega með lífið í lúkunum að horfa á þetta. Þarna er allt sem veldur skyndilegu hjartaslagi - áreynsla, stress, æsingur, reiði, þreyta. Kannski verða þættirnir ennþá vinsælli fyrir vikið. Annars eru þetta einu raunveruleikaþættir sem ég hef nennt að horfa á. Keppendurnir versna stöðugt; í þáttaröðinni sem er verið að sýna núna eru sumir eins og þeir hafi sloppið úr dýragarði. --- --- --- Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra boðaði frumvarp um bann við reykingum á veitingahúsum í sumar. Stóð til að leggja það fram í haust. Enn bólar ekkert á frumvarpinu. Skyldi Jón vera að heykjast á þessu eða næst ekki samstaða um frumvarpið í ríkisstjórn. Eitt er víst að þegar þetta kemur fram má búast við háværum mótmælum frá ungum sjálfstæðismönnum sem álíta þetta meiriháttar frelsisskerðingu. Ég er ekki viss um að aðrir verði til að andmæla - enginn vill láta stimpla sig sem vin reykinga. En eins og ég benti á í grein um daginn er himinhrópandi þversögn í því hvernig áfengi er hampað og ýtt undir neyslu þess meðan tóbakið fer nánast að verða neðanjarðarvara. --- --- --- Í DV í dag var frétt um að foreldra sem ku vera reiðir yfir því að í Stundinni okkar voru flutt lög úr söngleiknum Fame. Eru textarnir sagðir vísa til hluta sem ekki eru við hæfi barna - dóps og kynlífs. Ég hitti móður niðri í bæ sem sagði að hún vildi frekar að dóttir sín sæi Fame en að hún læsi DV. --- --- --- Ég hef áður nefnt hvað Kári er eindreginn Davíðsmaður: Kári: Ég hefur hittað Davíð. Egill: Er Davíð góður? Kári: Já. --- --- --- Bendi svo á lífleg skoðanaskipti um kortið Ísland örum skorið hér neðar á síðunni.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×