Fastir pennar

Framverðir hræsninnar

Bush forseti varð uppvís að því í síðustu viku að hafa lesið bók. Forsetinn tók sérstaklega fram að bókin væri stutt, en þar sem maðurinn hefur alla sína tíð verið betur þekktur fyrir aðra hluti en að eyða tíma sínum í að lesa bækur var þetta bæði óvanaleg og forvitnileg frétt. Bókin er um frelsi og lýðræði. Um þau efni hafa verið skrifaðar mörg þúsund bækur á seinni árum og því veitir það nokkra innsýn í hugmyndaheim forsetans að af öllum heimsins bókum um þessi efni skyldi hann velja sér þessa til lesturs. Það sem gerir málið forvitnilegra er að forsetinn virtist vísa til bókarinnar til útskýringar á þeirri yfirlýstu stefnu Bandaríkjanna að vilja breiða út frelsi og lýðræði í heiminum. Bókin er eftir Natan Sharansky sem margir muna eftir sem sérlega hugrökkum andófsmanni í Sovétríkjunum. Barátta Sharanskys gegn ofríki hins sovéska alræðis vakti heimsathygli og ríka samúð um öll Vesturlönd, líkt og barátta Shakarovs á sama tíma. Síðan þá hefur Sharansky verið áberandi maður í Ísrael þar sem hann berst af sínum mikla þrótti gegn því að einföldustu mannréttindi Palestínumanna séu nokkurs virt. Þessar vikurnar berst hann gegn því að ísraelskir landtökumenn á Gazaströndinni séu látnir skila landi aftur til Palestínumanna og líkir stefnu Sharons við ofsóknir sovéska ríkisins gegn gyðingum. Sharansky er þannig úti á ysta kanti í ísraelskum stjórnmálum og með sömu stefnu og heitustu þjóðernisofstækismenn þar í landi. Meginstefnumið hans hafa verið þau að sem allra flestir gyðingar flytji til Ísraels og setjist að á löndum Palestínumanna sem síðan verði innlimuð í Ísrael. Um leið berst hann gegn því að Palestínumenn sem hraktir hafa verið af heimilum sínum á síðustu áratugum í þjóðernishreinsunum Ísraelsmanna fái að snúa aftur heim til sín. Barátta hans snýst því um að alþjóðlög fái ekki að gilda í Palestínu og að einföldustu mannréttindi Palestínumanna séu virt að vettugi. Fátt í stefnu Sharanskys skilur hann að frá hörðustu fylgjendum þjóðernis og trúarofstækis í Ísraels en hann réttlætir hins vegar stefnu sína með hugsjónum frelsis og lýðræðis. Í máli sínu notar hann sífellt rök lýðræðis og frelsis til að reyna að sannfæra menn um að best sé að ræna sem mestu af landi Palestínumanna og halda þeim í því fjöldafangelsi sem Palestína er í dag. Í þessu samhengi verða menn að lesa bók Sharanskys um frelsið og lýðræðið sem heillaði forseta Bandaríkjanna svo mikið að hann tók sér fyrir hendur að lesa heila bók en forsetinn er sagður vitna í þessa einu bók í tíma og ótíma. Fyrir þá sem eru vanari bóklestri en forseti Bandaríkjanna eru mótsagnir í málflutningi Sharanskys augljósar, og ekki aðeins þær sem snúa að muninum á hugsjónum og stefnumálum höfundar. Meginatriðið er þó að ást þessa hugrakka og einbeitta manns á frelsinu virðist því miður ekki ná lengra en ýtrustu hagsmunir hans sjálfs kalla eftir. Að þessu leyti líkist hugmyndaheimur Sharanskys hugmyndaheimi Bush forseta, sem nú hefur í gegnum talsmann sinn Condoleezzu Rice gefið út nýjan lista yfir verstu ríki heimsins. Hann kallar þessi ríki útverði einræðisins. Nafngiftin gefur til kynna að þarna fari verstu skúrkar heimsins. Þar er líka að finna nokkur afar vond ríki. En hvers vegna ekki Úzbekistan þar sem forsetinn lætur pynta andstæðinga sína til dauða með því að sjóða þá í potti? Þar hafa Bandaríkjamenn gert bandalög við myrkraöflin til að fá að byggja þar herstöðvar. Eða hvers vegna skyldi Íran vera þarna en ekki Sádi-Arabía sem stundar enn öflugri kúgun á fólki? Eða Pakistan? Svarið þekkja allir. Þetta eru bandalagsríki Bandaríkjanna. Rétt eins og El Salvador, Gvatemala og Hondúras þar sem Bandaríkjastjórn undir forustu Reagans og Bush hins eldri beinlínis fjármagnaði dauðasveitir sem drápu hundruð þúsunda manna fyrir það eitt að vilja frelsi og lýðræði í stað morðóðra herforingjastjórna. Á sama tíma var Kúba sögð hluti af heimsveldi hins illa þótt ríkið væri greinilega eitt hinna skárstu í heimshluta þar sem Bandaríkin fjármögnuðu fjöldamorðingjana. Athyglisverð tilraun forseta Bandaríkjanna til bóklesturs vekur ekki vonir um nýtt samhengi á milli orðræðu og athafna.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×