Innlent

Raforkuinnkaup eftir ár

Rafmagn verður að neysluvöru sem almenningur getur valið sér eftir hentugleika og verðsamanburði að ári liðnu. Í dag geta íbúar í fjölbýlishúsi í Breiðholti, eftir breytingar á raforkulögum, stofnað með sér félag um raforkukaup. Þann 1. janúar 2005 hófst samkeppni á íslenskum raforkumarkaði þegar skilið var á milli framleiðslu, flutnings, dreifingar og sölu á raforku. Þetta þýðir á mannamáli að fólk getur valið á milli ólíkra söluaðila rafmagns. Samkeppninni verður komið á í áföngum og fyrsta árið geta stærri notendur, þ.e. þeir sem nota meira en hundrað kílóvött, nýtt sér þetta frelsi. Meðalnotkunin á venjulegu heimili eru tvö kílóvött. Þar til einstaklingar geta valið á milli raforkusala getur fólk hins vegar stofnað með sér félög um raforkukaup. Þannig gæti fjölbýlishús í Æsufelli keypt sér rafmagn. Þorkell Helgason orkumálastjóri segir að erlendis hafi heilu hverfin spyrt sig saman. Það eigi þó eftir að reyna á það í framkvæmd hvernig orkufyrirtækin taki við slíkum viðskiptavinum. Að einu ári loknu geta einstaklingar keypt rafmagn þar sem það hentar. Fólk sem á til að mynda ættingja sem er raforkubóndi úti á landi getur keypt rafmagn af honum að því tilskildu að hann fallist á að tengjast raforkukerfinu og fallist á þær kvaðir sem það felur í sér, segir Þorkell. Alþingi hafi breytt raforkulögunum rétt fyrir jól á þann hátt að smávirkjanabændur fái ívilnanir þannig að þeir ættu að geta tekið þátt í samkeppninni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×