Innlent

Hækkanir umfram verðlagsbreytingar

"Þessar hækkanir eru þægileg fordæmi fyrir almenna markaðinn," segir Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ um þær hækkanir sem ríki og sveitarfélög hafa boðað á gjaldskrá og útsvari. "Ég vitna til þeirrar reynslu að vörur og þjónusta hækkar, þegar svona hefur gerst áður." Hann segir mikið af hækkunum á gjaldskrá hins opinbera vera langt umfram verðlagsbreytingar á árinu. Á lista sem ASÍ hefur tekið saman yfir hækkanir á gjöldum ríkis og sveitarfélaga, kemur meðal annars fram að komugjöld á heilsugæslustöðvar hækki um tæp 17 prósent. Þá bendir Grétar á að fasteignaskattur í Reykjavík sé í raun að hækka um 23 prósent, því bæði sé hækkun á fasteignamati og verið að hækka hlutfallið sem sveitarfélagið tekur af fasteignagjaldinu. "Það er til mikillar fyrirmyndar, vegna þess hve fasteignamatið er að hækka mikið, að Seltirningar eru að lækka hlutfallið. Það sýnir að þetta er ekki endilega sjálfvirk hækkun." Ljóst er hvaða sveitarfélög munu hækka útsvarsálagningu sína fyrir þetta ár, en þar á meðal eru Kópavogur og Reykjavík. En þar sem fjárhagsáætlun er ekki ljós í öllum sveitarfélögum er ekki alls staðar komið í ljós hverjar hækkanirnar verða á þjónustugjöldum. Víðast verða þær um fimm prósent, eftir því sem segir á heimasíðu ASÍ. Í febrúar eða mars mun koma í ljós hvaða áhrif þessar hækkanir hafa á vísitölu neysluverðs og því verðbólgu í landinu. Grétar segir augljóst að þessar hækkanir muni hafa þar áhrif, þrátt fyrir að menn hafi verið að gera að því skóna að gengi íslensku krónunnar og aðgerðir Seðlabankans myndu kannski slá þar á. Áhrif hækkana á verðbólgu muni ekki koma í ljós fyrr en á haustmánuðum. Ef verðbólga verður ekki innan þeirra marka sem gert var ráð fyrir við samninga, er hægt að segja þeim upp. Hvort af því verður getur Grétar ekki sagt fyrir um, "það geta hlutir gerst sem við sjáum ekki fyrir í dag, en hættan er fyrir hendi." Hækkanir á gjaldskrá opinberrar þjónustuRíkið Komugjöld á heilsugæslustöðvar 16,7% Komugjöld ellilífeyrisþega, örorkulífeyrisþega og vegna barna utan dagvinnutíma 14,3% Gjöld vegna vitjana lækna 15,6% Gjöld vegna vitjana lækna til ellilífeyrisþega, örorkulífeyrisþega og barna 16,7% Gjöld vegna heimsókna á slysadeildir sjúkrahúsa 3,4% Gjald fyrir hverja komu og endurkomu á göngudeild sjúkrahúsa vegna þjónustu annarra en lækna 3,3% Almennt gjald sjúkratryggðra fyrir keiluskurðaðgerðir og hjartaþræðingu 3,5% Gjald fyrir sjúkraflutninga 2,9% Hækkun á skrásetningagjöldum háskóla 38,5% Hækkun bifreiðagjalds 3,5%. Gjöld fyrir ýmiss konar þjónustu 10,0% (að jafnaði), t.d. ýmis dómsmálagjöld, þinglýsingargjöld og gjöld fyrir útgáfu margvíslegra leyfa, áritana, vottorða og skírteina. Hækkun áfengisgjalds (tóbak og sterkt vín) 7%. Umsýslugjald sem húseigendur greiða (0,1% af brunamótamati) er ekki fellt niður.   Sveitarfélög:Akureyri Sorphreinsunargjald 31% Leikskólagjald 2,5% Árborg Þjónustugjöld 3,5% Hitaveita Suðurnesja 3,58% Mosfellsbær Þjónustugjöld 3-4% Garðabær Sorphreinsunargjald 40% Frístundaheimili 5% Hafnarfjörður Sorphreinsunargjald 18% Leikskólagjöld (með fæði) 15% Leikskólagjöld, forgangur 21% Hitaveita Suðurnesja 4,86% Kópavogur Útsvar 0,09% stig. Sorphreinsunargjald 11% Leikskólagjald (með fæði) 6% Leikskólagjald, forgangur 9% Reykjanesbær Sorphreinsunargjald 4% Hitaveita Suðurnesja 4,86% Reykjavík Útsvar 0,33% stig. Sorphreinsunargjald 30% Leikskólagjald 0,65% Leikskólagjald, forgangur 2% Gjaldskrá frístundaheimila grunnskólabarna 10% Orkuveita Reykjavíkur 3,89% Seltjarnarnes Þjónustugjöld 5% Hitaveita 10% Aðrar rafmagnshækkanir  Rarik í dreifbýli 7,9% Orkubú Vestfjarða >10% Norðurorka fastagjald 4-7% Raforka til hitunar 15-20% Hitaveita Suðurnesja 4,86% (utan Vestmannaeyjar og Árborg 3,58%.) Heimild: ASÍ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×