Erlent

Pólitískir andstæðingar undir grun

Reynt var að ráða Ibrahim Rugova, forseta Kosovo-héraðs, af dögum í morgun en árásin mistókst. Ekki er vitað hver var að verki en grunur beinist að pólitískum andstæðingum Rugova úr röðum fyrrverandi uppreisnarmanna. Rugova var í bíl á leið til fundar við Javier Solana, utanríkisstjóra Evrópusambandsins, þegar árásin var gerð. Sprengju hafði verið komið fyrir í ruslagámi og var sprengd með fjarstýringu í sömu andrá og Rugova fór hjá. Bíll hans er brynvarinn og því sakaði hann ekki. Haft er eftir háttsettum embættismanni hjá Atlantshafsbandalaginu að annaðhvort hafi árásarmennirnir verið nógu heimskir til að reyna slíka árás á brynvarin bíl eða, og það sem þykir vera líklegra, að þessi sprengja hafi aðeins verið nokkurs konar viðvörun. Verið sé að láta Rugova vita af því ef andstæðingar hans vildu þá gætu þeir ráðið hann af dögum. Rugova þakkaði guði fyrir að hafa sloppið aftur en í fyrra var handprengju kastað að heimili hans. Hann sagði að sér hefði nokkrum sinnum verið sýnt banatilræði en vildi ekki ræða það frekar en bætti við að því miður væru enn öfl sem vildu koma á upplausn í Kosovo. Fréttaskýrendur telja líklegt að þessi árás í morgun endurspegli þá valdabaráttu sem þegar er hafin í Kosovo í kjölfar þess að forsætisráðherra landsins, Ramush Haradinaj, gaf sig fram við stríðsglæpadómstólinn í Haag í síðustu viku. Deilur standa á milli andstæðra pólitískra fylkinga um hver eigi að taka við af Haradinaj og leiða landið í sjálfstæðisbaráttu sinni frá Serbíu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×