Erlent

Dauðsföllum fækkar mjög

Dauðsföllum vegna mislinga hefur fækkað um 40 prósent á síðustu fimm árum. Takmark Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna er að fækka dauðsföllum vegna mislinga um helming fyrir árslok 2005. Allar líkur eru á að það takist. Árið 1999 létust tæplega 900 þúsund jarðarbúar úr mislingum. Í árslok árið 2003 var þessi tala komin niður í rúma hálfa milljón. Talsmenn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna segjast himinlifandi með árangur síðustu ára en mislingar eru stór þáttur í barnadauða á heimsvísu og því er hægt að útrýma með bólusetningum. Fyrir aðeins áratug létust milljónir barna árlega úr þessum sjúkdómi sem er einn mest smitandi veirusjúkdómur sem til er og mörg börn sem veiktust urðu fyrir varanlegum miska, svo sem blindu eða heilaskaða. Mislingum hefur nánast verið útrýmt hér á landi með bólusetningum. Þessa miklu fækkun dauðsfalla vegna mislinga á síðustu árum má rekja til skuldbindinga stjórnvalda víða um heim um að fylgja áætlun Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um bólusetningar barna. Samkvæmt henni skal bólusetja að minnsta kosti 90 prósent barna á hverju svæði og skal hvert barn á aldrinum 9 mánaða til 14 ára bólusett tvisvar. Frá 1999 til 2003 voru 350 milljónir barna í heiminum bólusett, þar af 150 milljónir barna í Afríku, enda hefur dauðsföllum vegna mislinga fækkað þar um nær helming á síðustu árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×