Sport

Landsbankadeild í gær

ÍBV sigraði Grindavík með fimm mörkum gegn einu í Landsbankadeild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Andri Ólafsson, Pétur Runólfsson, Pétur Óskar Sigurðsson, Steingrímur Jóhannesson og Matthew Platt skoruðu mörk Eyjamanna en Robert Niestroy mark Grindvíkinga. Þegar 14 umferðir eru búnar og 4 eftir er ÍBV í 8da sæti með 13 stig, Grindavík er í níunda sæti með 12 stig og Þróttur í tíunda og neðsta sæti með 10 stig. Fimmtánda umferðin hefst á sunnudag en þá verða 4 leikir háðir, þar á meðal leikur efstu liðanna; FH og Vals en FH-ingum nægir jafntefli til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Breiðablik tryggði sér í gærkvöldi sæti í Landsbankadeild karla í knattspyrnu á næstu leiktíð. KA og Víkingur gerðu 1-1 jafntefli og þar með er ljóst að KA, sem er í þriðja sæti deildarinnar, getur ekki náð Breiðablik að stigum. Breiðablik er með 38 stig í fyrsta sæti, Víkingur með 30 stig í öðru sæti og KA 28 stig í þriðja sæti. Breiðablik á eftir fjóra leiki en Víkingur og KA 3 leiki og KA getur því mest náð 37 stigum. Andri Steinn Birgisson skoraði mark Víkings gegn KA í gærkvöldi en Jón Gunnar Eysteinsson jafnaði metin fyrir KA. Fjölnir sigraði HK 3-1. Tómas Leifsson skoraði tvö marka Fjölnis og Atli Guðnason eitt. Brynjar Víðisson skoraði mark HK. Þór sigraði Völsung 3-1. Zelko Gavrilovic skoraði tvö marka Þórs og Ibra Jagne eitt en Andri Valur Ívarsson skoraði mark Völsungs. Í kvöld keppa Haukar og Víkingur Ólafsvík en 15. umferð lýkur á morgun þegar Breiðablik mætir HK. Tveir leikir voru í 2. deild í gær, ÍR sigraði Aftureldingu 3-0 og Njarðvík vann Selfoss 3-1.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×