Styrking krónunnar og lækkun bandaríkjadals lækkar skuldir Landsvirkjunar um þrjá og hálfan milljarð króna og leiðir til verulegs gengishagnaðar. Orkusölutekjur fyrirtækisins af stóriðju eru hins vegar í dollurum og því veldur veik staða hans áhyggjum. Hinar miklu sveiflur í gengi gjaldmiðla hafa veruleg áhrif á rekstur fjölda íslenskra fyrirtækja sem eiga viðskipti í mismunandi myntum. Stærsta orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, skuldar yfir hundrað milljarða króna í útlöndum en fær jafnframt um helming tekna sinna í dollurum. Þá eru verktakagreiðslur vegna Kárahnjúka eru að miklu leyti í evru og íslenskum krónum. En hvaða áhrif hafa gengisbreytingar síðustu vikna á afkomu Landsvirkjunar? Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsvirkjunar, segir breytingarnar jákvæðar fyrir fyrirtækið fyrir árið 2004 - gengishagnaður verði því erlendar skuldir lækki í krónum talið. Neikvæði þátturinn er að sjóðsstreymið lækkar, þ.e. þær tekjur Landsvirkjunar sem að hluta til eru í erlendri mynt. Hins vegar kemur þetta ekki sterkt inn í afkomu fyrirtækisnins í ár vegna þess hve seint á árinu breytingarnar eiga sér stað. Orkuverð stóriðjunnar er tengt álverði. Því vegur hátt verð á áli að einhverju leyti upp lágt dollaragengi. Þótt erlendar skuldir fyrirtæksins hafi á skömmum tíma lækkað um þrjá og hálfan milljarð króna veldur þróunin Landsvirkjunarmönnum engu að síður áhyggjum, séstaklega í ljósi þess hve sveiflurnar eru miklar á mjög stuttum tíma.