Erlent

Hættuviðvörun slegið á frest

Hugsanlegt er að veðurstofa Taílands hafi frestað því að gefa út viðvörun vegna yfirvofandi flóðbylgju af ótta við að viðvörunin gæti skaðað ferðamannaiðnað landsins, að því er embættismenn gáfu til kynna í dag. Sulamee Prachuab, sem er yfirmaður jarðskjálftastofnunar landsins, sagði að stofnunin yrði að sýna varkárni, því ferðamálaráð ríkisins áliti slíkar viðvaranir skaða ferðamannaiðnað rættust viðvaranirnar ekki. Stofnunin sendi frá sér viðvörun vegna yfirvofandi flóðbylgju á sunnudag, en í útsendingum til ferðamannastaða í landinu var hættan vanmetin og viðvörun var ekki birt á netinu fyrr en þremur klukkustundum eftir að fyrsta flóðbylgjan skall á suðurströnd Taílands. Flóðbylgjan mikla kom fyrst að taílenskum ströndum og eyjum aðfaranótt sunnudags, miðað við íslenskan tíma, um klukkustund eftir að öflugur jarðskjálfti varð undan strönd Indónesíu. Staðfest var í dag að meira en 1500 manns hafa farist í Taílandi en búist er við því að mun fleiri hafi farist en opinberar tölur segja til um. „Fyrir fimm árum sendi Veðurstofan frá sér viðvörun um hugsanlega flóðbylgju eftir að jarðskjálfti varð á Papúa í Nýju-Gíneu. Ferðamálayfirvöld kvörtuðu yfir því að slík viðvörun myndi hafa slæm áhrif á ferðamannaiðnaðinn," sagði Sumalee. Ferðamennska er helsta tekjulind Taílendinga. Yfirvöld eru afar uggandi yfir fréttum sem þau telja hugsanlegt að valdi tekjutapi í þessum geira. Surapong Suebwonglee, ráðherra upplýsinga- og samgöngutækni í Taílandi, sagði að nefnd óháðra sérfræðinga og taílenskra embættismanna yrði sett á stofn snemma í næsta mánuði. Nefndin myndi kanna hvort Veðurstofan hefði brugðist þeirri skyldu að gefa út viðvörun vegna hamfaranna í tíma. Staðfest tala fallinna er þegar komin yfir fimmtíu þúsund en óttast er að mun fleiri hafi fallið. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir hugsanlegt að helmingi fleiri hafi fallið í valinn áður en yfir lýkur vegna farsótta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×