Innlent

Vilja göng sem fyrst

Sveitarstjórn Austurbyggðar hefur óskað eftir því við samgönguráðherra að opnun Fáskrúðsfjarðarganga verði flýtt um nokkra mánuði þar sem verkið er á undan áætlun. Að sögn Steinþórs Péturssonar, sveitarstjóra Austurbyggðar, er ólíklegt að ráðherra verði við óskinni þar sem Vegagerðin telur að það muni auka kostnað við göngin. Sturla sprengdi síðasta haftið í göngunum 4. september s.l. og þá var verkið um tveimur mánuðum á undan áætlun. „Með því að opna göngin fyrr verður Austurbyggð betri valkostur fyrir það fólk sem er að flytja til Austurlands, auk þess sem margir íbúar sveitarfélagsins sækja vinnu til Reyðarfjarðar vegna framkvæmdanna í tengslum við álverið. Þar að auki vildum við freista þess að fá göngin í notkun áður en ferðamannatímabilinu lýkur," sagði Steinþór Pétursson. Það er Ístak sem vinnur að gerð Fáskrúðsfjarðarganga og verða þau 5,9 km löng með vegskálum. Kostnaður við göngin, og 14,4 km tengiveg, verður tæpir 3,3 milljarðar króna og á framkvæmdum að ljúka í október á næsta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×