Fastir pennar

Athugasemd við málflutning

Hvar í flokki sem við stöndum og hvað sem á undan hefur gengið höfum við fylgst með Davíð Oddssyni undanfarna mánuði, og það er með létti og feginleik sem við fylgjumst nú með bata hans – jafnvel þótt þessum bata fylgi að við andstæðingar hans í pólitík þurfum að sitja undir löngum og skrýtnum orðum sem hann tvinnar nú saman af endurheimtum eldmóði. Látum svo vera. Landsmenn standa í flóknu tilfinningasambandi við þennan mikla sagnameistara íslenskra stjórnmála sem oftast hefur staðið sagnir sínar með glæsibrag, þótt glannalegar hafi virst og fyllt þjóðlífið skáldskap með sögunum sem hann hefur þyrlað upp. Lengi vel var hann með á nótunum þegar frelsi í viðskiptum var þröngvað upp á Íslendinga af Evrópusambandinu með þeim afleiðingum að nú fara Íslendingar eins og logi yfir akur í Evrópusambandinu – eins og áður um mollin í Halifax - og kaupa allt sem virðist gamalt og virðulegt – út á krít - bráðum kaupa þeir væntanlega bæði Eiffelturninn og Sívalaturn sem reistur var fyrir arðinn af Íslandsversluninni og verður enginn maður með mönnum í íslensku viðskiptalífi nema hann eigi að minnsta kosti einn frægan útlenskan turn... Ófyrirleitni Davíðs í málflutningi hefur oft verið ærin en orðheppnin hefur líka verið slík að hrifið hefur andstæðinga. Í skjóli hans hafa undarlegir menn komist til ótrúlegra metorða á sviðum sem síst liggja fyrir þeim en okkur hefur líka þótt til um trúfesti hans við vini sína. Sem ráðamaður hefur hann löngum haft lag á því að að fylgja straumi tímans – allt fram á allra síðustu ár. Atlögur hans að kaupsýslumönnum sem hvorki voru úr Kolkrabbanum né SÍS-draugar – og þurftu hvorki á Sjálfstæðisflokknum né Framsóknarflokknum að halda - urðu til þess að fólk fékk á tilfinninguna að hann væri að breytast í hálfgerðan andófsmann; sem að vísu er prýðileg og nauðsynleg þjóðfélagsstaða sem hann hefur alla burði til að gegna með sóma, en er svolítið ankannalegt hlutskipti þegar á í hlut valdamesti maður landsins sem fyrir vikið virðist reyna að halda dauðahaldi í völd sem tilheyrðu öðrum tímum flokksræðis og fyrirgreiðslu. En látum svo vera. Nú hefur hann með reisn og glæsibrag tekist á við krabbamein og orðið fólki í svipuðum aðstæðum mikilsverð fyrirmynd um farsælt hugarfar í þeirri baráttu. Og fegin sitjum við undir löngu og skrýtnu orðunum sem hann velur okkur sem frá fyrstu tíð höfum andmælt innrás Bandaríkjanna í Írak og stuðningi íslenskra ráðamanna við hana; og reyndist ekkert ofmælt um þá miklu erindisleysu sem sá leiðangur ætlar að reynast. Augljóst er að þrek og þróttur ráðherrans vex með hverjum deginum og vonandi að störf hans felist senn í öðru en að halda dauðahaldi í her sem fer og að hjálpa Birni Bjarnasyni við að gerast mannréttindaráðherra. En: Eiginlega neyðist maður til að gera athugasemd við málflutning Davíðs í síðustu viku í umræðum á alþingi um hernað Íslendinga á hendur Írökum og þær vöflur sem eðlilega eru komnar á Hjálmar Árnason sem er skynsamur og réttsýnn maður. Í þessum umræðum líkti Davíð stjórn Saddams Hussein við krabbameinið í sjálfum sér, hann samsamaði baráttuna í sér hinni svokölluðu baráttu gegn hryðjuverkum. Þar með mátti nánast af orðum hans ráða að þeir sem andvígir hefðu verið því að stjórn Saddams yrði "upprætt" hefðu þá jafnframt verið andvígir því að upprætt yrði krabbameinið í Davíð Oddssyni. Gott er að menn gangi í störf sín af alefli en hér er innlifunin orðin heldur mikil – eigið heilsufar er ekki gott efni í stjórnmálakappræðu. Ef við tökum þetta krabbameinstal hins vegar sem almenna líkingu – eins og Davíð hefur eflaust viljað sagt hafa – og veltum henni ögn fyrir okkur, sem sé því að Bandaríkjamenn berjist nú við nokkurs konar krabbamein, þá er vert að minna á að slíkur sjúkdómur er innanmein, hann er inngróinn í sjálfa samfélagsgerðina, arfleifðina og vex af ýmsum ytri skilyrðum. Bandaríkin þjást nú af margháttuðum innanmeinum sem stafa af röngum þjóðfélagsháttum – misskiptingu auðs og valda, græðgi þeirra ríku, vesöld þeirra fátæku, skuldasöfnun, byssuæði, afsiðun, eiturlyfjafíkn, trúarofsa, siðferðistóm, fáfræðifýsn, og þar fram eftir götunum. En Bandaríkjamenn takast ekki á við sín mein. Það hefur aldrei læknað neinn af innanmeinum sínum að ráðast á annað fólk.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×