Fastir pennar

Pólitískar ofsóknir

Enn eru menn byrjaðir að þrefa um Halldór Laxness. Það er aldeilis að það er púður í karlinum. En deiluefnin verða sífellt obskúrari. Maður er eiginlega alveg hættur að fylgjast með. Mogginn bregst hart við og reynir að sýna fram á að hann hafi fagnað einlæglega þegar Halldór fékk Nóbelsverðlaunin, "Hver er Mogginn?" spyr Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur. Það er góð spurning. Hannes Gissurarson kemur kannski ekki út með annað bindið af ævisögu Halldórs í ár. Í staðinn skrifar hann greinar í gríð og erg og heldur fyrirlestra. Hann er að marka sér svæði eins og hundur við þúfu. Fólkið sem er á hannesarvaktinni bregst ókvæða við - það eru held ég ósjálfráð viðbrögð. Þegar Hannes segir Laxness verða sumir alveg brjálaðir. Gauti Kristmannsson skrifar í Moggann í fyrradag og segir að Hannes standi í pólitískum ofsóknum gegn merkasta rithöfundi Íslendinga á síðustu öld. Öndum aðeins rólega. Mér fannst skemmtilegt margt af því sem Hannes sagði um Atómstöðina á Hugvísindaþinginu - hann kallaði hana "andreykjavíkursögu". Og það er engin goðgá þó hann segi að hún sé byggð á tékkneskri bók. Kann vel að vera. Þannig vann Halldór, stældi og stal, klippti og skar. Snæfríður Íslandssól er ættuð úr Gone With The Wind. Og ekki get ég séð að Hannes sé að lítilsvirða Halldór þótt hann segi frá því að ekki hafi verið einhugur um að hann fengi Nóbelsverðlaunin. Það er ekki sérlega djörf fullyrðing. --- --- --- Annars eru margir farnir að stynja þreytulega þegar minnst er á kommúnisma Halldórs Laxness. Sem hlýtur að verða rauði þráðurinn í öðru bindi Hannesar - það á að ná frá sirka 1930 til 1950, spannar semsé tíma Stalíns. Í Víðsjárþáttum heyrir maður póstmódernísk andvörp líða úr útvarpsstækinu. Maður fór að greina þau eftir að Hallgrímur gaf út Höfund Íslands. Eins og þetta sé afgreitt mál. Gamlar lummur. Staðnað. Ég fatta þetta samt ekki alveg. Ég hef svo gamaldags lífsskoðun að mér finnst það skipta ansi miklu máli að höfuðskáld okkar aðhylltist stærstu lygi tuttugustu aldarinnar, sat Búkharín-réttarhöldin í Moskvu fagnandi, sá fólk flutt burt af lögreglunni, horfði á soltinn tötralýð - en sagði svo blygðunarlaust ósatt um allt klabbið. --- --- --- Það er líka hugsanlegt að það sé talsverð Laxness-þreyta í þjóðinni. Ákveðin mettun. Samt eru tvær stórar ævisögur á leiðinni, bók Halldórs Guðmundssonar og annað og þriðja bindi Hannesar. Á næsta ári verða fimmtíu ár frá Nóbelsverðlaununum. Úff. Það mætti kannski reyna að gera eitthvað til að ýta undir áhugann, til dæmis að hafa sérstakt réttarhald yfir Hannesi - hvaða annar staður kemur til greina en Reykjavíkurakademían? Þar yrði hann látinn svara til saka fyrir að vera boðflenna, fyrir að abbast upp á Nóbelskáldið og minningu þess. Sækjendur væru þá Gauti Kristmannsson og Helga Kress, verjandi kannski Gísli Marteinn eða einhver álíka léttvægur, en í dómarasætið væri hægt að setja Eirík Guðmundsson sem jafnframt myndi flytja pistla í Víðsjá. Ákæran yrði flutt við mikinn fögnuð akademíkera og prjónakerlinga - tricoteuses - sem vildu koma að sjá showið, en ákæruræðan myndi hljóma einhvern veginn svona, flutt af ofsafengnu hannesarofnæmi: "Það er það sorglega í þessu máli öllu, að höfundi, sem dæmt hefur sig vanhæfan með aðferðum sínum, skuli leyfast, óhindruðum af eðlilegum takmörkunum siðlegrar umræðu í fjölmiðlum, að halda uppi linnulausum árásum á merkasta rithöfund þjóðarinnar fyrir pólitískar skoðanir hans, löngu eftir að þær eru hættar að skipta nokkru máli í umræðu samtímans og löngu eftir að hann er fær um að bera hönd fyrir höfuð sér. Það er mál að linni." (Sbr. grein Gauta Kristmannssonar, Mbl. 25. október 2004.) Refsingin verður fyrirframákveðin. Hannesi verður bannað að skrifa meira - það getur ekki orðið vægara. Þetta verða sýndarréttarhöld.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×