Innlent

Frestur sorpstöðvar framlengdur

Sveitarstjórn Ölfuss hefur veitt stjórn Sorpstöðvar Suðurlands frest fram á miðvikudag í næstu viku til að ná samkomulagi um fyrirkomulag urðunar sorps, að sögn Einars Njálssonar sveitarstjóra Árborgar. Einar sagði að fulltrúar stjórnar og sveitarfélagsins Ölfuss hefðu átt viðræður en ekkert fast samkomulag lægi fyrir enn sem komið væri. Hann sagði enn fremur að stjórn sorpstöðvarinnar myndi hitta fulltrúa aðildarsveitarfélaga hennar næstkomandi föstudag til að ræða málið. Sveitarstjórn Ölfuss hafði tilkynnt að sorpstöðinni yrði lokað þann 25. október, það er í gær, og hafin innheimta dagsekta. En nú ætla menn að gefa sér heldur lengri tíma, að sögn Einars. Þá hefur stjórn sorpstöðvarinnar ákveðið að hætta samstarfi við Samband sunnlenskra sveitarfélaga um sameiginlegan framkvæmdastjóra. Þorvarður Hjaltason sem gegnt hefur báðum störfum til þessa mun því láta af starfi framkvæmdastjóra Sorpstöðvarinnar um næstu áramót. Einar sagði að annar maður yrði fenginn í það starf, þar sem það væri orðið æði viðamikið og Þorvarður væri í fullu starfi hjá SASS.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×