Fastir pennar

Repúblikanar og demókratar á Fróni

Ég hef einhvern tíma sagt frá því áður að fyrir svona tíu árum var ég við borðhald ásamt einum af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og bandarískum kvikmyndagerðarmanni. Bandaríkjamaðurinn var forvitinn um land og þjóð og sýndi skoðunum þingmannsins mikinn áhuga. Hún útlistaði þær nokkuð ítarlega, ég sat hinum megin við borðið og hlustaði, þangað til kvikmyndagerðarmaðurinn greip fram í og sagði stundarhátt: "In my country they would consider you a socialist!" Íslensk stjórnmál eru svo langt til vinstri við allt sem tíðkast í Bandaríkjunum að erfitt er að taka það alvarlega þegar fólk hér fer að leika repúblikana og demókrata. Mér skilst að menn hafi samt verið að skipast í slíkar fylkingar á fundi sem ungir sjálfstæðismenn héldu um síðustu helgi. En tónninn í kosningunum vestra er svo stríður að maður getur ekki annað en horft á í forundran. Frambjóðandinn Kerry þorir ekki að segja neitt sem gæti talist móðgun við herliðið í Írak - svo gegnsýrt er þjóðfélagið af hernaðarhyggju. Hann áræðir ekki einu sinni að minnast á pyntingarnar í Abu Ghraib fangelsinu. Hann verður að reyna að fela það eins og mannsmorð að hann er mæltur á frönsku og á vini í Frakklandi. Um daginn talaði hann á frönsku á kosningafundi með fyrrum Haitibúum - það eru álitin mistök. Að nefna almenningsálitið í heiminum er nánast talið til marks um föðurlandssvik. Því er kannski ekki furða þó kosningabarátta Kerrys virðist háfvelgjuleg. Á móti honum eru kosningaherdeildir repúblikana sem er knúðar áfram af ofsafenginni þjóðernishyggju og trúarhita. Kosningafundir hjá Bush eru eins og vakningasamkomur, enda er stór hluti stuðningsmanna hans frelsaður til hinnar sérstöku bandarísku útgáfu af kristni. Það er veifað plakötum sem segja að sjálfur Guð hafi búið sér ból í Hvíta húsinu - Bush hefur ekkert fyrir að andmæla því. Það er ekki að undra þó Messías sé nefndur í þessu sambandi. Ekki þar fyrir að það myndast ýmis skrítin bandalög. Nefnum til dæmis Tony Blair og Bush. Í breskum fjölmiðlum er fullyrt að Blair geti ekki beðið afsökunar á röngum upplýsingum sem voru notaðar til að réttlæta innrásina í Írak - það geti komið sér afar illa fyrir vin hans Bush. Jafnvel riðið baggamuninn. Því muni Blair slá úr og í um Írak þangað til eftir kosningarnar í Bandaríkjunum. Að flestu leyti er Blair líka mikilvægur liðsmaður fyrir Bush, enda þótt mestu haukarnir í Washington hugsi honum þegjandi þörfina fyrir að hafa sífellt verið að tuða um Sameinuðu þjóðirnar í aðdraganda Írakstríðsins. Bush getur bent á þennan félaga sinn og sagt að víst eigi hann stuðningsmenn á alþjóðavettvangi. Blair hefur meira að segja reddað honum heimsókn til drottningarinnar í Buckinghamhöll - myndir af slíku nýtast vel í kosningabaráttu. Í þessu líkt og svo mörgu öðru er Verkamannaflokkurinn breski orðinn viðskila við foringja sinn. Flokksmenn þola hann ekki en neyðast þó til að umbera hann. Þeir þora ekki að setja hann af. Á síðasta flokksþingi voru flokksmenn úti í sal að paufast með barmmerki þar sem stóð "Vote Kerry!" - en þeir létu lítið bera á því. Tekið er til þess að undanfarið hafi ekki verið neinar þreifingar milli demókrata Kerrys og Verkamannaflokksins - það er óvenjulegt. Annars er ekkert annað land í Evrópu en Pólland þar sem Bush hefur meirihlutafylgi. Ég ímynda mér að 80 prósent íslenskra kjósenda telji sig vera á bandi Kerrys, vonist allavega til að losna við Bush. En við erum á lista hinna staðföstu þjóða, í bandalagi við Bush. Maður hlýtur að ætla að forystumenn í ríkisstjórninni hér voni að Bush sigri, sumir þeirra líta jafnvel á sig sem eins konar repúblikana. Þeir þættu samt skrítnir flokksmenn í USA með sína háu skatta, velferðarkerfi, ríkisútvarp og frjálslyndi í félagsmálum...


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×