Innlent

Gallaðir sæðingarhrútar

Tveir hrútar, sem nefnast Vinur og Kunningi, verða aflífaðir í haust, þar sem vanskapnaður erfist frá þeim. Báðir hrútarnir hafa verið notaðir á sæðingarstöðvum og eiga því gríðarlegan fjölda afkvæma. Vansköpuð lömb í íslenska sauðfjárstofninum hafa ekki verið algeng í samanburði við mörg erlend sauðfjárkyn. Vitað er um fjóra hrúta á síðustu áratugum, sem annaðhvort dreifðu bæklun eða gulri kjötfitu, sem reyndar er meinholl, en leiðir til þess að kjötið selst ekki. Þegar erfðagalli kemur fram hjá hrútum sem eru notaðir á sæðingarstöðvum eru afleiðingarnar oft fljótar að koma í ljós. Ólafur Dýrmundsson, ráðunautur hjá Bændasamtökunum segir að í sæðingunum verði mikil dreifing á erfðaefni og sæði. Það fæðist mörg lömb eftir svona hrúta og því dreifist gallinn hratt út, sé hann á annað borð til staðar. Nýlega kom í ljós að tveir hrútar sem notaðir voru á sæðingarstöðvum undanfarin þrjú ár erfa frá sér vanskapnað í formi bæklunar á fótum. Bændablaðið greinir frá því að þetta eru hrútarnir Vinur og Kunningi, fæddir árið 1999 og 2002. Hrútunum verður fargað, en bændur eru varaðir við svo þeir geti tekið tillit til þessa ef þeir ætla sér að nota afkomendur þeirra til ræktunar. Ólafur segist reikna með því að bændur reyni nú að farga einstaklingum sem séu áberandi að þessu leiti. Komi fram gul fita í sláturhúsum komi þetta sljótt í ljós og þá verði reynt að setja ekki á afkvæmi þessara hrúta og ganga svo jafnvel á ærnar líka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×