Innlent

BHM hafna launafrystingu

Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM.
Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM.

BHM minnir stjórnvöld að gefnu tilefni á að samningsréttur um kjör launamanna er í höndum stéttarfélaga. Laun háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna verða því ekki ákveðin með öðrum hætti en kjarasamningsviðræðum við hlutaðeigandi stéttarfélög. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar segir ennfremur:

Vegna umræðu um launafrystingu til eins árs eða jafnvel lengur, skal enn fremur minnt á að kjarasamningar félagsmanna BHM hjá hinu opinbera hafa verið lausir í rúmt ár og væri stjórnvöldum nær að blása lífi í viðræður um þá samninga en að leggja til áframhaldandi kjaraskerðingar.

BHM gaf stjórnvöldum með aðild sinni að stöðugleikasáttmála tóm til að hefja endurskipulagningu opinbera kerfisins og endurreisn atvinnulífsins. Það tóm hefur ekki verið nýtt. Framlag BHM á þeim tíma var m.a. að slá launakröfum á frest, en svar stjórnvalda hefur falist í beinum launalækkunum og hækkunum gjalda til þessa hóps.

Miðstjórn BHM hefur þegar ályktað gegn aðild að framlengdum sáttmála um láglaunastefnu.

BHM andmælir kröftuglega allri frekari umræðu um kjarajöfnun á kostnað háskólamenntaðra og minnir á þær skerðingar kjara sem þegar hafa dunið á félagsmönnum bandalagsins.

BHM mótmælir því einnig að fjallað sé um laun fyrir sérfræðiþjónustu af því tagi sem háskólamenntaðir launamenn veita eins og um félagslegar bætur væri að ræða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×