Innlent

Jóhanna: Furðuleg afstaða Samtaka atvinnulífsins

Langtímasamningur SA og ASÍ er ekki lengur til umræðu. Unnið var að skammtímasamningi í gærkvöld. Forsætisráðherra sakar LÍÚ um óbilgirni. Framkvæmdastjóri SA segir stjórnvöld hafa ráðist á sjávarútveginn.
Langtímasamningur SA og ASÍ er ekki lengur til umræðu. Unnið var að skammtímasamningi í gærkvöld. Forsætisráðherra sakar LÍÚ um óbilgirni. Framkvæmdastjóri SA segir stjórnvöld hafa ráðist á sjávarútveginn.
Óvissa ríkti enn í kjaraviðræðum Alþýðusambandsins (ASÍ) og Samtaka atvinnulífisins (SA) í gærkvöld.  Kjarasamningur til þriggja ára var sleginn út af borðinu síðdegis í gær og ekki hafði náðst samkomulag um gerð samninga til styttri tíma. Fundur stóð þó enn yfir þegar Fréttablaðið fór í prentun.

 

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í gærkvöld að viðræður hefðu strandað á sjávarútvegsmálum. Sátt hefði getað náðst um öll önnur atriði.  „Það er furðulegt að LÍÚ skuli stilla upp þessu stóra ágreiningsmáli til áratuga sem fyrirstöðu við kjarasamninga og koma þannig í veg fyrir þær miklu kjarabætur sem fólust í langtímasamningum.“

 

Jóhanna segir mikil vonbrigði að samningar til þriggja ára hafi mistekist en ríkisstjórnin hafi lagt sig alla fram til að tryggja frið og stöðugleika á vinnumarkaðnum.

 

„Málið strandaði á óbilgirni LÍÚ vegna fiskveiðistjórnunarkerfisins. Það stóð ekkert annað út af,“ segir Jóhanna.

 

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, sagði í gærkvöld að niðurstaðan væri vonbrigði. Hann sagði þungt yfir mönnum við samningaborðið. Sjaldan hefði sést önnur eins árás á sjávarútveginn eins og í upphafsorðum sáttaplaggs ríkisstjórnarinnar sem lagt var fyrir samningamenn í gær.

 

„Það varð ljóst að málin þróuðust fljótt yfir í umræður um samkomulag til skamms tíma,“ sagði Vilhjálmur. „Við komumst ekkert úr sporunum með sjávarútvegsmálin, samgönguframkvæmdir eða orkumál.“

 

SA sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöld þar sem harmað er að ríkisstjórnin skuli ekki hafa komið til móts við atvinnurekendur í málefnum sjávarútvegs.- sv



Ríkisstjórnin mun leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða fljótlega í næsta mánuði. Frumvarpið felur í sér að úthlutun á aflaheimildum verði breytt í nýtingarheimildir samkvæmt samningum til afmarkaðs tíma.

- sv



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×