Fleiri fréttir

Jafnt í hálfleik á Skaganum

Staðan í leik Skagamanna og danska liðsins Randers í forkeppni evrópukeppni félagsliða er enn jöfn 1-1 þegar flautað hefur verið til leikhlés. Hjörtur Hjartarson skoraði mark ÍA á 27. mínútu. Gestirnir hafa verið sterkari í fyrri hálfleiknum og fátt í stöðunni sem bendir til þess að heimamenn komst áfram í keppninni.

Tvö mörk komin á Skaganum

Staðan í leik Skagamanna og danska liðsins Randers er orðin 1-1 eftir hálftíma leik. Hjörtur Hjartarson kom heimamönnum yfir á 28. mínútu, en gestirnir jöfnuðu aðeins tveimur mínútum síðar. Danska liðið vann fyrri leikinn 1-0 ytra.

Real segist vera búið að kaupa Nistelrooy

Real Madrid hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að félagið hafi gengið frá kaupum á hollenska framherjanum Ruud Van Nistelrooy. Sagt er að leikmaðurinn hafi samþykkt að undirrita þriggja ára samning og er kaupverðið sagt vera um 15 milljónir evra. Nistelrooy mun að sögn félagsins gangast undir læknisskoðun á morgun.

United þarf ekki á Nistelrooy að halda

Paul Parker, fyrrum leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, segir að hollenski framherjinn Ruud Van Nistelrooy sé ekki sami leikmaður og hann var og er þess fullviss að hans verði ekki saknað ef hann fer frá félaginu. Parker segir United ekki þurfa að kaupa stórstjörnu í stað Hollendingsins, heldur ungan og hungraðan framherja sem sé stoltur af að fá að spila fyrir félagið.

Hópur Quinn hefur eignast Sunderland

Hópur fjárfesta undir stjórn knattspyrnustjórans Niall Quinn hefur nú eignast knattspyrnufélagið Sunderland. Hópurinn gerði tilboð í félagið fyrr í mánuðinum og hafa nú gengið frá lausum endum á tilsettum tíma. Quinn var á dögunum ráðinn knattspyrnustjóri félagsins tímabundið og er hann nú orðinn stjórnarformaður félagsins sem hann lék með í mörg ár á síðasta áratug.

Rooney röflar stöðugt í mér

Sir Alex Ferguson segir að vel komi til greina að hann leyfi framherjanum Wayne Rooney að spila æfingaleik með Manchester United á mánudaginn kemur, því leikmaðurinn tuði sífellt í sér um að fá að spila.

Viðurkennir veikleika sína

Knattspyrnustjórinn Adrian Boothroyd hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Watford viðurkennir að ef hann hafi veikleika sem knattspyrnustjóri, hafi það helst með vanþekkingu hans á erlendum leikmönnum hans að gera. Boothroyd segist ætla að reyna að styrkja lið sitt með mönnum frá Bretlandseyjum á fyrsta tímabili sínu með Watford í úrvalsdeildinni.

Vill marka djúp spor í söguna

Portúgalski knattspyrnustjórinn Jose Mourinho hjá Chelsea segist vilja marka djúp spor í enska knattspyrnusögu áður en hann lætur af störfum og stefnir á að vinna þrjá til fjóra titla á Englandi á næstu fimm árum.

Floyd Landis féll á lyfjaprófi

Bandaríkjamaðurinn Floyd Landis féll á lyfjaprófi sem hann fór í eftir 17. áfanga Frakklandshjólreiðanna á dögunum eftir að óeðlilega hátt magn testósteróns fannst í sýni sem tekið var úr honum. Talsmenn hjólreiðakappans segja þessa niðurstöðu koma verulega á óvart, en sýni svokallað B-sýni sömu niðurstöðu, á hann von á að verða sviptur titli sýnum og rekinn frá liði sínu Phonak.

Birgir Leifur á tveimur yfir í Wales

Atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson var nokkuð frá sínu besta á fyrsta hringnum á áskorendamótinu í Wales og lauk hringnum á 73 höggum eða tveimur höggum yfir pari. Efsti maður á mótinu er að leika á sjö undir pari og er Birgir því nokkuð langt frá efstu mönnum.

Ísland í næst neðsta sæti

Íslenska U-18 landsliðið í körfubolta vann í dag sigur á Úkraínu 100-88 í lokaleik sínum í A-deildinni á EM sem fram fer í Grikklandi. Íslenska liðið hafnaði því í 15. sæti af 16 á mótinu og er þegar fallið í B-deild. Brynjar Björnsson var stigahæstur í íslenska liðinu í dag með 30 stig.

Seljum ekki fleiri leikmenn

Didier Deschamps, nýráðinn þjálfari Juventus á Ítalíu, segir að ekki komi til greina að selja fleiri leikmenn frá félaginu þó það leiki í B-deildinni á næstu leiktíð. Félagið hefur þegar selt fjóra mjög sterka leikmenn og er markvörðurinn Gianluigi Buffon sá sem líklegastur þykir til að yfirgefa félagið af þeim sem eftir eru.

Framtíð Milan í meistaradeild ræðst fljótlega

Knattspyrnusamband Evrópu mun taka ákvörðun um framtíð AC Milan í meistaradeildinni þann 2. ágúst nk, en þá verður gefið endanlegt svar um það hvort liðið fær að taka þátt í keppninni. Þangaði til annað kemur í ljós verða það því Milan, Inter, Chievo og Roma sem verða fulltrúar Ítala í keppninni.

Treysti strákunum til að klára þetta

Davíð Þór Viðarsson, leikmaður FH, varð fyrir því óláni að slíta hásin í leiknum við Legia Varsjá í forkeppni meistaradeildarinnar í gær og segist ekki geta spilað fótbolta fyrr en í fyrsta lagi eftir sex mánuði. Davíð fer í aðgerð í dag.

Marseille hefur áhuga á Sol Campbell

Forseti franska liðsins Marseille segir félagið hafa augastað á fjölda leikmanna sem styrkt gætu hópinn fyrir komandi leiktíð og segir varnarjaxlinn Sol Campbell hjá Arsenal í þeim hópi. Campbell hefur gefið það út að hann vilji spila á meginlandinu á næstunni.

Sagður í hópi fjárfesta sem hafa áhuga á Aston Villa

Athole Still, umboðsmaður sænska þjálfarans Sven-Göran Eriksson, er sagður vera í samstarfi við hóp fjárfesta sem íhuga nú að gera kauptilboð í enska úrvalsdeildarliðið Aston Villa. Kaupsýslumaðurinn Michael Neville gerði formlegt tilboð í félagið í gær, en sagt er að ameríski auðkýfingurinn Randy Lerner sé hættur við að gera tilboð.

Vill ekki tjá sig

Guðmundur Viðar Mete, leikmaður Keflavíkur, er ekki tilbúinn að svara þeim alvarlegu ásökunum sem Hjörtur Hjartarson, leikmaður ÍA, bar hann í Kastljósinu á þriðjudag. Hjörtur Hjartarson viðurkenndi í þættinum að hafa kallað Guðmund "Tyrkjadjöful" en sagði jafnframt að Guðmundur væri ekki saklaus enda hefði hann ögrað sér, hótað sér lífláti sem og líkamsmeiðingum. Hjörtur segir Guðmund einnig hafa látið ófögur orð falla um móður sína.

Íhugar framboð

Hinn litríki Charles Barkley, sem var einn besti leikmaður NBA deildarinnar á síðasta áratug, íhugar nú að fara í framboð til ríkisstjóra í heimafylki sínu Alabama í Bandaríkjunum. "Ég er kannski ríkur eins og repúblikani, en það þýðir ekki að ég sé hægrimaður," sagði Barkley og bætti við að Alabama þyrfti á aðstoð sinni að halda í framtíðinni.

United lagði Celtic

Paul Scholes skoraði tvö mörk í kvöld þegar lið Manchester United vann nokkuð fyrirhafnarlítinn 3-0 á Glasgow Celtic í æfingaleik liðanna í Skotlandi. Varnarmaðurinn Jonathan Evans kom enska liðinu á bragðið í upphafi leiks og gamla kempan Paul Scholes sá um rest. Skosku meistararnir hafa aðeins fagnað sigri í einum af sjö æfingaleikjum sínum og aðeins nokkrir dagar eru í að deildarkeppnin hefjist þar í landi.

Gæti ekki verið sáttari

Landsliðsmaðurinn Logi Geirsson hefur framlengt samning sinn við þýska liðið Lemgo til ársins 2010. Logi hefur verið óheppinn með meiðsli á síðustu misserum, en er nú að ná fullum styrk og er yfir sig ánægður með lífið og tilveruna eins og hans er von og vísa.

Inter er meistari 2006

Inter Milan hefur verið sæmt ítalska meistaratitlinum árið 2006 vegna þáttar AC Milan og Juventus í spillingarmálinu fræga. Juventust, Lazio og Fiorentina ætla öll að áfrýja nýjasta úrskurði dómstóla og una ekki niðurstöðunni þó hún hafi verið milduð umtalsvert frá því sem upphaflega stóð til.

Súrt tap FH fyrir Legia Varsjá

Íslandsmeistarar FH töpuðu fyrri leik sínum gegn pólska liðinu Legia Varsjá 1-0 í Kaplakrika í kvöld. Markið skoraði Brasilíumaðurinn Elton undir lok leiksins og því bíður Hafnfirðinga afar erfitt verkefni úti í Póllandi eftir viku þegar liðin spila síðari leik sinn í annari umferð forkeppni meistaradeildarinnar. Bæði lið fengu raunar fín marktækifæri í kvöld en aðeins einstaklingsframtak varamanns Pólverjanna skildi að í lokin.

Smith gæti orðið klár í slaginn fljótlega

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, útilokar ekki að framherjinn Alan Smith gæti jafnvel verið orðinn klár í slaginn í fyrsta leik liðsins í ensku úrvalsdeildinni, sem er útileikur gegn Fulham þann 20. ágúst. Smith tvífótbrotnaði í bikarleik gegn Liverpool í vor og var talið að hann yrði mjög lengi frá eftir þessi alvarlegu meiðsli.

Allen Iverson verður áfram hjá Philadelphia

Mikið hefur verið rætt um framtíð stigaskorarans mikla Allen Iverson hjá Philadelphia 76ers í sumar og margir töldu nú eða aldrei fyrir leikmanninn að skipta um lið. Eftir tveggja stunda langan fund með eiganda 76ers í gær hefur leikmaðurinn hinsvegar gefið það út að hann muni ekki fara frá félaginu og eigandi þess segist ekki ætla að reyna að skipta honum í burtu.

Markalaust í hálfleik í Kaplakrika

Staðan í leik FH og Legia Varsjá í forkeppni meistaradeildarinnar er markalaus 0-0 þegar flautað hefur verið til hálfleiks. Bæði lið hafa fengið nokkur góð færi og fékk Tryggvi Guðmundsson besta færi Hafnfirðinga undir lok hálfleiksins. Pólska liðið er vel stutt af fjölda landa sinna sem mættir eru í stemminguna í Kaplakrika. Leikurinn er sýndur beint á Sýn.

Friðrik aðstoðar Sigurð

Friðrik Ingi Rúnarsson hefur verið ráðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari íslenska A-landsliðsins í körfuknattleik og mun vinna með Sigurði Ingimundarsyni þjálfara í framtíðinni. Friðrik er öllum hnútum kunnugur hjá landsliðinu og hefur áður verið aðalþjálfari þess.

Tap fyrir Portúgal

Íslenska stúlknalandsliðið í körfuknattleik tapaði í dag naumlega 60-58 fyrir portúgölum í B-deildinni á EM sem fram fer á Ítalíu. Helena Sverrisdóttir úr Haukum var stigahæst í íslenska liðinu með 19 stig.

Celtic - Man Utd á Sýn í kvöld

Skoska liðið Glasgow Celtic og enska liðið Manchester United mætast í æfingaleik í Glasgow í kvöld og verður leikurinn sýndur á Sýn klukkan 20:25 að loknum leik FH og Legia Varsjá. Mikið og gott samstarf hefur verið á milli Celtic og United í gegn um árin, en ekki er langt síðan liðin mættust á knattspyrnuvellinum þegar Roy Keane spilaði sinn síðasta leik á ferlinum.

FH - Legia Varsjá í beinni á Sýn

Nú styttist í að fyrri leikur FH og pólska liðsins Legia Varsjá í annari umferð forkeppni meistaradeildar Evrópu hefjist á Kaplakrikavelli og verður leikurinn sýndur beint á Sýn. Útsending hefst klukkan 18:15. Búist er við gríðarlegri stemmingu á vellinum og fregnir herma að miðasala hafi gengið vonum framar. Búist er við hundruðum Pólverja á leikinn í kvöld, en eins og flestir vita er fjöldi Pólverja búsettur hérlendis og því má eiga von á líflegri stemmingu á pöllunum.

Ánægður með hugarfar Nistelrooy

Sir Alex Ferguson gaf sér í dag tíma til að hrósa hollenska framherjanum Ruud Van Nistelrooy fyrir hugarfar sitt og frammstöðu á æfingum með Manchester United undanfarna daga, en talið er öruggt að leikmaðurinn yfirgefi herbúðir liðsins á næstunni.

Pennant til Liverpool

Vængmaðurinn Jermaine Pennant hefur skrifað undir fjögurra ára samning við enska úrvalsdeildarliðið Liverpool en hann var áður hjá 1.deildarliði Birmingham. Kaupverðið er talið vera um 6,2 milljónir punda og mun gamla félagið hans Arsenal fá um 25% af kaupverðinu sem skilyrði fyrir sölu hans á sínum tíma.

Ísland tapaði fyrir Þjóðverjum

Íslenska piltalandsliðið í körfubolta tapaði í dag 92-63 fyrir því þýska á EM í körfubolta sem fram fer í Grikklandi. Brynjar Björnsson var stigahæstur í íslenska liðinu í dag með 22 stig. Úrslitin þýða að U-18 ára lið Íslands er fallið niður í B-deildina.

Fékk gæsahúð þegar ég heyrði afmælissönginn

Margrét Lára Viðarsdóttir hélt upp á tvítugsafmælið sitt með stæl í gærkvöldi þegar hún skoraði hvorki meira né minna en sjö mörk þegar Valur burstaði Fylki í Landsbankadeild kvenna. Hópur stuðningsmanna Valsliðsins söng afmælissönginn fyrir hana eftir leikinn, en Margrét skorar tæp þrjú mörk að meðaltali í leik í sumar sem er tölfræði sem hvaða handboltamaður gæti verið stoltur af.

Michael Neville gerir kauptilboð í Aston Villa

Hópur fjárfesta undir forystu Aston Villa-stuðningsmannsins Michael Neville hefur lagt fram kauptilboð í félagið upp á 64 milljónir punda. Hópurinn sýndi áhuga í fyrra þegar Doug Ellis auglýsti félagið fyrst til sölu, en þá varð ekkert úr málinu. Ameríski milljarðamæringurinn Randy Lerner hefur einnig sýnt félaginu áhuga, en hefur enn ekki gert formlegt tilboð.

Gæti misst af upphafi leiktíðar

Sænski miðjumaðurinn Freddy Ljungberg gæti misst af fyrstu leikjum Arsenal í ensku úrvalsdeildinni, en hann á við ökklameiðsli að stríða. Talsmaður Arsenal segir hann vera mjög bólginn á ökklanum og segir leikmanninn hafa fengið sprautur við þessu, sem ekki hafi skilað tilsettum árangri. Arsenal mætir Aston Villa í fyrsta leik sínum í úrvalsdeildinni þann 19. ágúst.

Ashley Cole gæti farið frá Arsenal í sumar

Arsene Wenger hefur nú í fyrsta sinn viðurkennt að bakvörðurinn Ashley Cole gæti verið á förum frá félaginu, en Cole hefur verið orðaður við Englandsmeistara Chelsea að undanförnu.

Arca til Boro

Gareth Southgate, stjóri Middlesbrough, keypti í dag fyrsta leikmanninn síðan hann tók við stjórnartaumunum af Steve McClaren. Hér er um að ræða miðjumanninn Julio Arca sem áður lék með liði Sunderland. Arca er 25 ára gamall Argentínumaður og hafði verið hjá Sunderland í fimm ár. Kaupverðið er 1,75 milljón punda.

Real Madrid gerir nýtt tilboð

Real Madrid hefur nú gert nýtt kauptilboð í hollenska framherjann Ruud Van Nistelrooy hjá Manchester United og hljóðar nýja tilboðið upp á 10,3 milljónir punda. Það er þó enn nokkuð frá uppsettu verði enska félagsins sem vill fá 15 milljónir fyrir kappann, sem einnig er orðaður við Bayern Munchen í Þýskalandi.

Fortune kominn í Bolton

Suður-Afríski leikmaðurinn Quinton Fortune er genginn í raðir enska úrvalsdeildarfélagsins Bolton og hefur undirritað eins árs samning við félagið. Fortune var áður hjá Manchester United en var látinn fara þaðan eftir erfiða baráttu við meiðsli. Sam Allardyce, stjóri Bolton, sagði í samtali við BBC í dag að hann hefði miklar mætur á Fortune sem leikmanni, því hann hefði mikla reynslu og gæti spilað nokkrar stöður á vellinum.

Margrét Lára skoraði sjö mörk á afmælisdaginn

Valskonur halda uppteknum hætti í toppbaráttunni í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu og í kvöld valtaði liðið yfir Fylki 14-0 á Valbjarnarvelli. Margrét Lára Viðarsdóttir hélt upp á tvítugsafmælið sitt með því að skora 7 mörk í leiknum. Þrír aðrir leikir fóru fram í deildinni í kvöld.

Powell náði frábærum tíma í Svíþjóð

Spretthlauparinn Asafa Powell kom fyrstur í mark í 100 metra hlaupi á sterku móti í Stokkhólmi í kvöld, þegar hann hljóp á tímanum 9,86 og setti glæsilegt mótsmet. Hann fékk að launum demant að verðmæti 10.000 punda. Jamaíkumaðurinn á sem kunnugt er heimsmetið í greininni með Bandaríkjamanninum Justin Gatlin, en það er 9,77 sekúndur.

Lazio og Fiorentina áfram í A-deild - AC Milan í meistaradeild

Lazio og Fiorentina halda sæti sínu í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu, en Juventus verður áfram í B-deildinni. Þetta var úrskurður áfrýjunardómstóls á Ítalíu sem tilkynnti þessa niðurstöðu í kvöld. Juventus fær þó örlítið mildari refsingu en á dögunum, því dregin verða 17 stig af liðinu í upphafi leiktíðar í stað 30. Stig verða einnig dregin af Lazio og Fiorentina í A-deildinni.

Pennant á leið til Liverpool?

Breska sjónvarpið hefur eftir heimildamanni sínum hjá Birmingham að félagið hafi samþykkt 6,2 milljón punda tilboð Liverpool í vængmanninn Jermaine Pennant. Birmingham neitaði nýverið 3,5 milljóna tilboði þeirra rauðu, en nú herma fregnir að Pennant sé þegar kominn í viðræður við Liverpool.

Þáttur um Essomótið á Sýn í kvöld

Í kvöld klukkan 20:10 verður á dagskrá Sýnar sérstakur heimildarþáttur í umsjón Þorsteins Gunnarssonar íþróttafréttamanns um Essomótið í knattspyrnu sem fram fór í 20. sinn á dögunum. Mótið var venju samkvæmt haldið á Akureyri og verður stemmingunni á vellinum sem og í kring um mótið gerð góð skil í þætti kvöldsins.

Bjarnólfur í tveggja leikja bann

Nokkrir leikmenn úr efstu deild karla í knattspyrnu voru dæmdir í leikbann í dag þegar aganefnd KSÍ kom saman og fundaði. Bjarnólfur Lárusson, leikmaður KR, var dæmdur í tveggja leikja bann eftir að vera rekinn af velli gegn fyrrum félögum sínum í ÍBV í Visa-bikarnum í gær.

Sjá næstu 50 fréttir