Viðskipti innlent

Hagnaðurinn 39 milljarðar og arð­greiðslur ní­tján

Samúel Karl Ólason skrifar
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir mikilvægt að bæta stöðugleika í íslensku efnahagslífi.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir mikilvægt að bæta stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Vísir/Einar

Landsbankinn hagnaðist um 38 milljarða króna, eftir skatta, á síðasta ári. Þar varð hálfs milljarðs aukning á milli ára. Til stendur að greiða helming hagnaðarins, eða nítján milljarða, í arð til eigenda. Bankaráð Landsbankans er einnig með til skoðunar að leggja til sérstaka arðgreiðslu fyrir aðalfund.

Í uppgjöri bankans fyrir árið segir að um nítján milljarðar hafi verið greiddir í skatta á síðasta ári.

Útlán jukust um 76,9 milljarða króna, eða um 4,3 prósent og innlán um 20,9 milljarða eða 1,7 prósent. Hreinar þjónustutekjur hækkuðu um 10,1 prósent. Þá hækkaði kostnaðarhlutfall bankans lítillega milli ára og var 34,3 prósent.

Áhugasamir geta fundið uppgjörið og frekari upplýsingar hér á vef Landsbankans.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri, segir uppgjörið vera gott og það endurspegli stöðugan rekstur í krefjandi rekstrarumhverfi.

„Arðsemi eiginfjár bankans á síðasta ári var 11,6% sem var í samræmi við áætlanir og kostnaðarhlutfallið var 34,3% sem er með því lægsta sem þekkist meðal sambærilegra banka á heimsvísu.“

Hún segir að þrátt fyrir efnahagsumhverfi sem einkennist af þrálátri verðbólgu og háu vaxtastigi, sjáist að fjárhagsleg staða heimila og fyrirtækja sem eru í viðskiptum við Landsbankann sé almennt sterk.

Lilja fjallar einnig um úrskurði Hæstaréttar í vaxtamálum undir lok síðasta árs. Landsbankinn hafi verið fyrstur til að kynna nýtt lánaframboð af óverðtryggðum lánum með fasta vexti.

„Við sáum okkur ekki annað fært en að takmarka framboð af verðtryggðum íbúðalánum við fyrstu kaupendur og bjóða fasta vexti með styttri lánstíma en áður. Þetta hefur gert það að verkum að í þeim tilvikum þegar það skiptir lántaka mestu máli að greiðslubyrði sem sé allra lægst erum við ekki eins samkeppnishæf og áður.“

Þá segir Lilja að mikilvægt sé að ná betra jafnvægi í efnahagslífinu, að verðbólga lækki og þannig sé hægt að lækka vaxtastig.

„Vonandi skapast sem fyrst aðstæður til þess sem fyrst. Það yrði kærkomið fyrir viðskiptavini bankans sem eru með lán og myndi gefa fyrirtækjum aukið svigrúm til fjárfestinga og stuðla bæði að auknum hagvexti og fleiri tækifærum til framtíðar.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×