Viðskipti innlent

Alcoa stefnir Eim­skip að nýju í samráðsmáli

Atli Ísleifsson skrifar
Álver Alcoa í Reyðarfirði.
Álver Alcoa í Reyðarfirði. Vísir/Arnar

Alcoa Fjarðaál sf. hefur stefnt Eimskipafélagi Íslands að nýju vegna meints tjóns félagsins af völdum samráðs Eimskipa og Samskipa á árunum 2008 til 2013.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskip. Alcoa Fjarðaál hafði áður stefnt Eimskip vegna málsins og farið fram á þrjá milljarða króna í skaðabætur en fallið var frá kröfunni í maí síðastliðnum, skömmu áður en taka átti málið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í þetta skiptið er stefnt til viðurkenningar á óskiptri bótaskyldu, án fjárhæðar.

Í tilkynningunni frá Eimskip segir að í maí hafi verið tekin ákvörðun í maí síðastliðnum um að fella niður skaðabótamál gegn Eimskip og greiða félaginu málskostnað. Hefur félagið nú höfðað mál að nýju vegna þessa, þó þannig að nú er engin fjárkrafa gerð heldur stefnt til viðurkenningar á bótaskyldu án fjárhæðar.

„Málatilbúnaður Alcoa, í málinu sem það felldi niður, byggði nær alfarið á minnisblaði ráðgjafafyrirtækisins Analytica ehf. Ráðgjafafyrirtækið Hagrannsóknir sf. komst að afgerandi niðurstöðu um að vankantar í minnisblaði Analytica væru svo alvarlegir og ályktanir svo rangar að minnisblaðið væri í heild ónothæft sem mat á meintu tjóni. Skýrsla Hagrannsókna stendur óhögguð, en í nýrri stefnu er þrátt fyrir það enn byggt á minnisblaði Analytica, án þess að minnast einu orði á skýrslu Hagrannsókna sf. sem hnekkti niðurstöðum Analytica.

Það var og er mat Eimskips að ekkert tilefni sé til málsóknar stefnanda, enda eru skilyrði skaðabótaskyldu ekki uppfyllt. Þá er ætlað tjón stefnanda engum haldbærum gögnum stutt,“ segir í tilkynningunni.

Sagt hafa kostað 62 milljarða króna

Árið 2023 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Eimskip og Samskip hefðu haft ólöglegt samráð á árunum 2008 til 2013. 

Ráðgjafafyrirtækið Analytica vann frummat fyrir Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin og VR, en samkvæmt því hafði ólöglegt samráð Eimskipa og Samskipa kostað íslenskt samfélag tæplega 62 milljarða króna á fyrrnefndu tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×