Innherji

Allt kann sá er bíða kann

Ráðgjafinn skrifar
Ráðgjafinn mynd

Sjálfstæðisflokkurinn á undir högg að sækja þessa dagana í landsmálunum. En er þó allt sem sýnist?

Forysta flokksins sér auðvitað í hvað stefnir. Atvinnuleysi stefnir í að verða meira en við höfum lengi séð á nýju ári. Fall Play og rekstrarörðugleikar Icelandair er þegar farið að bitna á ferðaþjónustunni. Fiskveiðiárið er lélegt og áfallið á Grundartanga kemur á óheppilegum tíma. Vaxtadómarnir svokölluðu hafa svo valdið því að venjulegt fólk fær varla húsnæðislán og krónan er aðeins farin að gefa eftir – loksins kynnu einhverjir að segja – sem gæti farið að bíta á íslensku neysluklónni.

Þá bendir ýmislegt til þess að Seðlabankinn hafi ekki sýnt næga forsjálni í sínum ákvörðunum og beðið of lengi með að lækka vexti.

Ofan á þetta bætist sú staðreynd – þveröfugt við væntingar margra innan fjármálageirans – að Kristrún Frostadóttir hefur sýnt af sér klassíska vinstrimennsku í stjórnarráðinu. Veiðigjaldahækkunin var hroðvirknislega unnin og mun koma verst niður á smærri útgerðum. Þá hafa stórkarlalegar yfirlýsingar um skattahækkanir ollið skjálfta meðal smærri og meðalstórra fyrirtækja. Öfugt við málflutning vinstri manna er það nefnilega svo að verðmæti verða ekki til í tómarúmi.

Verkamannaflokkurinn í Bretlandi tók við ríflega hálfu ári áður en Samfylkingin tók við hér á landi eftir sögulegan stórsigur. Keir Starmer er nú á örskotsstundu einn óvinsælasti forsætisráðherra í sögu Bretlands. Auðvitað býður Kristrún Frostadóttir af sér meiri þokka en kollega síns á Bretlandseyjum. Staðreyndin er samt sú að efnahagsmálin hafa spilað stærsta rullu í því hvernig komið er fyrir Starmer.

Ofan á þetta bætist sú staðreynd – þveröfugt við væntingar margra innan fjármálageirans – að Kristrún Frostadóttir hefur sýnt af sér klassíska vinstrimennsku í stjórnarráðinu.

Á peppfundi Sjálfstæðismanna sem haldin var um liðna helgi kom ýmislegt fram sem hægt er að taka undir. Guðrún Hafsteinsdóttir talaði fyrir hagræðingu í ríkisrekstrinum og gegn hugmyndafræðilegum kreddum um einokun ríkisins á skóla- og heilbrigðisrekstri. Hún nefndi líka að nauðsynlegt væri að vinda ofan af þeirri húsnæðiskrísu sem kreddur vinstri meirihlutans í borginni hafa kallað yfir höfuðborgarbúa. Sérstaka ánægju vakti líka skynsamlegur tónn í útlendingamálum, sem gefur til kynna að ekki standi til að fara í kapphlaup við Miðflokkinn um yfirboð í þeim efnum.

Því má heldur ekki gleyma að Sjálfstæðisflokkurinn er á mikilli siglingu í borginni undir forystu Hildar Björnsdóttur – og hefur allt þetta ár verið að mælast með kringum þriðjungsfylgi. Niðurstaða um fyrirkomulag við val á frambjóðendum til borgarstjórnakosninganna var annað styrkleikamerki, en leiðtogaprófkjör og uppstilling varð fyrir valinu með miklum meirihluta. Það gæti bent til þess að flokkadrættir í Reykjavík séu á undanhaldi og meiri eining ríki á vakt Hildar og Guðrúnar en lengi hefur þekkst. Það væri augljóst skref í rétta átt.

Fréttastofa Vísis hélt því fram að lítið nýtt hefði komið fram Í málflutningi forystu Sjálfstæðismanna á fundinum á Nordica. En er einhver sérstök þörf á því? Málflutningur Guðrúnar einkenndist af klassískum hægri-málum sem auðvelt er að taka undir. Klassískar lausnir við klassískum vandamálum. Það skyldi þó ekki vera að með versnandi efnahagsástandi fari að fjara undan ríkisstjórninni, en við þær aðstæður skapast kjöraðstæður fyrir Sjálfstæðisflokkinn að ná vopnum sínum.

Þá ríður á að slá réttan tón og halda honum. Málflutningur hæstbjóðandans mun engu skila til lengri tíma. Allt kann sá er bíða kann.


Ráðgjafinn er innanbúðarmaður sem tekur púlsinn á stöðunni innan stjórnmála og atvinnulífs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×