Neytendur

Ó­venju­legur moli af­rakstur sögu­legs sam­starfs

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Konfektmoli sem bragðast eins og Malt og appelsín, það er eitthvað.
Konfektmoli sem bragðast eins og Malt og appelsín, það er eitthvað.

Nói Síríus fagnar níutíu ára afmæli konfektgerðar sinnar með því að kynna til leiks nýjan hátíðarmola með Malt og Appelsín-fyllingu.

Konfekt hefur verið hluti íslenskra hátíða í áratugi um jól, páska og við önnur hátíðleg tilefni. Nói Síríus hefur sinnt þeirri konfektþörf í níutíu ár og á sama tíma fagnar sígilda blandan Malt og Appelsín blanda sjötíu ára afmæli. Fyrirtækin hafa því ákveðið að sameina krafta sína með sérstaklega hátíðlegum mola.

„Við viljum heiðra þá langvarandi hefð sem Íslendingar eiga með konfekti og gleðjast yfir því að fá að vera hluti af hátíðarstundum þjóðarinnar,“ segir Anna Fríða Gísladóttir, framkvæmdastjóri markaðssviðs Nóa Síríus.

Anna Fríða hjá Nóa Síríus og Davíð hjá Ölgerðinni.

Í molanum blandast saman súkkulaði Nóa Síríus við appelsínubragð Appelsínsins og karamellu Maltsins fyrir einstaka samsetningu.

„Þetta skemmtilega hátíðlega samstarf verður varla meira viðeigandi. Sígildar jólahefðir mætast hér í sameiginlegu afmælispartíi eins og móðins þykir og bjóða upp á ævintýralega bragðveislu,“ segir Davíð Sigurðsson, vörumerkjastjóri Malts og Appelsíns, um samstarfið.

Hátíðarmolinn er framleiddur í hóflega stórum umbúðum fyrir þá sem vilja prófa eitthvað nýtt án þess að sleppa uppáhalds konfektinu sínu. Hátíðarmolinn verður aðeins í boði í takmörkuðu magni og fæst í helstu verslunum landsins á meðan birgðir endast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×