Viðskipti innlent

Skil­málar Arion frá­brugðnir en á­hrifin væru ó­veru­leg

Árni Sæberg skrifar
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka. Vísir/Vilhelm

Arion banki bendir á að skilmálar íbúðalána bankans með ákvæðum um breytilega vexti séu frábrugðnir þeim sem fjallað er um í dómi Hæstaréttar í málinu gegn Íslandsbanka og því sé erfitt að meta nákvæm áhrif af dómnum á lán Arion banka með óverðtryggðum vöxtum. Að því gefnu að sambærileg niðurstaða fengist í ágreiningsmáli um lán Arion banka með óverðtryggðum vöxtum sé það bráðabirgðamat bankans að fjárhagsleg áhrif slíkrar niðurstöðu yrðu óveruleg.

Þetta segir í tilkynningu bankans til Kauphallar. Þar segir jafnframt að mál gegn Arion banka, þar sem tekist er á um lögmæti skilmála um heimild bankans til að breyta vöxtum á verðtryggðu íbúðaláni, bíði nú málflutnings fyrir Hæstarétti. 

Landsréttur hafi dæmt bankanum í vil í málinu í febrúar síðastliðnum. Þar sem vaxtabreytingarskilmálar lána með verðtryggðum vöxtum vísi eðli málsins samkvæmt ekki til vaxta sem Seðlabankinn ákveður sé óvissa um niðurstöðu þess máls hjá Hæstarétti meiri en þegar kemur að lánum með óverðtryggða vexti.

Bankinn muni áfram meta niðurstöðu Hæstaréttar frá því í gær og forsendur hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×