Viðskipti innlent

Laga­nemar bjóða leigj­endum á­fram upp á fría ráð­gjöf

Atli Ísleifsson skrifar
Halldór Örn Jónsson, rekstrarstjóri Ölmu, og Birkir Snær Brynleifsson, formaður Orators, skoða húsaleigulögin.
Halldór Örn Jónsson, rekstrarstjóri Ölmu, og Birkir Snær Brynleifsson, formaður Orators, skoða húsaleigulögin.

Laganemar við Háskóla Íslands munu áfram bjóða leigjendum upp á ókeypis ráðgjöf eftir að samkomulag náðist um áframhaldandi starfsemi Leigjendalínunnar svokölluðu. Alls leituðu um sjötíu leigjendur aðstoðar hjá Leigjendalínunni á síðasta skólaári og hafa algengustu spurningarnar um riftun leifusamninga og kröfur um tryggingafé.

Í tilkynningu segir að samkomulag hafi náðst milli Orators og Ölmu leigjendafélags um áframhaldandi starfsemi Leigjendalínunnar. Þar kemur fram að um helmingur samtalanna fari fram á ensku.

Haft er eftir Birki Snæ Brynleifssyni, formanni Orators, að laganemar vilji fjölga þeim sem þeir aðstoði og sömuleiðis leggja meira í þjónustuna en áður.

Leigjendalínan hefur undanfarin ár boðið leigjendum upp á ókeypis ráðgjöf um réttindi og skyldur á leigumarkaði, en hún verður opin alla miðvikudaga í vetur frá klukkan 18 til 20.

Birkir Snær segir að málin séu mjög fjölbreytt og geti sömuleiðis verið flókin. „Við heyrum að oft er mikill samskiptavandi milli leigjanda og leigusala en við bendum alltaf á að senda kvartanir á leigusala skriflega. Við bendum svo á kærunefnd húsamála ef leigusali bregst ekki við,” segir Birkir.

Um það bil helmingur símtala sem Leigjendalínunni berast eru á ensku. „Og það er ekkert skrýtið, því erlendum aðilum finnst oft flókið að feta sig inn á íslenskan leigumarkað,“ segir Birkir.

Fram kemur að Alma hafi stutt við verkefnið frá árinu 2017 sem felist að hluta í greiðslu launa óháðs lögfræðings sem sinni ráðgjöfinni ásamt laganemum. Aðkoma félagsins sé að öðru leyti engin og að markmiðið sé að stuðla að traustum og öruggum leigumarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×