Neytendur

Mörg þúsund nýta enn 2G og 3G sem heyra sögunni til um ára­mótin

Smári Jökull Jónsson skrifar
2G og 3G farsímakerfin loka um áramótin.
2G og 3G farsímakerfin loka um áramótin. Getty

Sérfræðingur hjá Fjarskiptastofu telur að enn séu þúsundir raftækja á landsvísu sem nýta 2G og 3G-farsímaþjónustu sem mun hætta um áramótin. Öryggisfyrirtæki og sumarbústaðasvæði eru meðal þeirra sem nýta sér þjónustuna.

Um áramótin mun 2G og 3G-farsímaþjónusta leggjast af hér á landi ferli þar að lútandi hefur staðið yfir síðan 2021. Samkvæmt Fjarskiptastofu á ákvörðunin ekki að hafa áhrif á útbreiðslu farnets. 

Sviðsstjóri hjá Fjarskiptastofu segir stofnunina hafa unnið með fjarskiptafyrirtækjum að breytingunum og því að upplýsa neytendur.

„Þetta er alfarið ákvörðun fjarskiptafélaganna að loka þessu. Þetta eru kerfi sem hafa þjónað okkur í tugi ára og eru bara komin á tíma,“ segir Þorleifur Jónasson hjá Fjarskiptastofu.

„Myndi halda að einhverjar þúsundir tækja væru eftir í dag“

Það eru þó ekki aðeins farsímar sem lokun netsins hefur áhrif á heldur ýmis tæki sem notuð eru til vöktunar, mælinga og stýringa.

„Þetta eru alls konar skynjarar og við getum nefnt opnanir á sumarbústaðasvæðum, á hliðum við sumarbústaðasvæði sem dæmi. Einnig öryggishnappar og annað sem öryggisfyrirtækin hafa verið með, myndavélar og annað slíkt.“

Ný raftæki nýta sér 4G og 5G-tækni nú til dags en engu að síður eru enn tæki í umferð sem notast við þjónustuna sem leggst af um áramót.

„Þetta voru þúsundir og tugir þúsunda þegar þetta ferli hófst. Án ábyrgðar myndi ég halda að einhverjar þúsundir tækja væru eftir í dag,“ segir hann.

Útilokar ekki að fólk lendi í vandræðum

Von sé á nýjum tölum frá fyrirtækjunum um fjölda notenda í lok mánaðarins en Þorleifur segir að vissulega geti einhverjir neytendur lent í vandræðum við lokun kerfisins.

„Ég held það sé ekkert hægt að útiloka það að þeir sem ekki hafa farið í þá vinnu að uppfæra tækin sín að þeir muni lenda í því að tækin muni ekki virka um áramót.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×