Viðskipti innlent

Gefa út kynjað skulda­bréf

Árni Sæberg skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson er fjármála- og efnahagsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson er fjármála- og efnahagsráðherra. Vísir/Vilhelm

Ríkissjóður Íslands hefur gefið út kynjað skuldabréf að fjárhæð fimmtíu milljónir evra, jafnvirði um 7,5 milljarða króna. Íslands er með útgáfunni orðið fyrsta þjóðríki heimsins sem gefur út kynjað skuldabréf.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðssins segir að skuldabréfið beri 3,4 prósent fasta vexti og hafi verið gefið út til þriggja ára. Skuldabréfið sé gefið út undir viðauka við sjálfbæran fjármögnunarramma ríkissjóðs um fjármögnun jafnréttisverkefna en ekkert ríki hafi áður gefið út slíkt skuldabréf. Um sé að ræða einkaútgáfu til Franklin Templeton, eins stærsta sjóðstýringarfyrirtækis í heimi. Umsjón með útgáfunni hafi verið í höndum BNP Paribas.

Spennandi viðbót

„Kynjaða skuldabréfið er spennandi viðbót við sjálfbæra fjármögnun ríkissjóðs en fyrsta græna skuldabréfið var gefið út fyrr á þessu ári. Með því að vera fyrst ríkja til að gefa út kynjað skuldabréf eru íslensk stjórnvöld að nýta leiðandi stöðu okkar í jafnréttismálum á alþjóðavísu og setja mikilvægt fordæmi fyrir önnur ríki með nýrri aðferð við að virkja fjármálamarkaði og opinber fjármál til að stuðla að jafnrétti kynjanna,“ er haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, fjármála og efnahagsráðherra.

Ekki ólíkt grænum skuldabréfum

Þá segir í tilkynningunni að kynjuð skuldabréf falli undir sjálfbæra fjármögnun, líkt og græn skuldabréf. Andvirði útgáfunnar verði nýtt til að mæta kostnaði ríkissjóðs vegna aðgerða sem stuðla að kynjajafnrétti. 

Fyrst og fremst sé um að ræða ráðstafanir sem er ætlað að tryggja konum og kvárum í viðkvæmri stöðu félagslega þjónustu og viðunandi lífsskilyrði og svo ráðstafanir sem eru til þess fallnar að draga úr byrði kvenna af ólaunuðum heimilis- og umönnunarstörfum.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×