Neytendur

Borgar 760 þúsund fyrir flísa­lögn sem átti að kosta þrjár milljónir

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Sóknaraðilinn bar fyrir sig afrit af reikningum vegna sambærilegra verka og yfirlýsingu matsmanns, sem sagði 760 þúsund krónur hæfilegt verð á slíku verki. 
Sóknaraðilinn bar fyrir sig afrit af reikningum vegna sambærilegra verka og yfirlýsingu matsmanns, sem sagði 760 þúsund krónur hæfilegt verð á slíku verki.  Getty

Ófaglærðum verktaka sem rukkaði viðskiptavin sinn um þrjár milljónir fyrir flísalögn hefur verið gert að gjörlækka greiðslukröfu sína til viðskiptavinarins, niður í 760 þúsund krónur.

Í úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa kemur fram að fulltrúi á vegum viðskiptavinarins hafi óskað eftir þjónustu ófaglærðra starfsmanna varnaraðila við vinnu við lagningu flísa í baðherbergi og anddyri. 

Verktakinn hafi ekki viljað gera tilboð í verkið en lofað að tryggja sanngjarna og eðlilega verðlagningu á verkinu. Við verklok hafi hann aftur á móti send viðskiptavininum reikning upp á rúmlega þrjár milljónir. Sóknaraðilinn hafi gert athugasemdir við verðið og verktakinn sent leiðréttan reikning upp á 2,6 milljónir í kjölfarið.

Þrátt fyrir það taldi viðskiptavinurinn greiðslukröfuna hærri en eðlilegt geti talist miðað við umfang verksins. Hann krafðist þess að verðið yrði lækkað niður í 760 krónur, og studdist við reikninga frá verktökum vegna sambærilegra verka og skriflega yfirlýsingu matsmanns. 

Sér til varnar vísaði verktakinn til þess að viðskiptavinurinn hefði, meðan verki stóð, óskað eftir því að verkinu yrði flýtt og í kjölfarið hafi verið fenginn auka starfsmaður frá varnaraðila í verkið og yfirvinna unnin. 

Varnaraðili hefði þó tekið út yfirvinnutaxtann og hluta af skráðum yfirvinnutímum í kjölfar andmæla sóknaraðila. Þá benti varnaraðili á að verkið hafi verið vandasamt og unnist hægt vegna ástæðna sem varða efni og gerð flísanna auk þess sem veggir hafi verið skakkir og ójafnir.

Úrskurðarnefndin mat það svo að þær upplýsingar sem sóknaraðilinn aflaði um kostnað við flísalagnir í öðrum verkum auk yfirlýsingar matsmannsins, sem hefur lokið matstækni- og húsasmíðameistaranámi, væri fullnægjandi sönnun um þau atriði sem deilt var um. 

Í yfirlýsingunni kom fram að eðlilegt verð á hvern fermetra sé 19.000 krónur eða alls 760.000 krónur fyrir verkið. Nefndin féllst á það og úrskurðaði að verktakanum beri að lækka greiðslukröfu sína um rúmlega 1,8 milljón, úr 2,6 milljón krónum í 760 þúsund krónur. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


×