Atvinnulíf

Vopnfirska kjöt­súpan stoltið hjá efnahagsráðgjafa ríki­stjórnarinnar

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Orðatiltækið „illu er best aflokið“ á best við þegar Konráð S. Guðjónsson efnahagsráðgjafi ríkistjórnarinnar drífur sig fram úr á virkum dögum, enda segist hann B-týpa að upplagi. Eftir að allir eru græjaðir á heimilinu er það nóg af kaffi sem leggur síðan grunninn að góðum degi.
Orðatiltækið „illu er best aflokið“ á best við þegar Konráð S. Guðjónsson efnahagsráðgjafi ríkistjórnarinnar drífur sig fram úr á virkum dögum, enda segist hann B-týpa að upplagi. Eftir að allir eru græjaðir á heimilinu er það nóg af kaffi sem leggur síðan grunninn að góðum degi. Vísir/Vilhelm

B maðurinn Konráð S. Guðjónsson, efnahagsráðgjafi ríkistjórnarinnar, viðurkennir að hann muni seint teljast meistarakokkur. Stoltið í eldhúsinu er samt vopnfirska kjötsúpan sem er innblásin af Jóa stjúpföður hans.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Það fer yfirleitt eftir því hvenær synir mínir tilkynna að það sé kominn dagur, sem er oftast í kringum hálf átta.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Ég er er B-týpa að upplagi svo „illu er best aflokið“ ræður för. Á virkum dögum er það að koma sonum mínum í leikskólann og um helgar skemmtum við okkur saman yfir hvolpasveitinni, ef betri helmingurinn leyfir mér ekki að sofa lengur. Nóg af kaffi eftir að allir eru græjaðir er svo grunnurinn að góðum degi.“

Rétturinn sem þú ert stoltastur af að kunna að elda?

„Ég verð seint talinn meistarakokkur en prófa mig reglulega áfram svo hæfnin þokast í rétta átt. 

Ég er stoltastur af vopnfiskri kjötsúpunni sem er innblásin af Jóa stjúpföður mínum. 

Ekki flóknasta eldamennskan, en hefur ekki klikkað frá landnámi. 

Rjúpa, frá svipuðum slóðum, er í sömu hillu enda án nokkurs vafa besti matur sem ég hef eldað.“

Konráð segist að mestu byggja skipulagið sitt á verkefnalista sem hann berst síðan við að stytta yfir daginn. Það sé frekar einfalt kerfi, en hafi ekki klikkað hingað til.Vísir/Vilhelm

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Þessa dagana er ég að koma mér fyrir og kynnast forsætiráðuneytinu, enda hóf ég störf fyrir fáeinum dögum. Það eru ýmis mikilvæg verkefni í farvatninu eða í skoðun enda eru efnahagsmálin grunnurinn að lífskjörum landsmanna, vægt til orða tekið.

 Í mínum huga er mikilvægast að allir rói að því að skapa skilyrði til lækkunar vaxta með minnkandi verðbólgu. 

Einnig verða stjórnmálin ávallt að huga að því hvernig efnahagsmálin líta út eftir 5, 10 eða 50 ár svo það má ekki heldur gleyma sér í hagvísum einstakra mánaða.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Einhvern veginn hefur mér alltaf tekist að halda skipulagi frekar einföldu, nema helst í hópavinnu, þá koma Planner og sambærileg tæki sér vel. 

Að öðru leyti vinn ég mikið með „to-do“ lista sem ég berst við að stytta. 

Ef mikið liggur við hef ég skipt þeim upp í brýn verkefni og það sem má bíða.

 Einfalt, en hefur ekki klikkað hingað til.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Ég er oft kominn upp í rúm á góðum tíma, jafnvel fyrir klukkan ellefu en oftast aðeins seinna. B-týpan er þar auðveld bráð „doomscrolling“ og sjónvarpsþátta en gott hlaðvarp færir mig á endanum í draumalandið.“


Tengdar fréttir

„Í dag fæ ég næstum því bara hrós við matarborðið“

Pétur Óskarsson framkvæmdastjóri hjá Katla Travel og formaður SAF finnst gaman að elda og elskar ítalska eldhúsið og að vinna með villibráð sem hann veiðir sjálfur. Pétur segir börnin sín betur kunna að meta matseldina hans nú en þegar þau voru yngri.

Ljúfustu stundirnar þegar allir eru saman í hjónarúminu

Vigdís Diljá Óskarsdóttir, stjórnandi samskipta- og samfélagsmála Alcoa á Íslandi, segist þora að fullyrða að partígestir að austan kunni upp til hópa allir að dansa við ákveðinn indverskan popp slagara. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×