Handbolti

Perla frá Perlu eitt af flottustu mörkum undan­keppninnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Perla Ruth Albertsdóttir fagnar sæti á EM með Lilju Ágústsdóttur.
Perla Ruth Albertsdóttir fagnar sæti á EM með Lilju Ágústsdóttur. Vísir/Anton

Evrópska handboltasambandið hefur tilnefnt mark íslensku landsliðskonunnar Perlu Ruth Albertsdóttur sem eitt af flottustu mörkunum í undankeppni EM 2024.

Valið var tilkynnt á samfélagsmiðlum Evrópumótsins í tilefni að því að það var dregið í riðla í gær.

Íslensku stelpurnar tryggðu sér á dögunum sæti í úrslitakeppni EM i fyrsta sinn í tólf ár með góðum sigrum á Lúxemborg og Færeyjum í tveimur síðustu leikjum sínum.

Flotta markið hjá Perlu kom í sigrinum á Færeyjum. Hún leysti þá af línunni og út í horn og fékk boltann þangað. Perla fór síðan inn úr vinstra horninu og sneri boltanum laglega undir markvörð Færeyja og í markið.

Perla keppir þarna við Natálie Kuxová frá Tékklandi, Chloé Valentini frá Frakklandi og Kristinu Jörgensen frá Danmörku. Hér fyrir neðan má sjö þessi fjögur mörk.

Kuxová skoraði beint úr aukakasti, Valentini skoraði sirkusmark og Jörgensen aftur fyrir bak úr hraðaupphlaupi.

Perla skoraði alls sautján mörk í undankeppninni og var fjórði markahæsti leikmaður íslenska liðsins á eftir þeim Elínu Klöru Þorkelsdóttur (24 mörk), Theu Imani Sturludóttur (22) og Þóreyju Rósu Stefánsdóttur (21).
Fleiri fréttir

Sjá meira


×