Neytendur

Flúðu dónalegan farar­stjóra og fá ekki krónu

Árni Sæberg skrifar
 Fólkið var ekki ánægt með ferðina. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Fólkið var ekki ánægt með ferðina. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Adam Burn/Getty

Par sem krafðist þess að ferðaskrifstofa endurgreiddi því á fjórða hundrað þúsund króna vegna ferðar og skaðabóta vegna útlags kostnaðar fær ekki krónu úr hendi ferðaskrifstofunnar. Parið fór heim úr ferðinni þar sem það gat ekki hugsað sér að rekast á dónalegan fararstjórann.

Í úrskurði Kærunefndar vöru- og þjónustukaupa segir að samkvæmt gögnum málsins hafi fólkið fest kaup á ferðatengdri þjónustu af ferðaskrifstofunni. Það hafi greitt 354.528 krónur fyrir pakkaferð dagana 27. júní til 7. júlí árið 2022 og innifalið í verðinu hafi verið flug og gisting í tíu nætur á hóteli með morgunverði.

Af kvörtun yrði ráðið að fólkið hafi verið óánægt með hina keyptu ferð og ráðfært sig því við fararstjóra á vegum ferðaskrifstofunnar. Hafi það meðal annars innt eftir því hvort unnt væri að gera breytingar á ferðatilhöguninni með flutningi á hótel á öðrum stað. Hafi fararstjóri upplýst fólkið að það væri aðeins hægt með nokkrum tilkostnaði. Þann 28. júní 2022 hafi fólkið og fararstjórinn síðan rætt saman símleiðis. 

Óviðurkvæmileg ummæli

Að sögn fólksins hafi fararstjórinn viðhaft óviðurkvæðileg ummæli um annað þeirra. Í kjölfarið hafi þau bæði sem og foreldrar þeirra sett sig í samband við ferðaskrifstofuna og óskað eftir að þau yrðu færð í aðra ferð á vegum skrifstofunnar enda hafi þau hvorki getað hugsað sér að eiga í frekari samskiptum við fararstjórann né átt á hættu að rekast á hann á ferðalagi þeirra. 

Ferðaskrifstofan hafi boðið þeim að færa sig á annað hótel gegn greiðslu að fjárhæð 250.000 krónur. Þeim hafi þótt það boð ófullnægjandi og því ákveðið að bóka annað hótel og flug sjálf og ljúka ferðalagi sínu á eigin vegum. 

Þau byggi kröfu sína á hendur ferðaskrifstofunni á því að hún beri ábyrgð á háttsemi fararstjórans og framkomu hans í garð þeirra. Hafi háttsemi viðkomandi falið í sér verulega vanefnd á framkvæmd pakkaferðarinnar, sem hafi heimilað þeim að rifta fyrirvaralaust samningi aðila. Jafnframt telji þau sig eiga rétt á afslætti sem nemi heildarkaupverði ferðarinnar. Þá hafi þau krafist  skaðabóta vegna útlagðs kostnaðar að fjárhæð 355.036 krónur vegna kaups á nýju flugi til Íslands, hóteligistingu og ferðum. 

Vildu ekki nýja ferð og yfirgáfu hótelið

Ferðaskrifstofan hafi vísað til þess að fólkið hafi sjálft bókað og greitt fyrir hina umþrættu ferð í gegnum vefsíðu ferðaskrifstofunnar. Þegar þau hafi komið á áfangastað hafi þau orðið ósátt við það að vera ekki á líflegri stað og því ítrekað óskað eftir því að vera færð á hótel á öðrum stað. 

Ferðaskrifstofan hafi kveðist hafa reynt að komast til móts við óskir fólksins með tilheyrandi kostnaði og vinnu en tillögur hennar ekki hugnast fólkinu. Hafi þeim þá verið boðið nýtt tilboð í ferð á öðrum stað enda hafi ekki verið unnt að endurgreiða pakkaferðina samkvæmt skilmálum ferðaskrifstofunnar. Það hafi fólkið hins vegar ekki þegið og yfirgefið hótelið að eigin frumkvæði 1. júlí 2022.

Sammála því að ummælin hafi verið óviðeigandi

Í niðurstöðu nefndarinnar segir að nefndin taki undir það með fólkinu ummæli fararstjórans hafi verið óviðeigandi og óviðurkvæmileg. Um hafi verið að ræða brot á gagnkvæmri tillitsskyldu aðila í samningssambandi og þar með vanefnd á þeim skuldbindingum sem leiða af lögum um pakkaferðir. 

Á hinn bóginn verði ekki talið að uppfyllt hafi verið skilyrði laganna til þess að rifta samningnum, meðal annars í ljósi þess að ekki hafi verið fullreynt milli aðila hvort ráða hefði mátt bót á vanefndunum með viðeigandi hætti, auk þess sem hlutverk fararstjórans hafi verið takmarkað í ferðinni.  Verði því að hafna þeim kröfum fólksins sem reistar eru á því að því hafi verið heimilt að rifta samningnum. 

Með vísan til laganna telji nefndin að ekki geti komið til beitingar afsláttar í þessu tilviki. Ef ferðaskrifstofan hefði ekki getað útvegað annan fararstjóra hefði fólkið getað fengið afslátt sem næmi skorti á þeirri þjónustu á ferðatímanum, en það hafi kosið að rifta samningnum án þess að uppfyllt væru skilyrði til þess. Loks hafi ekki verið gerð krafa um ófjárhagslegar bætur í málinu. 

Í ljósi framangreinds væri óhjákvæmilegt annað en að hafna kröfum sóknaraðila.

Veistu meira um málið? Sendu okkur endilega ábendingar á ritstjorn@visir.is eða netfang blaðamanns.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×