Upp­gjörið: Njarð­vík - Þór Þ. 87-73 | Njarð­víkingar byrja af krafti

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Njarðvík byrjaði af krafti.
Njarðvík byrjaði af krafti. VÍSIR/DIEGO

Njarðvík byrjar úrslitakeppni Subway-deildar karla í körfubolta af krafti. Liðið fór illa með Þór Þorlákshöfn í Ljónagryfjunni í Reykjanesbæ þegar liðin mættust í fyrsta leik átta liða úrslita deildarinnar. Umfjöllun og viðtöl væntanleg.

Afmælisveisla Njarðvíkur fór vel af stað og settu gestirnir í Þór Þorlákshöfn fyrstu stig á töfluna úr fyrsta færi leiksins. Darvin Davis keyrði þá á körfuna og setti tóninn.

Njarðvík bætti um betur og svaraði með 7-0 áhlaupi og tók öll völd á leiknum. Sóknarleikur gestanna var svolítið erfiður í upphafi leiks á meðan Njarðvíkingar sóttu hverja körfuna á fætur annarri. Það var ekki fyrr en undir lok leikhlutans sem Þór náði að tengja saman nokkrar góðar sóknir og saxa á forskot heimamanna.

Í öðrum leikhluta var meira og minna boðið upp á það sama. Í hvert skipti sem maður hélt að mómentið væri að sveiflast með gestunum keyrðu heimamenn hraðan upp og sóttu leikinn aftur.

Það var gríðarlega góður stuðningur í stúkunni hjá Njarðvík sem vafalaust gaf þeim þá orku sem þurfti til að keyra á Þórsara og fara með fimmtán stiga forskot inn í hlé. Þorvaldur Orri lokaði leikhlutanum fyrir heimamenn með svakalegum buzzer þrist 51-36.

Njarðvík byrjaði þriðja leikhluta af krafti og sótti rúmlega 20 stiga forskot áður en þeir tóku svo fótinn af bensíngjöfinni. Benna til mikillar óánægju.

Þór Þ. komst inn í leikinn aftur en náðu þó ekki Njarðvíkingum sem voru alltaf skrefinu á undan og snemma í fjórða leikhluta var orðið ljóst hver útkomman yrði. Njarðvík fór að endingu með fjórtán stiga sigur af hólmi 87-73.

Atvik leiksins

Í upphafi fjórða leikhluta setja Njarðvíkingar átta stig sem sigla þessu heim og slá allan vind úr Þór Þ. Veigar Páll byrjar á að setja þrist, Dwayne Lautier-Oguleye fylgir því svo á eftir með öðrum þrist og ræðst svo á körfuna og setur önnur tvö stig. Eftir þetta fann maður að trúin fór svolítið úr gestunum.

Stjörnur og skúrkar

Dwayne Lautier-Ogunleye er alvöru leikmaður í liði Njarðvíkur. Setti 28 stig og var stigahæstur á vellinum.

Chaz Williams var líka öflugur þó hann hafi bara skorað fimm stig en hann skilaði 16 stoðsendingum og stýrði leik sinna manna frábærlega.

Nigel Pruitt var öflugur í liði gestanna og setti niður nokkur mikilvæg skot sem hélt smá lífi í þessu en var þó ekki nóg þegar uppi var staðið.

Dómarinn

Heilt yfir bara þokkalega dæmt hjá teyminu í dag. Sumir dómar sem maður furðaði sig kannski á og sumir ekki dómar sem maður hefði viljað sjá dæmt á. Stemmingin og umgjörð

Stemningin var frábær og mikið lagt í þetta hjá Njarðvík. Njarðvíkingar voru að halda upp á 80 ára afmæli félagsins og var Patrik Atlason (Prettyboitjokko) fenginn til að rífa upp stuðið fyrir leik sem virkaði líka svona heldur betur. Gleymist að hann var eitt sinn leikmaður Njarðvíkur í knattspyrnu svo eðlilega er römm sú taug og allt það fyrir klúbbnum.

Njarðvíkingar buðu upp á allskonar veislu og grilluðu ofan í mannskapinn. Það var hægt að fá popp enda um alvöru einvígi að ræða.

„Þurfum að sækja næstu tvo sigra til að klára þetta“

Njarðvík lagði Þór Þ. af velli 87-73 í Ljónagryfjunni þegar liðin mættust í fyrsta leik úrslitaeinvígis liðana í 8-liða úrslitum í Subway deild karla.

„Þetta er frábært. Við byrjuðum seríuna á 80 ára afmæli félagsins og vildum sækja sigurinn fyrir stuðningsmennina og byrja þetta á réttu nótunum. Þetta var fyrsti sigurinn af þrem sem þarf að vinna í þessari seríu svo það var gott að klára það og við eigum annan leik núna á sunnudaginn,“ sagði Dwayne Lautier-Ogunleye leikmaður Njarðvíkinga eftir leikinn í kvöld.

Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkinga talaði um það í viðtali eftir leik að hann hafi ekki verið nógu sáttur með sína menn í seinni hálfleik.

„Benni er að tilfinningarríkur þjálfari og vill alltaf að við séum betri og að bæta okkur svo við gerðum einhverjar breytingar og löguðum eitthvað líka en heilt yfir þá var frábært að ná í þessi úrslit þrátt fyrir að hafa gert smávægileg mistök. Við vitum að það verða einhver mistök en við verðum að halda áfram og berjast.“

Dwayne Lautier-Ogunleye var stigahæstur í kvöld á vellinum með 28 stig og hefur verið að heilla í síðustu leikjum með Njarðvík.

„Liðið bað mig um að vera ákafur og ég skil að stundum verða þetta mínir leikir og stundum verða það aðrir leikir. Ég er bara ánægður með að þetta hafi verið minn dagur í kvöld og að ég hafi getað hjálpað liðinu að sækja þennan sigur.“

Stuðningsmenn Njarðvíkur fjölmenntu á völlinn í kvöld og myndaðist frábær stemning í stúkunni. Dwayne var ánægður með stuðninginn.

„Þetta er frábært. Við vildum eiga heimavallar réttinn og sérstaklega í fyrstu seríunni hérna. Það er frábært að finna kraftinn úr stúkunni. Það verður auðvitað öðruvísi andrúmsloft á sunnudaginn á heimavelli Þórs. Við vildum byrja þetta af krafti og við gerðum það. Núna þurfum við bara að sækja næstu tvo sigra til að klára þetta. “

Dwayne var sammála því að það væri mikilvægt að verja heimavöllinn.

„Það er mjög mikilvægt. Þú villt ekki fara á útivöll undir í seríunni. Við eigum að vinna heimaleikina og við þurfum að reyna stela sigri á útivelli næst “

Njarðvíkingar virðast vera með eitthvað tak á liði Þórs en Njarðvík vann báða leikina í deildinni í vetur. Dwayne vildi þó ekki meina að það skipti miklu máli komandi inn í úrslitakeppnina.

„Ég myndi ekki endilega segja að við hefðum tak. Mér finnst eins og deildarkeppnin sé allt annað og þetta sé úrslitakeppni og það sé allt öðruvísi. Öll lið munu hagræða sér í úrslitakeppninni og við þurfum að vera tilbúnir fyrir þær breytingar og við þurfum að breyta sjálfir.“


Tengdar fréttir

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira