Um­fjöllun og við­töl: Njarð­vík - Stjarnan 99-72 | Njarð­vík aftur á sigurbraut

Andri Már Eggertsson skrifar
nja anton
vísir/Anton

Fjögurra leikja taphrinu Njarðvíkur er lokið eftir 27 stiga sigur gegn Stjörnunni 99-72. Njarðvík vann þrjá af fjórum leikhlutum og vann verðskuldaðan sigur. 

Þrátt fyrir að Stjörnunni vantaði Ísold Sævarsdóttur sem er leikstjórnandi liðsins og lykilmaður byrjuðu gestirnir frá Garðabæ betur og voru yfir eftir fyrstu fimm mínúturnar.

Eftir því sem leið á fyrsta leikhluta fór Njarðvík að ná vopnum sínum. Jana Falsdóttir fór fyrir Njarðvík í fyrsta leikhluta og gerði 9 stig og gaf 3 stoðsendingar. Heimakonur voru ellefu stigum yfir eftir fyrsta fjórðung 28-17.

Emilie Hesseldal gerði fyrstu fjögur stigin í öðrum leikhluta og eftir 77 sekúndur af körfubolta í öðrum leikhluta tók Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, leikhlé. Það var ekki nóg að tala við liðið í tvær mínútur eftir fyrsta leikhluta heldur þurfti hann strax að skerpa á hlutunum í öðrum leikhluta.

Njarðvík gaf lítið eftir og forskot liðsins jókst. Njarðvík var 19 stigum yfir í hálfleik 54-35. Stjarnan tapaði 14 boltum í fyrri hálfleik á meðan Njarðvík tapaði aðeins þremur boltum.

Þrátt fyrir strembinn fyrri hálfleik var enga uppgjöf að finna í liði Stjörnunnar. Gestirnir komu sterkari út í síðari hálfleikinn og gerðu fyrstu fimm stigin.

Eftir laglegan þriðja leikhluta þar sem Stjarnan náði að koma mun Njarðvíkur undir tíu stig fengu gestirnir ansi þungt högg. Selena Lott endaði á flautuþrist sem kveikti í húsinu. Staðan fyrir síðasta fjórðung var 73-58.

Njarðvík byrjaði fjórða leikhluta eins og liðið endaði þriðja leikhluta. Angela Strize setti niður þrist og augnablikið var algjörlega með heimakonum. Tveir þungir hnífar í bakið á Stjörnunni sem ógnaði ekki forystu Njarðvíkur eftir þetta.

Njarðvík vann að lokum 27 stiga sigur 99-72.

Af hverju vann Njarðvík?

Í fjarveru Ísoldar Sævarsdóttur var alltaf vitað að verkefnið yrði erfitt fyrir Stjörnuna. Sérstaklega í ljósi þess að Njarðvík hafði tapað fjórum leikjum í röð og þurfti nauðsynlega á sigri að halda.

Um leið og fyrsta áhlaup Njarðvíkur kom þar sem liðið gerði tíu stig gegn aðeins tveimur var orðið nokkuð ljóst hver úrslitin yrðu. 

Stjarnan kom til baka í þriðja leikhluta en Njarðvík endaði þriðja leikhluta á þristi og byrjaði fjórða leikhluta einnig á þristi og þá var þetta endanlega búið.

Hverjar stóðu upp úr?

Selena Lott var allt í öllu hjá Njarðvík. Selena setti afar mikilvægan flautuþrist þegar þriðji leikhluti kláraðist og gerði það að verkum að augnablikið var með Njarðvík í fjórða leikhluta. Lott endaði með 25 stig.

Jana Falsdóttir spilaði afar vel í kvöld. Jana byrjaði leikinn af krafti og gerði 9 stig í fyrsta leikhluta. Jana endaði með 21 stig og gaf 10 stoðsendingar. 

Hvað gekk illa?

Stjarnan var í miklum vandræðum með að passa upp á boltann. Gestirnir töpuðu fjórtán boltum í fyrri hálfleik og samtals tapaði liðið 26 boltum.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur Njarðvíkur er gegn Keflavík í undanúrslitum VÍS-bikarnum á miðvikudaginn klukkan 17:15.

Næsti leikur Stjörnunnar er gegn Grindavík þann 3. apríl klukkan 19:15.

„Frammistaðan í upphafi sérstaklega léleg“

Arnar Guðjónsson var vonsvikinn eftir leik kvöldsins.Vísir/Diego

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, var svekktur eftir tap gegn Njarðvík í kvöld.

„Við vorum með hugmynd af því hvað við ætluðum að gera en gerðum það illa sem segir okkur að við höfum ekki unnið nógu mikið í því. Frammistaðan í upphafi var sérstaklega léleg,“ sagði Arnar Guðjónsson og hélt áfram.

„Við ætluðum að gera hluti sem við gerðum ekki rétt og augljóslega fór það ekki í gegn og við reyndum að skerpa á því en það heppnaðist ekki betur en þetta.“

Stjarnan kom til baka í þriðja leikhluta og náði að koma forskoti Njarðvíkur undir tíu stig. Arnar var ánægður með hvernig Stjarnan endaði fyrri hálfleik.

„Mér fannst við loka öðrum leikhluta vel. Síðustu 4-5 mínúturnar voru góðar og við héldum því áfram í þriðja leikhluta. Boltinn stoppaði ekki eins mikið og varnarlega fórum við að gera það sem við erum vanar að gera og það var skömminni skárra.

Stjarnan tapaði 26 boltum og Arnar sagði að Njarðvík gerði vel varnarlega sem varð til þess að hans lið tapaði svona mörgum boltum.

„Við hentum ekki bara út af. Njarðvík tók stundum af okkur boltann og Jana er góð og hún tók nokkra bolta af okkur. Þetta gerðist líka þegar boltinn var stopp og árásirnar okkar ekki nógu góðar sem var vandamál,“ sagði Arnar Guðjónsson að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira