Um­fjöllun og við­töl: Kefla­vík - Grinda­vík 95-67 | Kefla­víkur­hrað­lestin á fullri ferð

Andri Már Eggertsson skrifar
Vísir/Hulda Margrét

Keflavík náði í kvöld sex stiga forskoti í A-hluta Subway-deildar kvenna eftir öruggan sigur á Grindavík á heimavelli. Deildarmeistaratitillinn blasir við liði Keflavíkur eftir sigurinn.

Leikurinn í kvöld var jafn til að byrja með en í lok annars leikhluta tók Keflavík frumkvæðið og hafði síðan algjöra yfirburði í seinni hálfleik. Lokatölur 95-67 og deildarmeistaratitillinn blasir við toppliðinu.

Keflavík byrjaði betur og tók frumkvæðið. Heimakonur gerðu vel í að koma sér í átt að hringnum og voru með ítrekaðar áætlunarferðir þangað sem skilaði sér í stigum. Grindavík lenti þó ekki allt of langt á eftir þar sem liðið hitti vel fyrir utan þriggja stiga línuna.

Grindavík setti niður þrjá þrista á fyrstu fimm mínútunum og gestirnir voru sex stigum undir þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður 15-9. Eftir því sem leið á fyrsta leikhluta kom meira jafnvægi í leikinn. Keflavík var fjórum stigum yfir eftir fyrsta fjórðung 23-19.

Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var ekki að bíða með hlutina í öðrum leikhluta heldur tók hann leikhlé eftir tvær og hálfa mínútu. Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta en þolinmæði Keflavíkur skilaði sér undir lokin þar sem liðið setti allt í botn.

Það gekk allt upp hjá heimakonum á báðum endum vallarins. Keflavík endaði fyrri hálfleik á 9-1 áhlaupi og var 13 stigum yfir í hálfleik 52-39.

Keflavík hamraði járnið á meðan það var heitt og gaf ekkert eftir í þriðja leikhluta. Þegar að fjórar mínútur voru eftir af þriðja leikhluta voru heimakonur nítján stigum yfir 64-45.

Leikur Grindavíkur batnaði ekki eftir því sem leið á þriðja leikhluta og heimakonur voru tuttugu og einu stigi yfir 72-51 þegar haldið var í fjórða leikhluta.

Hin bandaríska Kierra Anthony spilaði sinn fyrsta leik fyrir Grindavík í kvöld eftir að hún samdi við liðið í upphafi mánaðar. Kierra spilaði 22 mínútur og með hana inn á vellinum tapaði Grindavík með tíu stigum.

Þegar að tæplega átta mínútur voru eftir af leiknum var eins og allur vindur hafi farið úr gestunum og leikmenn Grindavíkur gáfust einfaldlega upp. Keflavík vann að lokum afar örrugan 28 stiga sigur 95-67.

Af hverju vann Keflavík?

Keflavík endaði fyrri hálfleik með því að gera níu stig gegn aðeins einu hjá Grindavík. Forskot Keflavíkur var 13 stig í hálfleik og Grindavík átti aldrei möguleika í síðari hálfleik.

Hverjar stóðu upp úr?

Sara Rún Hinriksdóttir var frábær og spilaði sinn besta leik frá því hún kom til félagsins. Sara var stigahæst með 19 stig og hún tók einnig 12 fráköst.

Daniela Wallen spilaði afar vel og var aðeins einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu. Wallen gerði 10 stig, tók 12 fráköst og gaf 9 stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

Danielle Rodriguez náði sér aldrei á strik og var langt frá sínum besta leik. Danielle gerði 4 stig og var með 15 prósent skotnýtingu. Með hana inn á vellinum tapaði Grindavík með 26 stigum.

Hvað gerist næst?

Næsta miðvikudag mætast Njarðvík og Keflavík klukkan 19:15. Grindavík og Stjarnan mætast á sama degi klukkan 20:15.

„Þjálfari og leikmenn skitu hrottalega á sig“

Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var svekktur eftir leik.Vísir/Vilhelm

Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var afar svekktur eftir tap kvöldsins.

„Þær voru mjög góðar og við mjög lélegar. Það gekk einfaldlega ekkert upp hjá okkur. Munurinn á þessum liðum er svona ef þú ert ekki tilbúin gegn Keflavík,“ sagði Þorleifur og hélt áfram.

„Mér fannst neistinn fara úr okkur snemma. Þegar við bjuggum til opin skot vorum við ekki að taka þau og þegar að við tókum þau vorum við hikandi. Í þau skipti sem við spiluðum góða vörn þá tóku þær sóknarfráköst.“

Þorleifi fannst liðið andlaust og tók sjálfur ábyrgð á því.

„Mér fannst við vera andlaus og ekki nógu undirbúin fyrir þetta. Það er ekki liðinu að kenna heldur náði ég ekki að undirbúa liðið nógu vel og þjálfari og leikmenn skitu hrottalega á sig,“ sagði Þorleifur svekktur út í sjálfan sig. 

 

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira