Viðskipti innlent

„Þetta er al­vöru skrímsli“

Jakob Bjarnar skrifar
Magnús Sverrir gengst fúslega við því að vera með bíladellu og þessi Benz-jeppi fari hæglega á toppinn á lista yfir þá bíla sem hann hefur átt.
Magnús Sverrir gengst fúslega við því að vera með bíladellu og þessi Benz-jeppi fari hæglega á toppinn á lista yfir þá bíla sem hann hefur átt. vísir/samsett

Magnús Sverrir Þorsteinsson, fyrrverandi fótboltakappi og nú forstjóri bílaleigu í Reykjanesbæ var að kaupa sér 60 milljóna króna jeppa.

Um er að ræða glæsilegan Mercedes-Benz AMG G 63-jeppa. Marta María á Smartlandinu var fyrst til að greina frá þessu. Bíllinn er kolbikasvartur, mattur á svörtum felgum og með skyggðum rúðum.

„Ég er farinn að halda að það sé einhver að stríða mér,“ segir Magnús í samtali við Vísi. Hann furðar sig á athyglinni sem þetta hefur fengið og segist hafa fengið fjölmargar athugasemdir frá vinum sínum.

Að sögn Mörtu Maríu, sem virðist hafa sérlega mikinn áhuga á þessum tiltekna jeppa, eru fjór­ir sams­kon­ar bíl­ar í um­ferð á Íslandi sem eru yngri en tveggja ára. Árið 2022 voru tveir slík­ir grip­ir flutt­ir inn og á þessu ári bætt­ust tveir til viðbót­ar. Allir ganga þessir jeppar sem ganga fyr­ir bensíni.

Það hlýtur að gefa manni mikið að fara um á svona bíl?

„Það … gefur mér væntanlega jafn mikið og Kian gefur þér,“ segir Magnús og vísar til þess að blaðamaður var búinn að upplýsa hann um að það væri nú slíkur bíll sem hann skældist um á.

„En, jújú, það er gaman að keyra á flottum bílum ef manni líður vel á þeim. Það er bara svoleiðis.“

Magnús gengst fúslega við því að vera með bíladellu.

„Já, mikla,“ segir Magnús og setur þennan jeppa í efsta sæti yfir þá sem hann hefur átt.

„Ég held ég verði að segja það. Þetta er alvöru skrímsli. Þetta er nú ekki fyrsti svona bíllinn á landinu en þeir eru ekki margir.“

Magnús segist treysta sér vel á fjöll á jeppanum, þetta sé nú aðeins meiri sportjeppi en venjulegur slyddubíll.

Rætt var við Magnús Sverri í Íslenska draumnum árið 2019.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×