Körfubolti

Kobe Bryant fær ekki eina styttu af sér heldur þrjár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Styttan sýnir Kobe Bryant benda til himins eftir 81 stigs leikinn sinn árið 2006.
Styttan sýnir Kobe Bryant benda til himins eftir 81 stigs leikinn sinn árið 2006. AP/Eric Thayer

Los Angeles Lakers frumsýndi í nótt nýja styttu af Kobe Bryant en um leið kom í ljós að hann fær ekki eina styttu heldur þrjár.

Fyrsta styttan af þremur sýnir Kobe í treyju númer átta og að ganga af velli eftir 81 stigs leikinn sinn á móti Toronto Raptors árið 2006. Hann sést þar benda til himins.

„Til að það sé á hreinu þá valdi Kobe sjálfur þessa stellingu og ef einhver er ósáttur þá bara þannig,“ sagði Vanessa Bryant, ekkja Kobe, á athöfninni í nótt.

Styttan er 5,8 metrar á hæð og verður fyrir utan höll Lakers sem ber nú nafnið Crypto.com Arena en hér áður Staples Center. Í kringum styttuna verða síðan fimm eftirlíkingar af Larry O'Brien bikarnum sem liðin fá fyrir að verða NBA meistari.

Það er líka tilvitnun í Kobe á styttunni. Hún er: „Leave the game better than you found it. And when it comes time for you to leave, leave a legend“ eða upp á íslensku: „Skildu við leikinn í betri en stöðu en þegar þú uppgötvaðir hann. Þegar kemur að þér að fara, farðu þá sem goðsögn“.

Það verður líka strikamerki á styttunni og með því að skanna það þá fá gestir aðgang að myndbandi um feril Kobe þar sem sjálfur Denzel Washington les undir.

Það er ekki búið að tilkynna hvar hinar tvær stytturnar verða. Önnur verður af honum í treyju 24 og hin verður af Kobe með dóttur sinni Giönnu sem fórst einnig í þyrluslysinu árið 2020.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×