Um­fjöllun: Frakk­land - Ís­land 39-32 | Ólympíu­meistararnir of stór biti fyrir strákana okkar

Ingvi Þór Sæmundsson og Runólfur Trausti Þórhallsson skrifa
Gísli Þorgeir fékk að finna fyrir því.
Gísli Þorgeir fékk að finna fyrir því. Vísir/Vilhelm

Ólympíumeistarar Frakklands voru of stór biti fyrir strákana okkar í öðrum leik liðanna í milliriðli á EM karla í handbolta. Lokatölur 39-32 og íslenska liðið hefur nú tapað þremur leikjum í röð.

Íslenska liðið var ekki lengi að brjóta ísinn líkt og í mörgum af síðustu leikjum en fyrirliðinn Aron Pálmarsson jafnaði metin í 1-1 þegar rúm mínúta var liðin. Í kjölfarið var leikurinn nokkuð jafn og staðan 4-4 þegar tæpar átta mínútur voru liðnar. Eftir það tóku Frakkar öll völd á vellinum og skoruðu fjögur mörk í röð.

Frakkar voru skrefinu framar það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en í blálok hans minnkaði Elliði Snær Viðarsson muninn í tvö mörk en því miður komust Frakkar í sókn sem þeir nýttu og staðan því 17-14 í hálfleik.

Elliði Snær vippar boltanum hér yfir Samir Bellahcene í marki Frakklands. Hann skoraði sex mörk í liði Íslands.Vísir/Vilhelm

Það helsta sem var hægt að taka úr fyrri hálfleiknum var að Frakkar gátu skotið fyrir utan eins og þeir vildu. Það gerðu þeir þar sem hvert skotið á fætur öðru söng í netinu en Viktor Gísli Hallgrímsson átti ekki sinn besta leik í markinu framan af og vörnin var ekki að hjálpa til. Á hinum enda vallarins átti Samir Bellahcene hins vegar mjög góðan leik en hann varði átta skot í fyrri hálfleik.

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði svo eitt af mörkum mótsins og líklega ársins undir lok fyrri hálfleiks. Gísli Þorgeir Kristjánsson kom inn af krafti og minnti á hvers hann er megnugur í fyrri hálfleik.

Munurinn var kominn upp í fimm mörk snemma í síðari hálfleik en Frakkar skoruðu tvö mörk svo gott sem á sömu sekúndunni. Ísland tapaði boltanum svo í næstu sókn en sem betur fer varði Viktor Gísli í marki Íslands. Þar sem strákarnir náðu ekki að nýta næstu sókn var munurinn orðinn sex mörk skömmu síðar eftir að Frakkarnir flugu í gegnum íslensku vörnina eins og hún væri einfaldlega ekki til staðar.

Íslensku strákarnir, og þá sérstaklega Haukur Þrastarson, neituðu hins vegar að leggja árar í bát og minnkuðu muninn að nýju niður í þrjú mörk. Upphaf síðari hálfleik var spilað á gríðarlegum hraða en þegar Frakkar náðu að stilla upp í sókn þá tókst þeim nær alltaf að skora.

Munurinn var í kringum þrjú til fjögur mörk þangað til nokkrar mínútur voru til loka leiks. Þá var íslenska liðið farið að þreytast og Frakkarnir gengu á lagið. Á endanum unnu Frakkar sjö marka sigur, lokatölur 39-32.

Elliði Snær, Óðinn Þór og Viggó Kristjánsson voru markahæstir í íslenska liðinu með sex mörk hver.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira