Viðskipti innlent

Loka Fabrikkunni í Kringlunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aðeins eitt útibú er eftir af Íslensku hamborgarafabrikkunni.
Aðeins eitt útibú er eftir af Íslensku hamborgarafabrikkunni. Vísir/Vilhelm

Íslenska hamborgafabrikkan hefur lokað útibúi sínu í Kringlunni í Reykjavík. Útibúið við Höfðatorg stendur nú eitt eftir en veitingastaðnum á Akureyri var lokað í desember.

Í Kringlunni má finna miða við inngang veitingastaðarins þar sem gestum er vísað á Höfðatorg því staðnum í Kringlunni hafi verið lokað. Samkvæmt upplýsingum frá útibúinu við Höfðatorg var tekið á móti gestum í útibúið í Kringlunni í síðasta skipti þann 30. desember. 

Fróðlegt verður að sjá hvað kemur í stað Íslensku hamborgarfabrikkunnar í Kringlunni.vísir/Vilhelm

Staðurinn var opnaður vorið 2014 en þá voru fyrir fyrsti staðurinn á Höfðatorgi í Reykjavík, sem hefur verið í rekstri frá árinu 2010, og útibú á Akureyri sem var opnað árið 2013 en var lokað á Þorláksmessu. Framkvæmdastjóri útibúsins fyrir norðan sagði leigusamning í kjallara KEA hótels hafa runnið út um áramót. Ákveðið hafi verið í haust að loka staðnum í lok árs.

Nóróveira kom upp á Hamborgarafabrikkunni í Reykjavík í júlí síðastliðnum. Loka þurfti útibúunum í Kringlunni og Höfðatorgi í nokkra daga en fjöldi starfsfólks og gesta veiktist nokkuð alvarlega. Nóróveira smitast auðveldlega en ekkert benti til þess að veikindin tengdist hráefni eða mat á veitingastöðunum. Ekki fékkst úr því skorið hvor veiran hefði smitast út frá viðskiptavini eða starfsmanni.

Jóhannes Ásbjörnsson og Sigmar Vilhjálmsson, þá best þekktir sem Simmi og Jói úr Idolinu, voru upphaflegir eigendur veitingastaðarins sem í dag er í eigu Gleðipinna. Kaupfélag Skagfirðinga er núverandi eigandi Gleðipinna og er forstjórinn María Rún Hafliðadóttir.

Vísir hefur sent Maríu Rún fyrirspurn um ástæðu lokunarinnar.


Tengdar fréttir

Hamborgarafabrikkunni skellt í lás á Akureyri

Hamborgarafabrikkan hefur ákveðið að loka útibúi sínu á Akureyri. Húsaleigusamningur rennur út um áramótin sem framkvæmdastjóri veitingastaðarins segir meginástæðu lokunar.

Nóró loka­niður­staðan og endur­greiða veikum gestum

Talið er að umfangsmikil hópsýking sem upp kom hjá starfsfólki og gestum á veitingastað Hamborgarafabrikkunnar í Kringlunni hafi verið af völdum nóróveiru. Þetta er niðurstaða embættis sóttvarnalæknis en nokkuð hefur verið á reiki hvort um nóróveirusýkingu hafi verið að ræða eða bakteríu sem veldur líkum einkennum og hefur greinst í álíka hópsýkingum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×