Um­fjöllun og við­töl: Grinda­vík - Njarð­vík 63-66 | Njarð­víkingar mörðu Suðurnesjaslaginn

Andri Már Eggertsson skrifar
grinda hluda
VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Njarðvík vann nauman þriggja stiga sigur er liðið heimsótti Grindavík í Smárann í Subway-deild kvenna í körfubolta í kvöld, 63-66.

Grindavík byrjaði leikinn betur. Jana Falsdóttir gerði fyrstu fimm stig Njarðvíkur en liðið var þó í vandræðum sóknarlega til að byrja með og liðið var að sætta sig við að taka erfið skot.

Eftir að Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, tók leikhlé var allt annar bragur á sóknarleik liðsins. Eftir kaflaskiptan fyrsta leikhluta voru gestirnir fjórum stigum yfir 16-20.

Eftir slæman endi á fyrsta leikhluta komst Grindavík betur inn í leikinn í öðrum leikhluta. Danielle Rodriguez kveikti í sínu liði með þriggja stig körfu og Grindavík gerði fimm stig í röð.

Eftir því sem leið á annan leikhluta datt leikur Grindavíkur aftur niður líkt og í fyrsta leikhluta. Angela Strize setti tvær þriggja stiga körfur ofan í og Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, tók leikhlé í stöðunni 26-35.

Danielle Rodriguez endaði á að gera fimm stig í síðustu sókn leiksins. Ena Viso braut á Daniellu fyrir utan þriggja stiga línuna en eftir að dómararnir skoðuðu atvikið aftur var óíþróttamannsleg villa niðurstaðan. Hún hitti úr öllum þremur vítunum en Grindavík fékk síðan boltann aftur þegar að 1.7 sekúndur voru eftir og þá tók Þorleifur leikhlé. Það var stillt upp fyrir Daniellu sem gerði flautukörfu.

Staðan var jöfn 40-40 í hálfleik og villa Enu Viso reyndist ansi blóðug fyrir Njarðvík.

Njarðvík byrjaði síðari hálfleik líkt og þann fyrri. Í tómum vandræðum með varnarleik Grindavíkur. Gestirnir gerðu aðeins eina körfu á fimm og hálfri mínútu. Leikurinn jafnaðist síðan út og Njarðvík var stigi yfir 50-51 þegar að haldið var í síðasta fjórðung.

Fjórði leikhluti byrjaði ekki vel fyrir Grindavík en liðið gerði átta stig á níu mínútum. Grindvíkingar gáfust þó ekki upp og náðu með ótrúlegum hætti að koma til baka.

Síðasta mínútan var æsispennandi. Grindavík gerði fimm stig á tæplega tólf sekúndum en Ena Viso svaraði með körfu fyrir Njarðvík. Grindvíkingar fengu síðustu sóknina sem endaði með að Danielle Rodriguez fékk nokkuð opið þriggja stiga skot sem fór ekki ofan í.

Njarðvík vann þriggja stiga útisigur 63-66.

Af hverju vann Njarðvík?

Það var sáralítill munur á liðunum í kvöld. Besti leikmaður Grindavíkur, Danielle Rodriguez, fékk tækifæri til þess að jafna en boltinn vildi ekki ofan í og þar við sat.

Hverjar stóðu upp úr?

Danielle Rodriguez fór á kostum í fyrri hálfleik og gerði 19 af 40 stigum Grindavíkur. Hún endaði með 23 stig en hún tók einnig 9 fráköst og gaf 3 stoðsendingar.

Emilie Hesseldal var allt í öllu hjá Njarðvík. Hún gerði 11 stig, tók 10 fráköst og gaf 7 stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

Grindavík endaði þriðja leikhluta afar illa og byrjaði fjórða leikhluta skelfilega. Njarðvík gerði níu stig í röð. 

Grindavík gerði aðeins átta stig á níu mínútum í fjórða leikhluta og það var með ólíkindum hversu litlu það munaði í lokin að leikurinn myndi fara í framlengingu. 

Hvað gerist næst?

Breiðablik og Grindavík mætast í Smáranum þann 2. janúar á næsta ári klukkan 19:15.

Þann 3. janúar mætast Njarðvík og Þór Akureyri klukkan 19:15.

Þorleifur: Boltinn skrúfaðist upp úr hjá okkur en ekki þeim

Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var svekktur eftir leik.Vísir/Vilhelm

Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var svekktur eftir tap kvöldsins.

„Þetta lokaskot sem fór ekki ofan í var munurinn. Það er erfitt að segja annað eftir svona leik. Boltinn skrúfaðist upp úr hjá okkur en fór ofan í hjá þeim.“

Grindavík var í miklum vandræðum í fjórða leikhluta en spilaði vel síðustu mínútuna og fékk tækifæri til þess að jafna og komast í framlengingu.

„Mér fannst við vera að búa til flott skot sem voru ekki að fara niður. Ég hefði viljað sjá okkur reyna að fara meira á körfuna í fljótu bragði en samt ekki.“

„Varnarlega vorum við að standa vaktina í 18 sekúndur en síðan skoruðu þær og einbeitingin var ekki nógu góð.“

Staðan var jöfn í hálfleik 40-40 en Þorleifur var ekki ósáttur en fannst liðið hafa átt aðeins inni. 

„Ég var ekki ósáttur í hálfleik en mér fannst við eiga helling inni og við sýndum í seinni hálfleik að við vorum ekki að setja skotin niður sem við vorum að búa til.“

 

Charisse Farley, leikmaður Grindavíkur, var handtekin við komu sína til New Jersey þann 2. nóvember. Farley spilaði með Grindavík í kvöld og hefur verið að spila síðustu leiki. Þorleifur vildi ekki tjá sig aðspurður út í hennar mál.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira