Atvinnulíf

Styrk­leiki en ekki aumingja­skapur að þora að hætta við og prófa sig á­fram

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Katrín Aagestad Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri markaðsmála hjá Heimkaupum ferðaðist um heiminn eftir stúdent, prófaði síðan viðskiptafræði, fór í leiklistarnám til Danmerkur, lærði bardagalist í Tælandi, hefur stundað brimbretti í Þorlákshöfn, gefið út ljóðabók, starfað í kvikmyndageiranum og lært margmiðlun og vörumerkjastjórnun.
Katrín Aagestad Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri markaðsmála hjá Heimkaupum ferðaðist um heiminn eftir stúdent, prófaði síðan viðskiptafræði, fór í leiklistarnám til Danmerkur, lærði bardagalist í Tælandi, hefur stundað brimbretti í Þorlákshöfn, gefið út ljóðabók, starfað í kvikmyndageiranum og lært margmiðlun og vörumerkjastjórnun. Vísir/Vilhelm

„Ég man mómentið þegar himnarnir hreinlega opnuðust,“ segir Katrín Aagestad Gunnarsdóttir og skælbrosir þegar hún rifjar upp þá tilfinningu sem fylgdi að vera loksins búin að finna sína rétta hillu.

Þetta var árið 2013 í Kaupmannahöfn, þegar Katrín hafði verið í um það bil viku í margmiðlunar- og vörumerkjastjórnunarnámi. Til Kaupmannahafnar hafði hún þó farið til að læra leiklist og áður en hún hóf það nám, var hún líka búin að ferðast um heiminn, læra Muay Thai bardagalist í Thailandi og prófa viðskiptafræði í Háskóla Íslands í einn vetur.

Katrín segist þó alls ekki sjá eftir því að hafa tekið sinn tíma í að finna sína réttu hillu í lífi og starfi og við ungt fólk sem er að reyna að átta sig á því hvað því langar til að gera, segir Katrín það algjörlega þess virði að taka sér sinn tíma í það.

Þú veist ekki neitt fyrr en þú hefur prófað og mér finnst miklu máli skipta að við séum óhrædd við að hætta einhverju ef okkur finnst það ekki eiga nógu vel við okkur. 

Það á ekki að vera nein aumingjatilfinning sem fylgir því. Það er miklu meiri styrkleiki sem felst í því að taka ákvörðun um að hætta við og líta ekki á neina reynslu sem klúður. 

Frekar að spyrja okkur: Hvað lærði ég um sjálfa mig af þessu? Og halda svo áfram.“

Í dag starfar Katrín sem framkvæmdastjóri markaðsmála hjá Heimkaup, en áður starfaði hún í fjögur ár í markaðsdeild Nova, þar af sem markaðstjóri í tvö ár. Þá starfaði Katrín áður í kvikmyndageiranum, meðal annars hjá Pegasus og í Danmörku starfaði hún um tíma hjá danska fyrirtækjarisanum Phillips.

Til viðbótar hefur Katrín stundað að stíga ískaldar öldurnar í Þorlákshöfn og hún hefur líka gefið út ljóðabók.

Sambýlismaður Katrínar er Hafsteinn Þór Jóhannsson málarameistari, en Hafsteinn á tvo syni frá fyrra sambandi: Bastían sem er fjögurra ára og Nóel Þór sem er níu ára.

Katrín segir enga aumingjatilfinningu eiga að fylgja því þótt ungt fólk þreifi fyrir sér hvað því langar til að læra eða leggja fyrir sig. Allt sem prófað er fer í reynslubankann og miklu frekar að fólk sé óhrætt við að prófa hluti. Til dæmis datt Katrínu og vini hennar eitt sinn í hug að fara til Tælands og læra bardagalist.

Þreytt á að þekkja alla

Katrín fæddist á Selfossi árið 1990 og þar segir hún fjölskylduna sína búa enn: Foreldra og tvo eldri bræður.

Katrín er nokkuð yngri en bræðurnir, sannkallað örverpi að eigin sögn.

Hún segir æskuna á Selfossi hafa verið góða og þar hafi alltaf verið nóg að gera.

„Ég lærði á blokkflautu og píanó, var í íþróttum og í kór og þegar að ég fór í FSu ættist félagsífið við,“ segir Katrín sem þá var í nemendaráðinu og formaður leikfélagsins.

„Það er svo gaman að rifja upp að þegar maður var átján nítján ára gamall í nemendaráðinu var maður svo uppfullur af sjálfstrausti og efaðist ekki um neitt þótt leiksýningar, söngleikir eða aðrir viðburðir sem við værum að setja upp væru í stærri kantinum,“ segir Katrín og skellihlær.

„Maður óð áfram, algjörlega óhræddur og ekki með neinar áhyggjur af því að klúðra einhverju eins og maður myndi eflaust velta sér upp úr í dag.“

Katrín segir það hafa verið gaman að alast upp í litlu bæjarfélagi.

„Ég viðurkenni samt alveg að ég var orðin svolítið þreytt á að þekkja alla og að allir þekktu mann eins og gengur og gerist í litlum samfélögum. Því í litlum samfélögum umgengst maður sama fólkið frá því að maður er sex ára og það getur verið erfitt fyrir fólk að brjótast út úr forminu, við minnstu breytingar eru viðbrögðin sterk. Þannig að áður en ég fór frá Selfossi var ég svo sem orðin spennt fyrir því að fá smá pásu frá þessari nánd.“

Snemma hafði Katrín tekið þá ákvörðun að verða leikkona þegar hún yrði stór.

„Ég sá Þrek og tár í sjónvarpinu í kringum ´96 og við áttum það á spólu því við tókum útsendinguna upp. Ég var algjörlega heilluð, horfði á þetta aftur og aftur og enn í dag get ég þulið upp setningar úr þessari sýningu.“

Eftir stúdentinn gerði Katrín tvær tilraunir til að komast inn í leiklistarskólann en fékk ekki brautargengi.

Hún skellti sér því í viðskiptafræði í Háskólanum.

Hvers vegna viðskiptafræði?

„Æi þetta var bara svona: Allir áttu að klára stúdentinn og fara síðan að reyna að læra eitthvað gáfulegt,“ svarar Katrín og hlær.

Áður en hún fór í háskólann, ferðaðist hún þó um heiminn.

„Í þrjá mánuði vann ég í sjálboðastarfi í Grikklandi, síðan fór ég með að ferðast um Bandaríkin og í kjölfarið hélt Katrín til Danmerkur þar sem hún fór í lýðháskóla.“

Námið sem Katrín sótti þar var listatengt og gekk út á námsgreinar eins og dans, tónlist og fleira.

„Ég hef samt alltaf verið 50:50 með tvo eiginleika. Annars vegar þessi hluti í mér sem þrífst á skipulagi en hins vegar sá hluti af mér sem nærist í sköpun.“

Katrín segir tvo eiginleika til jafns hjá sér: Annars vegar skipulagshlutinn og hins vegar sköpunarþörfin. Katrín segir kvikmyndageirann rosalega skemmtilegan og að þar séu störfin mjög skipulagsmiðuð. Í markaðsmálunum nær hún hins vegar að nýta báða eiginleikana sína.

Bókhald og hagfræði: Nei takk!

Eftir einn vetur í viðskiptafræði, var Katrín svo sem búin að átta sig á því að viðskiptafræðin hentaði henni ekki.

„Maður lærði fullt um sjálfan sig samt á þessum tíma. Ég til dæmis áttaði mig á því að markaðsmál og stjórnun áttu rosalega vel við mig. En hagfræði og bókhald….Nei takk! Ég hafði sko ekki áhuga á þessu,“ segir Katrín og skellir upp úr.

Katrín sótti um leiklistarnám í Kaupmannahöfn og viti menn: Þar komst hún inn!

Draumurinn stefndi því í að verða að veruleika og árið 2012 hélt Katrín því loksins utan í draumanámið.

Að hún hélt.

„Eftir eitt ár var ég hins vegar búin að átta mig á því að mig langaði til að gera meira en að túlka bara það sem aðrir skapa. Þar kemur inn þessi 50:50 hluti af mér, annars vegar skipulagshlutinn en hins vegar sköpunarhlutinn,“ segir Katrín og bætir við:

„Á þessu ári lærði ég samt rosalega margt sem nýtist mér enn í dag. Til dæmis það að setja sig í spor annarra, að segja sögur og fleira sem svo sannarlega kemur sér vel í markaðsmálum og vörumerkjastjórnun sem ég starfa síðan við í dag.“

Þá segir Katrín það líka hafa verið mikinn bónus að læra annað tungumál.

„Það var rosaleg pressa að læra dönskuna hratt því í skólanum var allt á dönsku. En ég er líka mjög þakklát fyrir það í dag að kunna annað tungumál.“

Katrín svissaði því frá leiklistinni og yfir í margmiðlun og vörumerkjastjórnun. Þar sem hún fann sig strax á fyrstu dögunum, lærði hratt á forrit eins og photoshop, Illustrator og fleira sem gerði henni kleift að fara að skapa og vinna í alls konar hugmyndum sem hún sjálf hafði verið með í kollinum lengi.

Þarna hugaði ég bara með LOKSINS, þetta er málið! Hérna á ég heima og það er frábær tilfinning að komast á þann stað að finna það svona vel. 

Að ég væri búin að finna nám þar sem styrkleikarnir mínir fá að njóta sín og hentar mér því best.“

Samhliða námi starfaði Katrín í markaðsdeildinni hjá Philips og því spurning um hvort hana hafi ekki bara langað til að setjast að í Kaupmannahöfn?

„Jú ég viðurkenni alveg að draumaveröldin væri sú að búa í Kaupmannahöfn en þá þannig að fjölskyldan mín og vinirnir væru þar líka,“ svarar Katrín.

Því það var í raun söknuðurinn yfir fólkinu sínu sem skýrir það út, hvers vegna Katrín hélt aftur til Íslands eftir fimm ára nám í Danmörku.

Með stórstjörnum og á skemmtistað

Það var á Danmerkur árunum sem Katrín fékk þá flugu í höfuðið að fara til Tælands og læra bardagalistina Muay Thai.

Hvernig kom það til?

„Ég og vinur minn fengum þá hugmynd að það gæti verið gaman að gera það,“ segir Katrín og hlær. Því sumt þarf ekkert að vera neitt flóknari en einmitt þannig.

Á Íslandi réði hún sig til kvikmyndafyrirtækisins Pegasus sem hún segir hafa verið ofboðslega skemmtilegt starf.

„Ég var í alls konar verkefnum hjá þeim og þetta var ævintýralegur tími. Fullt af stórstjörnum og ofurmódelum og í raun er það líka ákveðið ævintýri að fá að sjá Ísland í gegnum kvikmyndageirann,“ segir Katrín og útskýrir hvernig oft séu tökur á stöðum á Íslandi sem eru ofboðslega fallegir en ekki öllum aðgengilegir. Því þetta eru þá umsamin tökusvæði á einkalóðum og fleira.

Það var því á þessum tíma sem Katrín var meðal annars stödd upp á jökli með Jackie Chan og fleirum, en þar voru tíu dagar í tökur fyrir kvikmyndina Kung fu Yoga.

„Maður færðist smátt og smátt upp í starfi, fór frá því að vera production assistant yfir í að vera coordinator eins og það kallast á þessu tungumáli. Störf í kvikmyndageiranum eru ofsalega skipulagsmiðuð og það er óhætt að segja að sá hluti af mér hafi virkilega fengið að njóta sín á meðan ég starfaði í þessum geira.“

Katrín segir það vel geta verið að hún myndi snúa aftur í kvikmyndageirann. Svo skemmtilegur er hann. Hins vegar endaði hún með að segja upp og ákvað að reyna að finna starf sem væri meira í samræmi við það nám sem hún hafði klárað úti.

„Ég fann að þessi sköpunarhluti í mér þurfti að fá meiri útrás því auðvitað leitast maður í að það sé bæði skipulagsþörfin og sköpunarþörfin sem fá að njóta sín en ekki aðeins annar hlutinn.“

Úr varð að Katrín réði sig á markaðsdeildina hjá Nova.

„Og ég hef oft sagt: Nú er búið að skemma alla aðra vinnustaði fyrir mér! Því Nova er svo ofboðslega skemmtilegur vinnustaður, það er svo gaman þarna og vinnustaðamenningin sem þar ríkir er einfaldlega engu öðru lík.“

Ástin hjá Katrínu og Hafsteini sambýlismanni hennar kviknaði fyrst þegar þau voru 17 ára á sveitaballi. Þrettán ár liðu þó þar til þau hittust aftur en fyrir átti Hafsteinn tvo syni, þá Bastían sem er fjögurra ára og Nóel Þór sem er níu ára.Vísir/Vilhelm, einkasafn

Ást og dramatísk móment

En nú þegar starfsframinn og alls konar ævintýri hafa þegar verið útskýrð, er komið að því að heyra aðeins um ástarmálin og fjölskylduhagina í dag.

Hvernig kom það til að hún og Hafsteinn tóku saman?

„Sko. Við hittumst reyndar á sveitaballi þegar við vorum sautján ára. Og þá fórum við í sleik,“ segir Katrín og skellihlær.

„En ég er má segja late bloomer í öllu. Það tók mig tíma að finna réttu ástina, alveg eins og það tók mig tíma að finna réttu hilluna í námi og starfi.“

Um tvö og hálft ár eru síðan Katrín og Hafsteinn tóku saman, en hann rekur sitt eigið fyrirtæki.

„Það liðu um þrettán ár frá sveitaballinu umræddu þar til við hittumst aftur. Þá sá ég hann í Sundhöll Reykjavíkur og ákvað eftir sundið að senda honum línu á Instagram.“

Til að gera langa sögu stutta hafa þau verið saman æ síðan segir Katrín.

En hvar kemur brimbrettaáhuginn inn í þetta allt saman?

„Vinkona mín í Pegasus var mikið í þessu og ég byrjaði að kíkja með henni. Hún átti allt af öllu og til að byrja með fékk ég lánaðan búnað hjá henni. Þetta er æðislegt sport, að fara í Þorlákshöfn á veturnar þegar það er þvílíkur mínus og kalt í veðri. Auðvitað pínu ruglað en ótrúleg upplifun,“ segir Katrín og viðurkennir að auðvitað á hún allan búnað sem til þarf í dag.

En hvernig gengur það fyrir sig að vera byrjandi sem brimbrettakappi í íslenskum sjó sem að öllu jafna þykir nú frekar hættulegur?

„Jú sjáðu til. Í Þorlákshöfn eru tveir staðir fyrir brimbrettafólk. Annars vegar höfnin þar sem reyndari fólk fer. Hins vegar er sandströnd rétt hjá golfskálanum og þar eru fínar öldur og gott svæði fyrir byrjendur.“

Katrín viðurkennir samt að stundum taki sportið á.

„Þér verður ekkert kalt á meðan þú ert í sjónum. Því þá ertu í þykkum blautgalla. Dramatíkin hefst þegar maður kemur uppúr því þá er maður blautur og erfitt að fara úr gallanum, sem er alveg límdur við þig. Ég skal alveg viðurkenna að ég hef hreinlega grátið af sársauka við þá athöfn að reyna að koma mér úr blautum gallanum,“ segir Katrín og hlær.

Katrín segir mikilvægt að finna það sem kveikir í manni þannig að það sé alltaf tilhlökkun til að mæta í vinnuna. Hún segir miklu meiri styrkleika felast í því að taka ákvörðun um að hætta við og prófa sig áfram, frekar en að finna ekki út hvar styrkleikarnir hjá fólki nýtast sem best.Vísir/Vilhelm

Mikilvægt að hlakka alltaf til

Katrín segist ótrúlega spennt fyrir nýja starfinu sínu hjá Heimkaupum. Hún segir það hafa komið til þannig að Gréta María Grétarsdóttir forstjóri Heimkaupa hafði samband við hana og í einhverjum samtölum fór hún yfir það sem framundan væri hjá fyrirtækinu.

„Og mér finnst þetta ótrúlega spennandi og fann bara eftir nokkur samtöl við Grétu að ég væri tilbúin í að takast á við ný og spennandi verkefni. Það er líka rosalega gaman að fá tækifæri til að skapa vörumerki frá grunni í svona metnaðarfullu verkefni sem vegferð Heimkaupa er og fá að vera með frá byrjun.“

Katrín segist samt hafa lært það á síðustu árum að taka aldrei of stórar ákvarðanir um að ætla að verða ,,alltaf“ þetta eða hitt.

„Mér fannst ég læra það að málið snýst ekki um að taka ákvarðanir um að vera í einhverri stöðu eftir einhver ár, heldur frekar að setja markmiðið á það að v

finnast alltaf skemmtilegt og vera alltaf að vinna við það sem gerir mig spennta,“ segir Katrín og bætir við:

„Ég myndi því alltaf segja við fólk að vera óhrædd að hætta við hluti ef þeir eru ekki það sem fólk brennur fyrir. Eftir fimm ár vona ég til dæmis að ég sé bara fyrst og fremst enn að gera það sama: Að segja Já við nýjum tækifærum og að vinna við verkefnum sem gera mig spennta og að ég hlakki til að mæta í vinnuna alla daga.“

Katrín segir að auðvitað þýði þetta ekki að í lífi og starfi séu líka alltaf einhver verkefni sem ekki teljast þau allra skemmtilegustu.

En þá er bara að hugsa þau verkefni sem áskoranir að takast á við .Og áskoranir eru líka spennandi. 

Við gerum til dæmis öll mistök en þá er líka bara málið að læra af þeim mistökum. 

Allt snýst þetta um hugarfarið og ég er búin að læra fullt um sjálfan mig með því að prófa mig áfram. 

Nú veit ég að markaðsmálin eiga vel við mig, en bókhald og hagfræði ekki og svo framvegis. 

Starfsframinn snýst um að finna það sem kveikir í þér.“


Tengdar fréttir

„Síðan var ég auðvitað rekinn þaðan reglulega“

„Ég var ekki einu sinni kominn með bílpróf og viðurkenni svo sem að fyrsti útsendingartíminn minn var ekkert sérstakur. Því ég var á um helgar frá klukkan 03-09 um nótt til morguns,“ segir Bjarni Haukur Þórsson og skellihlær þegar hann rifjar upp þá tíma þegar hann taldist yngsti dagskrárgerðarmaður landsins í útvarpi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×