Körfubolti

Lárus: Hefðum verið í vand­ræðum án Jose Medina

Andri Már Eggertsson skrifar
Lárus Jónsson, þjálfari Þórsara.
Lárus Jónsson, þjálfari Þórsara. Vísir/Bára Dröfn

Þór Þorlákshöfn komst aftur á sigurbraut eftir sannfærandi sigur gegn Tindastóli 96-79. Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar, var afar ánægður með sigurinn.

„Ég var mjög ánægður með strákana. Þetta var framhald af góðri æfingaviku og ef þú æfir vel með mikla ákefð þá gerast góðir hlutir. Mér fannst ákefðin góð í vörninni og þá fylgdi sóknin með,“ sagði Lárus Jónsson eftir leik.

Lárus tók undir það að hans lið hafi mætt gríðarlega vel til leiks og hann fann fyrir orkunni í liðinu strax á fyrstu mínútunum.

„Fyrirliðinn, Emil Karel, setti tóninn og síðan héldum við orkunni nokkurn veginn allan leikinn. Þeir áttu gott áhlaup í þriðja leikhluta en ekkert meira en það.“

Tindastóll kom til baka í þriðja leikhluta og minnkaði muninn niður í sex stig þegar haldið var í síðasta fjórðung.

„Þeir fóru að setja stór skot. Callum Lawson setti svakalega þrista og hann er leikmaður sem setur stór skot. Á móti urðum við stressaðir og hættum að leita af því sem var að virka.“

Lárus var afar ánægður með hvernig hans menn svöruðu áhlaupi Tindastóls í fjórða leikhluta og unnu að lokum sannfærandi sigur.

„Eina sem strákarnir þurftu var að sjá boltann fara ofan í körfuna einu sinni og þá var stressið farið.“

Jose Medina spilaði sinn fyrsta leik fyrir Þór Þorlákshöfn og Lárus var ánægður með hans innkomu.

„Hann var að spila mjög góða vörn og hann var að ná að stilla upp. Ég held að við hefðum geta verið í vandræðum hefði hann ekki verið með okkur í kvöld,“ sagði Lárus Jónsson að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×