Makamál

„Sniðug, opin, klár og heit“

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Vala er þrítug stemmningskona.
Vala er þrítug stemmningskona.

Hin lífsglaða stemmningskona, Valgerður Anna Einarsdóttir eða Vala, er þrítug kona sem elskar stemmningu og stuð. Hún lýsir sér sem lífskúnstner með breytt áhugasvið. 

Aðspurð hvaða týpu hún heillast að segir Vala gott sjálfstraust og húmor efst þar á lista.

„Svo fylgir klár, sniðugur, skemmtilegur, góður og stemmingsmaður fast á eftir,“ segir hún.

Aldur? Þrítug.

Starf? Ég vinn við viðskiptaþróun fyrir hugbúnaðarfyrirtæki og sé um nýsölur í Evrópu, Asíu og Eyjaálfu.

Áhugamál? Ég á mér svo mörg áhugamál að það er erfitt að lista þau öll. Helsta er að föndra og búa til föt, ég er alltaf að prjóna, hekla eða sauma. Svo elska ég að vera á sveitabænum hjá fólkinu mínu í Skagafirðinum, taka á móti lömbum, fara í göngur og réttir. Ég elska að ferðast til nýrra landa, borða góðan mat og upplifa nýja menningu. 

Ég elska dýr, sérstaklega ungviði og að lesa mér til um hákarla og sjóinn. Ég elska að setjast niður og æfa mig að mála mig og gellast. Ég elska að fara í bíltúr um landið, útilegur og svo byrjaði ég að æfa mig á skíðum í fyrra. Svo hef ég mjög mikinn áhuga á fólki. 

Ég hef eiginlega áhuga á öllu, er það svindl?

Gælunafn eða hliðarsjálf? Sko, ég heiti náttúrulega ekki Vala. Ég heiti Valgerður. En ég er alltaf kölluð Vala, þannig ætli hliðarsjálfið sé ekki Valgerður. Valgerður er allt annar karakter og she means business.

Aldur í anda? Ég og vinkona mín ræddum þetta svolítið þegar við vorum unglingar og sögðum að við myndum alltaf vera 17 ára. Svo urðum við 17+1, +2, +3. Þannig það má segja að ég sé 17+13 ára.

Menntun? Ég er með grunnpróf í viðskiptafræði frá HÍ og svo meistarapróf í viðskiptum og markaðsfræði frá UNSW í Sydney.

Hvað myndi sjálfsævisagan þín heita? Mér datt ekki í hug að þessar spurningar yrðu svona krefjandi. Hvað með „Ævintýri Völu í máli og myndum“? „Vala – í smásjá“? „Já, það er erfitt að vera svona fyndin - Ævisaga Völu Einars“? Þetta eru allt titlar í vinnslu og settir fram með fyrirvara um breytingar.

Guilty pleasure kvikmynd? Ég gæti aldrei valið eina en hátt á listanum eru School of Rock og Sister Act 2 og svo er mitt guilty pleasure genre, ævintýramyndir. Ég get horft á The Mummy, Indiana Jones, Tomb Raider, Goonies, National Treasure, Da Vinci Code og þar fram eftir götunum aftur og aftur. 

Þessar myndir eru ekki að fara vinna nein verðlaun en þær eru búnar að vinna mig.

Varstu skotin í einhverjum frægum þegar þú varst yngri? Ég er alltaf skotin í einhverjum frægum. Ég var au pair á Ítalíu sumarið 2010, þá er ég að verða 18 ára. Ég var með svo mikla heimþrá að ég var alveg að fara á límingunum. Ég skrifaði dagbók á þessum tíma þar sem sést svart á hvítu hvað mér fannst erfitt að vera í burtu. Ég teiknaði meira að segja hringi í kringum tárin sem féllu á blaðsíðurnar í dagbókinni (og nei, ég er ekki að grínast). En ég var alveg staðráðin í að fara ekki heim – af því að það væri „líklegra“ að ég myndi hitta Justin Bieber á Ítalíu heldur en á Íslandi og við yrðum yfir okkur ástfangin.

Talar þú stundum um þig í þriðju persónu? Nei eða mjög sjaldan og þá er það oftast Valan. Með greini.

Syngur þú í sturtu? Hvað þá? Mér finnst svo rómantískt að syngja í sturtu eins og í góðum rom-coms þannig að ég vildi óska þess að ég væri mikið að gaula í sturtunni. En nei, kannski einstaka sinnum þegar ég er að gera mig til fyrir partý.

Uppáhalds snjallforritið (e.app) þitt? Instagram og Íslendingabók.

Ertu á stefnumótaforritum? Já en mér finnst ég mjög leiðinleg á þessum forritum. Ég þarf að vera í ákveðnum gír til að halda uppi samræðum og skipuleggja stefnumót svo þetta beri einhvern ávöxt. Þetta er alveg aukavinna ef maður ætlar að leggja allt undir til að finna sér prins.

Hvernig myndir þú lýsa þér í þremur orðum? Skemmtileg, fyndin, góð. Er þetta kannski of?

Hvernig myndu vinir þínir lýsa þér í þremur orðum? Ég lagði þetta fyrir 5 manna rýnihóp. 

1 - Ævintýragjörn, litrík, center of attention. 

2 – Orkumikil, gleðibomba, flippuð og fabjúlöss. 

3 – Sniðug, opin, klár og heit.

4 – Fyndnust, mesta stemmingskonan, besta vinkona vina þinna, traust, heilsteypt og klár.

5 – Frumleg, hilarious, glysgjörn, opin, traust like no other og duglegust. Lykilatriði sem við lærum af þessari æfingu er að vinum mínum þykir mjög vænt um mig en þau kunna ekki að telja.

Hvaða persónueiginleikar finnast þér heillandi? En óheillandi?

Mér finnst allir strákar sem ég hef verið skotin í mjög mismunandi týpur þegar kemur að útliti en þeir eiga það sameiginlegt að vera með sjálfstraust og fyndnir. Þannig það er efst á lista en svo fylgir klár, sniðugur, skemmtilegur, góður og stemmingsmaður fast á eftir. Óheillandi væri bara þetta algengasta, dónalegur, leiðinlegur, óáhugasamur.

Ef þú værir dýr hvaða værir þú þá? Ég væri páfugl en ég væri karlkyns páfugl. Kvenkyns páfuglar eru alls ekki nógu skrautlegir.

Ef þú mættir velja einhverja þrjá einstaklinga úr sögunni (lífs eða liðna) til að bjóða í kvöldmat og spjall, hverja myndir þú velja?

Er ég eina sem er í erfiðleikum með þessar spurningar? Þrjá! Ég ætla ekki að ofhugsa þetta svo við skulum byrja á Harry Styles, RuPaul og Anthony Hopkins. En það eru svona þúsund manns sem ég væri til í að bjóða, en ég held að við fjögur myndum skemmta okkur mjög vel saman.

Býrðu yfir einhverjum leyndum hæfileikum? Ég er ótrúleg eftirherma, t.d. get ég sungið Believe alveg eins og Cher. Mínar topp eftirhermur eru Elvis Presley, Johnny Bravo og Bane úr Batman. Ég er að æfa mig í Owen Wilson.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Mér finnst skemmtilegast að fara til útlanda, dunda mér við saumavélina, fara í búningapartý, vera í kringum skemmtilegt fólk, vera ráðgjafi í ástarmálum annarra, segja frægðarsögur og endalaust fleira.

Hvað finnst þér leiðinlegast að gera? Ég er að reyna að ofhugsa ekki neitt, það fyrsta sem kom upp í hugann var að þrífa baðherbergið. Mér finnst það ekki gaman en það er gott eftir á. Mér finnst líka mjög leiðinlegt að vera með flensu og vinna í Excel. Örugglega eitthvað fleira.

Vala unir sér í sveitinni.

ValaErtu A eða B týpa? Ég er svona A mínus týpa, ég er ekki að vakna kl. 6 og fara í ræktina að djöflast. En ég er að byrja að vakna kl. 6:50 og fer svo fram úr svona 7:35.

Hvernig viltu eggin þín? Ég elska harðsoðin egg en alls ekki með mjúka rauðu, ég segi nei við mjúku rauðunni. Best að þau séu það harðsoðin að þau geti verið notuð sem vopn.

Hvernig viltu kaffið þitt? Kaffibragðlaukarnir mínir eru ekki mjög þroskaðir. Ég var alin upp á Nescafé Gold - tvær skeiðar, engin mjólk og ekkert vesen. Stundum cappuccino ef ég ætla vera menningarleg.

Þegar þú ferð út að skemmta þér, á hvaða staði ferðu? Stundum fæ ég mér 1 eða 2 Aperol Spritz á Petersen. Svo elska ég að dansa þannig það er hægt að finna mig undir diskókúlunni á Röntgen eða gólandi með trúbadornum á Irishman.

Ertu með einhvern bucket lista? Ekki skrifaðan niður en ég er með hann í hausnum og hann er alltaf að breytast. Efst á lista er að fara í neðansjávarbúr að skoða hvítháfa. Ég ætlaði að gefa mér það í útskriftargjöf 2020 en það var allt í lás og slá í Ástralíu. Svo þrái ég að sjá Suðurskautið og Serengeti þjóðgarðinn. Mig langar að líka komast í splitt og gera armbeygjur á tánum. Mörg mismunandi atriði á þessum lista.

Draumastefnumótið? Ég er oftast manneskjan sem planar hluti þannig mér finnst svo gaman þegar einhver annar planar og pælir í hvað væri skemmtilegt að gera. Ég myndi ekki segja að það þurfi að hafa mikið fyrir mér, bara hittast og spjalla og gera eitthvað skemmtilegt sama hvort að það sé Olsen-Olsen mót eða ísklifur.

Einhver söngtexti sem þú hefur sungið vitlaust?

Einn af mínum hæfileikum er að ég kann fáránlega mikið af söngtextum og syng með öllu. Í laginu Replay með Iyaz er lína sem er „my iPod stuck on replay“ en ég heyrði alltaf og söng „my eyeball stuck on replay“ sem er miklu fyndnari og betri texti.

Hvað horfðir þú á síðast í sjónvarpinu? Ég horfði á Rolling Stones heimildaþættina í línulegri, Beckham og Inside the world‘s toughest prisons svona til að hræða mig frá því að byrja að brjóta af mér.

Hvaða bók lastu síðast? Ég er alls ekki í heimsbókmenntunum en ég er á þeirri skoðun að það er alltaf gott að lesa sama hvað það er, Jane Austin eða rauðu seríuna. Núna er ég að endurlesa Fimm bækurnar eftir Enid Blyton sem ég las þegar ég var svona 8 ára. Ég kláraði fyrstu bókina, Fimm á Fagurey núna fyrir viku. Fimm í nýjum ævintýrum er komin á náttborðið.


Hvað er Ást? Æææ ástin maður. Ástin fyrir mér er bara virðing og væntumþykja. Ég hef aldrei upplifað að vera ástfangin af neinum en ég elska mjög mikið. Ég elska systur mína, kisurnar mínar, mömmu, pabba og vini mína. Fyrir mér er ást er að vilja að einhverjum vegni og líði vel.

Ég á einhvers staðar mjög gott safn af Ást er... úrklippum sem voru alltaf í Morgunblaðinu sem ég þarf að fara yfir við tækifæri.

Tengdar fréttir

Einhleypan: „Mamma bannar mér að fara út í pólitík og fá mér húðflúr“

Útvarpsmaðurinn og plötusnúðurinn Ágúst Beinteinn, þekktur sem Gústi B, lýsir sjálfum sér sem duglegum, metnaðarfullum og kolrugluðum ungum manni. Hann heillast að sjálfsöryggi þegar það kemur að samskiptum kynjanna og segir kokteilar og píla í miðbænum uppskrift að hinu fullkomna stefnumóti.

Einhleypan: Með meistaragráðu í að njóta lífsins

Kolbrún Ásta Bjarnadóttir starfar sem flugfreyja hjá Play og segist elska starfið og ævintýrin sem því fylgir. Hún lýsir sjálfri sér sem jákvæðri, opinni og hugmyndaríkri konu sem er með meistaragráðu í að njóta lífsins.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×