Neytendur

Kattakona nefndi nasista í kröfu sinni um bætur frá Icelandair

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá flugvellinum í Minneapolis og St. Paul þar sem konan fékk ekki að fara um borð.
Frá flugvellinum í Minneapolis og St. Paul þar sem konan fékk ekki að fara um borð. Unsplash.com

Viðskiptavinur Icelandair sem ætlaði að ferðast með kött yfir Atlantshafið fær engar skaðabætur eftir að hafa verið hafnað að ferðast með dýrið. Viðskiptavinurinn ávarpaði fulltrúa Samgöngustofu sem nasista.

Það var í nóvember 2022 sem konan hugðist fljúga með Icelandair frá Minneapolis til Kaupmannahafnar með millilendingu í Keflavík. Konunni var neitað um far með Icelandair þar sem hún var með kött meðferðis en ekki nauðsynleg ferðagögn til að ferðast með dýrið.

Konan innritaði sig á réttum tíma en tók í framhaldinu fram að hún væri með hjálpardýr með sér. Hún faldi dýrið undir teppi. Starfsmaður Icelandair bað um að fá að sjá dýrið og gögn frá Matvælastofnun sem ferðalöngum ber að útvega sér fyrir ferðalög með dýr.

„Halló nasisti“

Konan vildi ekki sýna köttinn, sagðist ætla að ná í gögnin en fór beint á hliðið. Hún hringdi þó inn til að spyrja um reglur varðandi að ferðast með kött og var tjáð að köttum væri ekki hleypt um borð sem hjálpardýr. Fór svo að henni var meinaður aðgangur um borð og flugvélin fór í loftið án hennar.

Hún krafðist bóta og í hönd fóru bréfaskriftir hennar og Icelandair til Samgöngustofu sem kveður upp úrskurði í bótamálum sem þessum. Í svari konunnar til Samgöngustofu hefur hún bréf sitt á orðunum: „Hello Nazi“ eða „Halló nasisti“ upp á íslensku.

Í bréfi sínu sagðist hún hafa nefnt dýrið í símtali, látið vita af fötlun sinni og beðið um að dýrinu yrði bætt við bókun. Það væru takmörk á því hversu mikillar pappírsvinnu væri hægt að krefjast af viðskiptavinum við flugbókun. Það hefði verið klúður flugfélagsins að hlusta ekki betur á viðskiptavininn og ganga frá bókun með réttum hætti.

Var ekki með leyfi

Í áliti Samgöngustofu kemur fram að fyrir liggi að konan gat ekki framvísað nauðsynlegu leyfi frá Matvælastofnun þegar hún vildi fara um borð í flugvélina. Á upplýsingasíðu Icelandair komi fram að óheimilt sé að ferðast með dýr frá Bandaríkjunum til Evrópu með millilendingu í Keflavík án slíks leyfis.

Umrædd neitun á fari sé réttmæt í ljós samningsskilamál Icelandair þar sem tiltekið er að það sé á ábyrgð farþega að afla upplýsinga um og hafa meðferðis nauðsynleg ferðaögn, áritanir og ferðaheimildir. Var kröfunni um skaðabætur og endurgreiðslu á útlögðum kostnaði því hafnað.

Tengd skjöl





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×