Fótbolti

Vatna­skil á ferli Óskars sem tekur við liði á merkum tíma­mótum

Óskar Hrafn Þor­valds­son var í gær ráðinn þjálfari FK Hau­gesund til næstu þriggja ára. Óskar hefur störf hjá fé­laginu, sem fagnar 30 ára af­mæli sínu í næstu viku, þann 1. nóvember og snýr hann þá á slóðir sem hann hefur virt fyrir sér áður.

Aron Guðmundsson skrifar
Óskar Hrafn er þjálfarinn sem forráðamenn FK Haugesund binda miklar vonir við næstu árin Vísir/Samsett mynd

Óskar Hrafn Þor­valds­son var í gær ráðinn þjálfari FK Hau­gesund til næstu þriggja ára. Óskar hefur störf hjá fé­laginu, sem fagnar 30 ára af­mæli sínu í næstu viku, þann 1. nóvember og snýr hann þá á slóðir sem hann hefur virt fyrir sér áður.

Eins og nafn fé­lagsins gefur til kynna er FK Haugesund stað­sett í bænum Hau­gesund sem saman­stendur af rétt yfir 30 þúsundum í­búum í vestur­hluta Noregs.

Haugesund á sérstakan stað í sögu Noregs, er sagt hafa verið heimili víkinganna á árum áður og þar eyddi Haraldur Hárfagri miklum tíma er hann sameinaði Noreg í eitt konungsríki árið 872.

Fagnar 30 ára af­mæli í næstu viku

FK Hau­gesund er hins vegar í sögu­legu til­liti fremur ungt fé­lag. Stofnað árið 1993, nánar til­tekið þann 28.októ­ber það ár, með sam­einingu Sports­klubben Haugar og Sjerv 1919 og fagnar því þrjá­tíu ára af­mæli í næstu viku.

Nálægð Haugesund við sjóinn minnir margt um á íslenska bæiMynd: FK Haugesund

Á­kveðið var að fé­lagið myndi taka sæti Haugar í þriðju efstu deild Noregs. Hið ný­stofnaða lið hóf sögu sína af krafti og komst í fyrstu til­raun upp úr þriðju deildinni undir stjórn Svíans Conny Karls­son. Það tók hann síðan tvö tíma­bil að koma FK Hau­gesund upp í deild þeirra bestu í Noregi.

Þaðan féll fé­lagið þó árið 1998, var að­eins eitt tíma­bil í næst­efstu deild áður en efsta deild kallaði á ný en enn á ný átti fé­lagið erfitt með að festa sig í sessi þar.

Conny Karlsson stýrði skútu FK Haugesund fyrstu ár félagsins

Í efstu deild frá því 2010

Fyrir árið 2010 hafði FK Hau­gesund mátt sætta sig við veru í neðri deildum Noregs en tíma­bilið 2009 reyndist liðinu gjöfult undir stjórn Jostein Grind­haug. FK Hau­gesund tryggði sér sæti í efstu deild á ný og hefur verið þar síðan þá.

Besti árangur FK Hau­gesund í efstu deild Noregs til þessa kom tíma­bilið 2013 þegar að liðið endaði í þriðja sæti deildarinnar, tólf stigum á eftir liði Strøms­godset sem stóð uppi sem Noregs­meistari.

Í norska bikarnum hefur FK Hau­gesund tvisvar sinnum náð alla leið í bikar­úr­slita­leikinn sjálfan. Það gerðist fyrst tíma­bilið 2007 þegar liðið laut í lægra haldi, 2-0, gegn Lillestrøm. Það var svo tíma­bilið 2019 þegar FK Hau­gesund komst aftur í úr­slita­leikinn en laut þá í lægra haldi gegn Viking.

Héldu nokkuð ó­vænt í þjálfara­leit

Það var ó­vænt af­sögn Jostein Grind­haug í septem­ber síðast­liðnum sem varð til þess að for­ráða­menn FK Hau­gesund héldu út á örkina í leit að nýjum þjálfara.

Grind­haug, sem var leik­maður fé­lagsins til margra ára, hafði stýrt liði FK Hau­gesund frá árinu 2019 en þá tók hann við stjórnar­taumunum hjá fé­laginu í annað sinn a sínum ferli eftir að hafa áður verið þjálfari liðsins árin 2009-2015.

Grind­haug taldi það best, bæði fyrir sig sjálfan sem og FK Hau­gesund, að hann hætti störfum sem þjálfari liðsins en á þeim tíma­punkti hafði stiga­söfnun liðsins verið afar dræm og sigur ekki skilað sér í hús í deildinni síðan í júlí.

Undir stjórn Grind­haug hefur FK Hau­gesund mátt sætta sig við að enda í neðri hluta norsku deildarinnar. Frá árinu 2019 hefur liðið ekki endað ofar en i 7.sæti deildarinnar sem telur alls sex­tán lið.

Óskar Hrafn Þorvaldsson tekur við FK Haugesund af þessum manni, Jostein Grindhaug, sem á sér langa sögu hjá félaginu. Bæði sem leikmaður og þjálfariMynd: FK Haugesund

Og það sama virðist vera upp á teningnum í ár. Nú þegar að sex um­ferðir eru eftir af norsku úr­vals­deildinni situr FK Hau­gesund í 13. sæti, einu stigi fyrir ofan um­spils­sæti í fall­bar­áttunni.

Hins vegar upp­lifði liðið sjald­gæfa til­finningu í síðustu um­ferð fyrir lands­leikja­hlé þegar að fyrsti sigurinn frá því í lok júlí skilaði sér í hús.

Óskar Hrafn tekur ekki við þjálfun FK Hau­gesund fyrr en eftir yfir­standandi tíma­bil. Því er það ekki endan­lega víst hvort hann muni stýra því í efstu deild eða næst­efstu deild.

FK Hau­gesund hefur unnið sex af 24 leikjum sínum á yfir­standandi tíma­bili í norsku úr­vals­deildinni, gert sex jafn­tefli og tapað 12 leikjum.

Liðið hefur skorað 21 mark í deildinni sem er næst versti árangurinn í marka­skorun á yfir­standandi tíma­bili. Þá eru þau 34 talsins, mörkin sem FK Hau­gesund hefur fengið á sig.

Stutt saga í Evrópu

Sem þjálfari Breiða­bliks gerði Óskar Hrafn liðið að Ís­lands­meisturum árið 2022. Þá náði hann þeim merka árangri með liðið á ný­af­stöðnu tíma­bili að koma liðinu alla leið í riðla­keppni í Evrópu, nánar til­tekið í Sam­bands­deild Evrópu og er það í fyrsta sinn í sögunni sem ís­lenskt karla­lið kemst svo langt í Evrópu.

Hjá FK Hau­gesund er ekki mikil Evrópu­hefð. Liðið hefur í þrí­gang tekið þátt í undan­keppni Evrópu­deildarinnar og lengst komist í þriðju um­ferð undan­keppninnar. Það var tíma­bilið 2019-2020 en þar féll FK Hau­gesund úr leik eftir 1-0 tap gegn PSV Eind­hoven í tveggja leikja ein­vígi.

Auk þessa tíma­bils tók liðið þátt í undan­keppni Evrópu­deildarinnar tíma­bilið 2017-2018 og 2014-2015.

Árið 2019 tók FK Haugesund á móti hollenska stórliðinu PSV Eindhoven í undankeppni EvrópudeildarinnarVísir/Getty

Tveir Ís­lendingar spilað fyrir FK Hau­gesund

Í þrjá­tíu ára sögu FK Hau­gesund hafa tveir Ís­lendingar verið á mála hjá fé­laginu og er annar þeirra, Kjartan Kári Hall­dórs­son með samning þar út tíma­bilið 2026. Kjartan Kári var á láni hjá Bestu deildar liði FH á ný­af­stöðnu tíma­bili og skoraði þrjú mörk í 24 leikjum.

Þá var varnar­maðurinn Andrés már Jóhannes­son á mála hjá liðinu árin 2011 til 2014. Hann spilaði 21 leik fyrir aðal­lið fé­lagsins, skoraði tvö mörk og gaf eina stoð­sendingu. 

Þess ber að geta að tíma­bilið 2013 var hann sendur á láni til upp­eldis­fé­lags síns Fylkis og gekk svo endan­lega í raðir fé­lagsins á nýjan leik árið 2014.

Andrés Már Jóhannesson í leik með FK Haugesund á sínum tímaMynd: Haugesund Avis

Í nú­verandi leik­manna­hópi FK Hau­gesund er að finna kunnug­legt nafn. Norski fram­herjinn Alexander Søder­lund, sem spilaði á sínum tíma við FH, er á mála hjá fé­laginu.

Hinn 36 ára gamli Søder­lund spilaði 20 leiki með FH tíma­bilið 2009 og skoraði fjögur mörk í þeim leikjum.

Alexander Söderlund í leik með FH Mynd/Daníel

Óskar snýr aftur til Hauga­sunds

FK Hau­gesund leikur heima­leiki sína á Hau­gesund Sparebank leik­vanginum sem tekur um 8.700 manns í sæti. Leik­vangurinn var byggður árið 1920 og stækkaður árið 2013 auk þess sem hlaupa­braut, sem var um­hverfis völlinn var fjar­lægð.

Náttúru­legt gras prýðir völl fé­lagsins og verður það í fyrsta skipti á aðal­þjálfara­ferli Óskars Hrafns sem hann stýrir liði sem leikur heima­leiki sína á slíku grasi.

Haugesund Sparebank leikvangurinn, heimavöllur FK HaugesundMynd: FK Haugesund

Þetta er hins vegar leik­vangur sem Óskar Hrafn hefur séð áður. Þar spilaði hann sem leik­maður Strøms­godset gegn FK Hau­gesund í maí tíma­bilið 1998.

Óskar Hrafn var í byrjunar­liði Strøms­godset í um­ræddum leik og lék allan leikinn í 1-1 jafn­tefli. Jostein Flo skoraði mark Strøms­godset á 16.mínútu en Asbjörn Helgeland jafnaði metin fyrr heima­menn undir lok leiks.






×