Körfubolti

Spá Vísis fyrir Subway (4.-6.): Liðin sem berjast um heima­vallar­réttinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Máté Dalmay gerði stórkostlega hluti með Haukaliðið í fyrra en tekst honum að setja saman annað öflugt lið sem keppir um efstu sæti deildarinnar.
Máté Dalmay gerði stórkostlega hluti með Haukaliðið í fyrra en tekst honum að setja saman annað öflugt lið sem keppir um efstu sæti deildarinnar. Vísir/Bára

Subway deild karla í körfubolta hefst annað kvöld og Vísir telur niður í mótið með því að spá fyrir um lokaröð liða deildarinnar næstu daga. Í dag er komið að þeim þremur liðum sem við teljum að muni berjast um fjórða sætið og fá þar með heimavallarrétt í úrslitakeppninni næsta vor.

Heimavallarrétturinn er vissulega verðugt takmark fyrir þau lið sem hafa kannski alveg burði til að keppa um deildarmeistaratitilinn. Það gæti breytt öllu að vera með heimavöllinn í fyrsta og síðasta leik í einvígi í átta liða úrslitunum þar liðið er að mæta liðinu í næsta sæti fyrir neðan.

Þau þrjú lið sem við teljum að berjist á þessum stað í töflunni eru í raun á ólíkum stöðum í ferlinu. Stjörnumenn hafa verið á niðurleið undanfarin tímabil, Grindvíkingar söfnuðu liði af krafti í sumar eftir langa bið eftir að eiga topplið og Haukarnir eru í krefjandi stöðu að fylgja á eftir spútniktímabili sínu í fyrra þegar þeir voru nýliðar í deildinni.

Það er samt nokkuð öruggt að stefnan og markmiðin eru miklu hærri en fjórða sætið í Grindavík, á Ásvöllum og í Garðabænum.

Grindvíkingar urðu síðast Íslandsmeistarar árið 2013. Tíu ára bið eftir titli er reyndar styðsta biðin meðal allra Suðurnesjaliðanna (Keflavík 2008 og Njarðvík 2006) en það hefur samt reynt á þolinmæði Grindvíkinga síðustu tímabil að eiga ekki öflugra lið.

Nú ætluðu menn í Grindavík að blása í herlúðra og sýndu það með því að fara mikinn á markaðnum í sumar. Hvort allir skila sér og hvort takist að finna alvöru leikmann undir körfuna þá er það ljóst að gangi allt upp þá verða Grindvíkingar með lið sem getur gert flotta hluti.

Litli bróðir Stjörnunnar út á Álftanesi hefur stækkað mikið síðustu árin og ef það kemur ekki Stjörnumönnum upp á tærnar þá mun fátt gera það. Stjarnan á það á hættu að vera ekki lengur besta körfuboltaliðið í bæjarfélaginu.

Arnari Guðjónssyni hefur ekki tekist að snúa við þróun síðustu ára og Stjarnan hefur gefið eftir á hverju ári. Nú fær hann Ægi Þór Steinarsson aftur inn í liðið, orkubolta sem keyrir ekki bara boltann upp völlinn heldur keyrir hann einnig upp kraftinn og sjálfstraustið í sínum liðsfélögum.

Ægir á það sameiginlegt með Stjörnunni að hafa aldrei orðið Íslandsmeistari á sínum ferli. Hann er ekki kominn aftur í Garðabæinn til að berjast um fjórða sætið í vetur heldur ætlar hann án vafa að klára það sem honum tókst ekki á þremur tímabilum sínum þar fyrir nokkrum árum. Hlynur Bæringsson er enn að spila og kannski líka að bíða eftir réttu stundinni til að setja punktinn á bak við magnaðan feril.

Haukarnir komu flestum á óvart með frammistöðu sinni í fyrra en Máté Dalmay stimplaði sig þar inn sem einn öflugasti og athyglisverðasti þjálfari deildarinnar. Nú reynir ekki aðeins á hann heldur einnig að hans menn að fylgja eftir frábæru tímabili.

Máté þarf í raun að byggja upp nýtt lið á Ásvöllum því tveir öflugir erlendir leikmenn liðsins hlupu í Þór og Grindavík og bestu íslensku strákarnir þeirra sömdu við erlend lið. Þá setti fyrirliðinn Emil Barja skóna upp á hillu. Miklar breytingar á stuttum tíma.

Þetta er því gjörólíkt Haukalið frá því í fyrra. Pressan er á Máté að sýna að síðasta tímabil hafi ekki verið nein tilviljun en á móti koma nýir leikmenn og nýtt lið koma með annars konar áskoranir fyrir hann. Haukar hafa ekki bara styrkt sig með nýjum erlendum leikmönnum en líka ungum strákum sem hafa spilað stórt hlutverk í yngri landsliðum Íslands. Það eru því hæfileikar til staðar fyrir Maté að kalla fram í dagsljósið alveg eins og í fyrra.

Ægir Þór Steinarsson hefur unnið bikara á Íslandi en bara ekki þann stóra.Vísir/Daníel Þór

Stjarnan -  6. sæti

  • Síðustu tímabil hjá Stjörnunni
  • 2022-23: 8. sæti í A-deild (Átta liða úrslit)
  • 2021-22: 6. sæti í A-deild (Átta liða úrslit)
  • 2020-21: 3. sæti í A-deild (Undanúrslit)
  • 2019-20: 1. sæti í A-deild
  • 2018-19: 1. sæti í A-deild (Undanúrslit)

Árið í fyrra: Stjörnumenn áttu sitt versta tímabil í langan tíma í fyrra en enduðu á því að skríða inn í úrslitakeppninni á síðustu stundu. Liðið vann fyrsta leik í átta liða úrslitunum en þrjú töp í röð þýddu snemmbúið sumarfrí. Stjörnuliðið hefur verið á niðurleið síðustu ár en þetta var þriðja árið í röð sem liðið lækkar sig í töflunni.

Besta frétt sumarsins: Það vildu öll lið fá landsliðsfyrirliðann Ægir Þór Steinarsson í sitt lið þegar ljóst var að hann væri á heimleið frá Spáni. Stjörnumenn duttu þar enn á ný í lukkupottinn þegar þeim tókst að sannfæra þennan frábæra bakvörð og mikla leiðtoga að koma aftur í Garðabæinn þar sem hann átti þrjú frábær ár áður en hann fór út.

Áhyggjuefnið: Stjörnumenn urðu fyrir miklu áfalli rétt fyrir mót þegar erlendur leikmaðurinn Kevin Kone kjálkabrotnaði eftir að hafa kynnst olnboganum á Adomas Drungilas. Útlendingaskiptin gengu frekar illa hjá Stjörnunni í fyrra og því allt annað en jákvæðar fréttir að þurfa að glíma við frekari vandræði með erlenda leikmann liðsins.

Þarf að eiga gott tímabil: Stjörnumenn eiga góðar minningar frá því þegar Finninn Antti Kanervo spilaði með liðinu fyrir fjórum árum síðan. Kanervo skoraði þá 3,5 þrista og 17,5 stig í leik og var lykilmaður í sigri liðsins í deildinni og bikarnum. Honum tókst þó ekki að vinna stóra titilinn en er nú mættur aftur í Garðabæinn til þess að bæta úr því.

Gæti slegið í gegn: Það var vissulega búist við meiru af Júlíusi Orra Ágústssyni í fyrra (6,7 stig í leik) en strákurinn að norðan er líklegur til að springa almennilega út í Garðabænum í vetur. Hann nýtur góðs að komu Ægis og hefur alla burði til að skila flottu hlutverki í þessu Stjörnuliði.

Bjartsýni: Berjast um deildarmeistaratitilinn.

Svartsýni: Missa af úrslitakeppninni.

Ólafur Ólafsson og félagar í Grindavík ætla sér stóra hluti á komandi tímabili.Vísir/Hulda Margrét

Grindavík - 5. sæti

  • Síðustu tímabil hjá Grindavík
  • 2022-23: 7. sæti í A-deild (Átta liða úrslit)
  • 2021-22: 7. sæti í A-deild (Átta liða úrslit)
  • 2020-21: 6. sæti í A-deild (Átta liða úrslit)
  • 2019-20: 8. sæti í A-deild
  • 2018-19: 10. sæti í A-deild (Átta liða úrslit)

Árið í fyrra: Grindavík endaði í sjöunda sæti eftir fimm sigra í röð undir lok mótsins. Liðið tapaði aftur á móti lokaleiknum og síðan öllum þremur leikjum sínum í úrslitakeppninni. Grindvíkingar hafa ekki unnið seríu í úrslitakeppni í sex ár og það er augljóst að Grindvíkingar eru búnir að bíða nógu lengi eftir að eignast aftur alvöru lið.

Besta frétt sumarsins: Grindvíkingar byrjuðu sumarið með miklum látum þegar þeir „stálu“ Dedrick Basile úr Njarðvík en þar er á ferðinni leikmaður sem er heldur betur hægt að treysta á. Frábær bakvörður sem hefur alla burði til að breyta leiknum á báðum endum vallarins.

Áhyggjuefnið: DeAndre Kane er leikmaður sem fær stjórnarmenn á þrítugsaldri til að grána í vöngum. Kemur hann eða kemur hann ekki? Það er ljóst að Kane getur breytt mjög mikæu fyrir Grindavík sé hann sá leikmaður sem sumir halda að hann sé. Sé hann úr æfingu, áhugalaus eða bara mættur til að taka ávísunina getur koma hans haft þveröfug áhrif.

Þarf að eiga gott tímabil: Daninn Daniel Mortensen hefur nýst liðum sínum vel undanfarin tímabil. Stór og öflugur skotmaður sem kann leikinn. Grindvíkingar veðjuðu á hann og ef hann er heill þá getur hann hjálpað liðinu mikið.

Gæti slegið í gegn: Arnór Tristan Helgason hefur þegar tekið sín fyrstu skref í úrvalsdeild þrátt fyrir að vera bara nýorðinn sautján ára gamall. Hann er einn af ungu Grindvíkingunum sem þurfa að nýta sér meðbyrinn með nýjum öflugum erlendum leikmönnum og taka næsta skref.

Bjartsýni: Berjast um deildarmeistaratitilinn.

Svartsýni: Missa af úrslitakeppninni.

Daníel Ágúst Halldórsson er einn af ungu strákunum sem Máté Dalmay þarf að treysta á í vetur.Vísir/Diego

Haukar - 4. sæti

  • Síðustu tímabil hjá Haukum:
  • 2022-23: 3. sæti í A-deild (Átta liða úrslit)
  • 2021-22: 1. sæti í B-deild
  • 2020-21: 12. sæti í A-deild
  • 2019-20: 6. sæti í A-deild
  • 2018-19: 10. sæti í A-deild

Árið í fyrra: Haukar voru nýliðar í Subway deildinni í fyrra en það var ekki að sjá á liðinu inn á vellinum þar sem Haukaliðið náði þriðja sætinu í deildinni. Ungir leikmenn blómstruðu og Hafnafjarðarliðið náði þessum árangri þrátt fyrir að erlendu leikmenn liðsins væru oft á tíðum einkar óheppnir með meiðsli.

Besta frétt sumarsins: Það voru margir leikmenn að spila vel í Haukaliðinu í fyrra og það var ekki eins og þeir hafi verið miklu heppnari en allir í útlendingalottóinu. Stjarnan í liðinu var því öðrum fremur þjálfarinn Máté Dalmay sem stjórnaði af festu og talaði með sannfæringarkrafti. Það voru því frábærar fréttir þegar Máté endursamdi vitandi af áhuga á honum hjá öðrum félögum í þjálfaraleit.

Áhyggjuefnið: Tveir af leikmönnunum sem blómstruðu hvað mest undir stjórn Máté Dalmay voru ungu leikmennirnir Hilmar Smári Henningsson og Orri Gunnarsson. Um tíma leit út fyrir að þeir yrðu báðir áfram en skiljanlega tóku þeir næsta skref á ferlinum þegar tilboðin duttu inn að utan. Það breytir aftur á móti myndinni fyrir Haukaliðið og aftur reynir á Maté að leita uppi blómstrandi ungblóm í leikmannahópi sínum.

Þarf að eiga gott tímabil: David Okeke hefur alla burði til að vera besti miðherji Subway deildarinnar. Nú hefur hann fengið eitt heilt tímabil til að ná úr sér hrollinum eftir mjög slæm meiðsli og ef hann nær að komast nálægt því að skila því sem hann skilaði í Keflavíkurliðinu fyrir meiðslin (19,6 stig og 11,2 fráköst í leik) þá eru Haukarnir í frábærum málum.

Gæti slegið í gegn: Sigvaldi Eggertsson er ungur leikmaður sem þarf að taka næsta skref á ferlinum og er kominn til þjálfara sem hefur náð að hjálpa efnilegum mönnum að verða að alvöru leikmönnum. Sigvaldi hefur sýnt á köflum hvað hann getur verið góður en hann þarf meiri aga og stöðugleika til að verða fullþroskaður leikmaður. Það skref gæti hann tekið í vetur.

Bjartsýni: Berjast um deildarmeistaratitilinn.

Svartsýni: Missa af úrslitakeppninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×